Hlutabréf Íslandsbanka tekin til viðskipta á Nasdaq Iceland
Til að fá aðgang að gögnum þarftu að velja land og samþykkja skilmála
Hlutabréf Íslandsbanka tekin til viðskipta á Nasdaq Iceland
Reykjavík, 22. júní 2021.
Hlutabréf Íslandsbanka („bankinn“) voru tekin til viðskipta á Aðalmarkaði Nasdaq Iceland í dag, þriðjudaginn 22. júní 2021 kl. 9.30.
Skráning hlutabréfanna kemur í kjölfar vel heppnaðs hlutafjárútboðs bankans. Heildarsöluandvirði útboðsins nam allt að 55,3 milljörðum króna eða 457 milljónum bandaríkjadala. Um er að ræða stærsta frumútboð hlutabréfa sem fram hefur farið á Íslandi sem og stærsta frumútboð á evrópskum banka frá árinu 2018.
Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, hringdi inn viðskiptin við hátíðlega athöfn í höfuðstöðvum Íslandsbanka að viðstöddum fjölmörgum starfsmönnum bankans. Við það tilefni sagði Birna;
Skráningin markar upphaf á nýjum veruleika fyrir bankann sem nú er að snúa aftur í einkaeigu að hluta til. Á liðnum árum höfum við lagt áherslu á að byggja upp vel fjármagnaða, arðsama og stafræna bankastarfsemi. Við bjóðum nýja hluthafa velkomna, jafnt íslenska sem erlenda, og hlökkum til að halda áfram góðu samstarfi við aðila á fjármálamarkaði. Við höfum trú á framtíðinni og íslensku hagkerfi og Íslandsbanki mun áfram leggja sitt af mörkum til að styðja við hagkerfið til hagsbóta fyrir alla hagsmunaaðila.
Birna Einarsdóttir,
bankastjóri Íslandsbanka