Helstu atriði í fjárhagslegri afkomu fjórða ársfjórðungs 2023 (4F23)
Hagnaður af rekstri nam 6,2 milljörðum króna á fjórða ársfjórðungi 2023 (4F22: 6,0 milljarðar króna). Arðsemi eigin fjár var 11,2% á ársgrundvelli (4F22: 11,1%). Þetta er í samræmi við uppfærða afkomuspá bankans fyrir árið 2023, sem gerir ráð fyrir að arðsemi væri á bilinu 10,7-11,7% og hærra en fjárhagslegt markmið bankans um að arðsemi eigin fjár sé yfir 10%.
- Hreinar vaxtatekjur námu 11,7 milljörðum króna á fjórða ársfjórðungi 2023 og drógust saman um 5% samanborið við 12,3 milljarða króna á 4F22.
- Vaxtamunur var 2,9% á fjórða ársfjórðungi, samanborið við 3,1% á sama ársfjórðungi 2022.
- Hreinar þóknanatekjur lækkuðu um 6,6% samanborið við fjórða ársfjórðung 2022 og námu samtals 3,8 milljörðum króna á fjórðungnum.
- Hreinar fjármagnstekjur námu 455 milljónum króna á fjórða ársfjórðungi, samanborið við fjármagnsgjöld að fjárhæð 899 milljónir króna á 4F22.
- Stjórnunarkostnaður nam 7 milljörðum króna á fjórða ársfjórðungi, samanborið við 6,5 milljarða króna á 4F22, sem er 6,9% hækkun milli ára. Fjárhæðin fyrir 4F22 er undanskilin stjórnvaldssekt að fjárhæð 300 milljónir sem gjaldfærð var á fjórða ársfjórðungi 2022.
- Kostnaðarhlutfall bankans var 42,7% á fjórðungnum, sem er í samræmi við afkomuspá bankans um kostnaðarhlutfall á bilinu 40-45% og vel undir fjárhagslegu markmiði um að kostnaðarhlutfall sé lægra en 45%. Kostnaðarhlutfallið var 40,6% á 4F22.
- Virðisrýrnun nam 1.002 milljónum króna á fjórða ársfjórðungi, 2023 samanborið við virðisrýrnun um 647 milljónir króna á fjórða ársfjórðungi 2022. Áhættukostnaður útlána (e. cost of risk) var 0,33 prósentustig á ársgrundvelli á fjórða ársfjórðungi samanborið við 0,22 prósentustig á sama ársfjórðungi 2022.
- Útlán til viðskiptavina jukust um 12,9 milljarða króna á fjórðungnum, eða um 1,1% frá þriðja fjórðungi og voru 1.223 milljarðar króna í lok fjórða ársfjórðungs 2023.
- Innlán frá viðskiptavinum drógust saman um 13,5 milljarða króna á fjórða ársfjórðungi frá þriðja ársfjórðungi, eða um 1,6%. Innlán frá viðskiptavinum námu 851 milljarði króna í lok fjórðungsins.
- Eigið fé nam 224,7 milljörðum króna í lok ársfjórðungsins, samanborið við 218,9 milljarða króna í lok árs 2022.
- Eiginfjárhlutfall var 25,3% í lok fjórða ársfjórðungs 2023, samanborið við 22,2% í árslok 2022. Samsvarandi eiginfjárhlutfall almenns þáttar 1 (CET1) var 21,4%, samanborið við 18,8% í árslok 2022, sem er 620 punktum yfir kröfum eftirlitsaðila, og hærra en fjárhagslegt markmið bankans um að vera með 100-300 punkta eiginfjár svigrúm umfram kröfur eftirlitsaðila.
Helstu atriðin í afkomu ársins 2023
- Hagnaður af rekstri á árinu 2023 nam 24,6 milljörðum króna (2022: 24,5 milljarðar króna), og arðsemi eigin fjár var 11,3% á ársgrundvelli, samanborið við 11,8% fyrir árið 2022.
- Hreinar vaxtatekjur námu 48,6 milljörðum króna á árinu, sem er aukning um 12,7% samanborið við fyrra ár. Vaxtamunur á árinu 2023 var 3,0%, en var 2,9% árið áður.
- Hreinar þóknanatekjur jukust um 1,3% á milli ára, og námu 14,2 milljörðum króna á árinu, samanborið við 14,1 milljarð króna fyrir árið 2022.
- Hreinar fjármagnstekjur voru 241 milljón króna á árinu 2023, samanborið við fjármagnsgjöld að fjárhæð 1.257 milljónir króna árið 2022.
- Stjórnunarkostnaður á árinu 2023 nam 26,7 milljörðum króna, ef frá er talin 860 milljón króna stjórnvaldssekt sem gjaldfærð var á öðrum ársfjórðungi. Samanborið við 2022 þegar stjórnunarkostnaðurinn var 23,6 milljarðar króna, þegar frá er talin stjórnvaldssekt að fjárhæð 300 milljónir króna, sem gjaldfærð var á fjórða ársfjórðungi 2022.
- Kostnaðarhlutfall fyrir árið 2023 var 41,6%, hið sama og það var fyrir árið 2022.
- Innlán frá viðskiptavinum jukust milli ára um 7,7%, úr 790 milljörðum króna í lok árs 2022 í 851 milljarð króna í lok árs 2023.
- Virðisrýrnun á fjáreignum nam 1.015 milljónum króna árið 2023 en var jákvæð um 1.576 milljónir króna árið 2022.
Bestun efnahagsreiknings, arðgreiðslur og útgreiðsla á umfram eigin fé - Stjórn Íslandsbanka mun leggja til 12,3 milljarða króna arðgreiðslu við aðalfund bankans í mars. Það er í samræmi við arðgreiðslustefnu bankans um að greiða um 50% af hagnaði fyrra árs í arð til hluthafa.
- Samhliða birtingu ársuppgjörs fyrir árið 2022 í febrúar 2023 kynnti Íslandsbanki áform sín um að hefja 5 milljarða króna endurkaup á eigin bréfum. Árið 2023 keypti bankinn samtals 20.390.831 eigin hluti, sem samsvarar 1,02% af útgefnu hlutafé á grundvelli endurkaupaáætlunar sinnar. Heildarfjárhæð sem varið var til endurkaupa á árinu nam alls 2,3 milljörðum króna.
- Bankinn heldur áfram að kanna leiðir til að ná fram bestun á eiginfjársamsetningu sinni. Útgreiðsla á allt að 10 milljörðum króna af umfram eigin fé almenns þáttar 1 (CET1), með endurkaupum á eigin bréfum, mun halda áfram á árinu 2024, að því gefnu að aðalfundur samþykki tillögu þess efnis á aðalfundi bankans. Frekari bestun á samsetningu eiginfjár er áætluð fyrir lok árs 2025, að teknu tilliti til markaðsaðstæðna.