Eftir talsverðar sveiflur á síðasta ári hefur krónan að mestu verið í styrkingarfasa það sem af er þessu ári, að minnsta kosti fram í ágústlok. Miðað við gengisvísitölu Seðlabankans var gengi krónu að jafnaði um 6% hærra gagnvart helstu gjaldmiðlum í ágústmánuði en það var í desember 2022. Frá septemberbyrjun hefur krónan hins vegar gefið eftir á nýjan leik og er gengi hennar þegar þetta er ritað á svipuðum slóðum og um miðjan júlímánuð, þ.e. um það bil 4% hærra en í ársbyrjun.
Hófleg frekari styrking krónu er í kortunum
Þrátt fyrir gengislækkun krónu frá septemberbyrjun hefur krónan styrkst um 4% frá ársbyrjun. Betra jafnvægi hefur ríkt á gjaldeyrismarkaði undanfarið en raunin var á síðasta ári. Horfur eru á nokkurri styrkingu krónu á komandi misserum en hátt raungengi setur frekari styrkingu hennar skorður eftir miðjan áratuginn.
Betra jafnvægi í gjaldeyrisflæði
Í nýlega birtum Fjármálastöðugleika fjallar Seðlabankinn um þróun á gjaldeyrismarkaði fram til ágústloka. Bankinn bendir á að stöðugleiki hafi einkennt markaðinn undanfarna fjórðunga, velta á millibankamarkaði verið hófleg, inngrip Seðlabankans engin síðan í janúar og flökt í gengi verið með minna móti.
Ein ástæða fyrir auknum stöðugleika á markaði er að okkar mati betra jafnvægi á utanríkisviðskiptum en síðustu ár. Á fyrri árshelmingi var viðskiptahalli einungis 4 ma.kr. samanborið við 76 ma.kr. á árinu 2022 í heild. Þá var hrein nýfjárfesting samkvæmt bókum Seðlabankans 15 ma.kr. á fyrstu átta mánuðum ársins, en í þau gögn vantar raunar flæði tengt kaupum erlendra aðila á líftæknifyrirtækinu Kerecis þar sem bókhald Seðlabankans miðar við fjármagnsviðskipti þar sem erlendum gjaldeyri er skipt yfir í krónur. Uppgefið söluverð í þeim viðskiptum nam 175 ma.kr. og ljóst er að innflæði vegna þeirra gæti á endanum orðið umtalsvert.
Þá hafa umsvif lífeyrissjóða á gjaldeyrismarkaði verið fremur stöðug undanfarna mánuði eftir talsverðar sveiflur milli mánaða á fyrsta fjórðungi ársins. Alls námu hrein gjaldeyriskaup þeirra 68 ma.kr. á fyrstu átta mánuðum þessa árs.
Loks má nefna að nokkuð hefur dregið úr framvirkri stöðutöku með krónu frá miðju ári. Í ágústlok nam hrein staða slíkra samninga við innlenda banka alls 159 ma.kr. og hafði þá minnkað um ríflega 30 ma.kr. frá miðju ári. Verður forvitnilegt að sjá hvernig þróun þessarar stöðu hefur verið á haustdögum samfara veikingu krónu undanfarnar vikur.
Útlit fyrir nokkra styrkingu krónu næstu misserin
Horfur um utanríkisviðskipti á næstunni eru tiltölulega hagfelldar í samanburði við síðustu tvö ár. Útlit er fyrir lítilsháttar viðskiptaafgang bæði í ár og næstu tvö ár eftir tveggja ára viðskiptahalla. Gæti afgangurinn numið u.þ.b. 25 ma.kr. að jafnaði ár hvert á spátímanum. Einnig lítur út fyrir að vaxtamunur gagnvart útlöndum verði áfram nokkur. Þá er erlend staða þjóðarbúsins sterk, auk þess sem verðbréfaeign erlendra aðila er fremur lítil í sögulegu samhengi og alþjóðlegum samanburði.
Á móti hugsanlegu gjaldeyrisinnflæði vega áframhaldandi erlendar fjárfestingar lífeyrissjóðanna sem hafa nú fengið rýmri heimildir hvað varðar hlutfall erlendra eigna af heildareignum en raunin var fram á þetta ár. Aðrir innlendir aðilar gætu einnig aukið við fjárfestingar erlendis þegar fram í sækir, sér í lagi ef krónan styrkist umtalsvert.
Ógerlegt er að tímasetja gengishreyfingar krónu fram í tímann af nokkurri nákvæmni og veruleg óvissa er um stærðargráðu þeirra. Í nýlega birtri þjóðhagsspá okkar er gert ráð fyrir að krónan verði um það bil 5% sterkari í lok spátímans en hún var að jafnaði í ágúst síðastliðnum. Það jafngildir því að evran kosti þá um það bil 137 kr.
Slík gengisstyrking, ásamt hraðari hækkun launa og meiri verðbólgu hérlendis en í viðskiptalöndum okkar, verður til þess að raungengi krónu hækkar töluvert. Eins og sjá má af myndinni verður raungengið líklega við sögulegt hámark að tveimur árum liðnum ef spár okkar um gengisþróun krónu og verðbólgu ganga eftir. Þar ber raunar að taka fram að líklega hefur jafnvægisraungengi krónu hækkað nokkuð frá því sem var fram á síðasta áratug með bættri erlendri stöðu þjóðarbúsins, framleiðniaukningu í útflutningsgreinum á borð við sjávarútveg og stóriðju, fleiri stoðum undir öflun útflutningstekna og fleiri þáttum.
Hátt raungengi gerir Ísland þó „dýrara“ í alþjóðlegum samanburði, ýtir undir innflutta neyslu og rýrir samkeppnisstöðu þeirra innlendu geira atvinnulífsins sem eru í samkeppni við erlend fyrirtæki, hvort sem er í útflutningi eða á innlendum markaði. Fara því líkur á frekari styrkingu krónu þverrandi eftir því sem tíminn líður og líkur á gengislækkun aukast jafnt og þétt þegar frá líður ef laun og verðlag hérlendis hækka til langframa umtalsvert hraðar en erlendis.