Í bréfi sem Warren Buffet skrifaði til hluthafa í fjárfestingarfélaginu Berkshire Hathaway sagði hann „America has been a terrific country for investors. All they needed to do is sit quietly, listening to no one“. Sama má segja um íslenskan hlutabréfamarkað sem hefur skilað góðri ávöxtun umfram verðbólgu ef við skoðum hlutabréfafjárfestingu sem langtímafjárfestingu líkt og eðlilegt er.
Undanfarin tvö ár hafa verið þung á hlutabréfamörkuðum þar sem All-Share vísitalan (vísitala yfir öll hlutabréf á Aðalmarkaði Íslands) hefur lækkað bæði árin á meðan verðbólga og stýrivextir hafa verið á uppleið. Hefði einhver, til dæmis, í ársbyrjun 2022 fjárfest í hlutabréfasjóði sem hefur þróast í takt við All-Share vísitöluna þá væri ávöxtun í lok árs 2023 neikvæð um sem nemur 12,6% og verðbólga verið 18,0% yfir þetta tveggja ára tímabil. Rauntap fjárfestingarinnar hefði verið 25,9% og árlegt tap því 13,9% miðað við tvö ár. Þessi neikvæða þróun hefur fælt margan fjárfesti frá hlutabréfamarkaðnum
Á hlutabréfamarkaði geta verið miklar sveiflur og því er nauðsynlegt að skoða ávöxtun yfir lengra tímabil. Ef við skoðum hver ávöxtun var yfir fimm ára tímabil þá hefur All-Share vísitalan hækkað um 99,8% á meðan verðbólga var 31,1% sem gerir 52,4% ávöxtun yfir verðbólgu eða að meðaltali 8,8% á ári. Svipað er uppi á teningnum ef skoðað er 10 ára tímabil þar sem meðal árs ávöxtun umfram verðbólgu hefur verið 8,0%. Til samanburðar ef við skoðum S&P 500 vísitöluna í Bandaríkjunum á tíu ára tímabilinu 2014 til 2023 þá hefur hún hækkað um 95,8% umfram verðbólgu.
Þegar innlendur hlutabréfamarkaður er skoðaður í sögulegu samhengi þá er erfitt að líta framhjá atburðunum árið 2008 þegar markaðurinn hrundi og þetta gerir sögulegan samanburð við fjárfestingar erlendis erfiðan. Fjárfestar þurfa auðvitað að vega og meta áhættu af sínum fjárfestingum. Um leið er ljóst að það umhverfi sem við búum við núna er allt annað. Fjármálaregluverk hefur verið stórbætt frá því sem var og fyrirtækin sem eru skráð á markaði hér í dag af allt öðru tagi en árið 2008.
Að fjárfesta í hlutabréfum fyrir sparifé sitt getur því verið góð ávöxtun umfram verðbólgu þó alltaf sé áhætta tengd fjárfestingum í hlutabréfum. Gott er að muna „að setja ekki öll eggin í sömu körfu“ og dreifa áhættu með því að velja, sem dæmi, vísitölusjóði sem reyna að fylgja úrvalsvísitölu Nasdaq Iceland. Muna svo orð Buffets, gefa fjárfestingunni tíma og þolinmæði þar sem óvissu léttir til lengri tíma og birtir til á mörkuðum.
Greinin birtist fyrst á Vísi.