Grunnstoð, dótturfélag Háskólans í Reykjavík, hefur lokið endurfjármögnun á húsnæði háskólans við Menntaveg 1 með sölu á nýjum félagslegum skuldabréfum að fjárhæð 12 milljarða króna. Um er að ræða verðtryggð skuldabréf sem bera 2,25% fasta vexti til 40 ára. Töluverð eftirspurn var eftir skuldabréfunum en meðal kaupenda eru íslenskir lífeyrissjóðir, verðbréfasjóðir og fagfjárfestar. Óskað verður eftir því að skuldabréfin verði tekin til viðskipta á Aðalmarkaði Nasdaq Iceland.
Skuldabréfin falla undir nýjan félagslegan fjármögnunarramma Háskólans í Reykjavík sem er vottaður af alþjóðlega vottunarfyrirtækinu S&P Global Ratings. Í félagslegum fjármögnunarramma er útgáfa skuldabréfa og annarra fjármálagerninga tengd félagslegum markmiðum. Í tilfelli HR er stuðst við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Fjármunir sem aflað er með þessum hætti eru notaðir til að fjármagna eignir og verkefni sem hafa jákvæð samfélagsleg áhrif, í þessu tilfelli háskólamenntun. Nánari upplýsingar um félagslega fjármögnunarrammann er að finna á vef HR.
Ragnhildur Helgadóttir, rektor, segir að fjármögnun á húsnæði sé umtalsverður liður í rekstri háskólans og því sé mikilvægt að hún sé á góðum kjörum. „Þessi endurfjármögnun er afrakstur mikillar og góðrar vinnu fjölmargra, bæði starfsmanna og annarra og við erum virkilega ánægð með niðurstöðuna.“
Útgefandi skuldabréfanna er sérhæfður sjóður í rekstri Íslandssjóða, og hafði Íslandsbanki umsjón með sölu skuldabréfanna og töku þeirra til viðskipta.