Hinseginleikinn er fræðsluvettvangur sem ætlað er að stuðla að vitundarvakningu um málefni hinsegin fólks á Íslandi, fjölga fyrirmyndum og draga úr staðalímyndum. Íslandsbanki styrkir verkefnið en bankinn hefur mótað sér þann tilgang að vera hreyfiafl til góðra verka og vinnur markvisst að fjórum heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.
Á síðustu árum hefur Hinseginleikinn verið í fararbroddi í íslensku samfélagi þegar kemur að sýnileika hinsegin fólks og fjölbreytileikans. Fræðsluvettvangurinn hófst á Snapchat, þróaðist síðar yfir í sjónvarps- og hlaðvarpsþáttaseríu á RÚV og er nú haldið úti á Instagram, þar sem fólk fær að skyggnast inn í líf hinseginfólks hér á landi. Tilgangurinn er að opna umræðu og brjóta niður ýmsar hugmyndir fólks um hvað það er að vera hinsegin. Áhorfendur eiga kost á að spyrja spurninga þar sem ýmsir gestir taka reglulega yfir Instagrammið og segja sína sögu. Verkefnið hlaut viðurkenningu KYNÍS, Kynfræðifélags Íslands, árið 2016 fyrir frumkvöðlastarf á sviði kynfræða.
Stofnendur Hinseginleikans eru María Rut Kristinsdóttir og Ingileif Friðriksdóttir. Þær hafa haldið fjölmarga fyrirlestra í framhaldsskólum, fyrirtækjum og stofnunum um land allt á síðustu árum um skaðsemi staðalímynda og mikilvægi fyrirmynda þegar kemur að hinseginveruleika. Þær hafa jafnframt skrifað barnabók um fjölbreytileikann, sem kemur út í haust.