Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Vinnumarkaður leitar jafnvægis

Heldur hefur dregið úr spennu á vinnumarkaði og kaupmáttur heldur sjó. Launavísitala hækkaði lítillega á milli mánaða og árshækkun er á svipuðu reiki og verðbólga.


Launavísitala hækkaði um 0,5% í janúar frá fyrri mánuði samkvæmt nýlega birtum tölum Hagstofunnar. Tólf mánaða hækkun launavísitölunnar nemur nú 7,0%. Á sama tíma hækkaði vísitala grunnlauna um 0,4% milli mánaða og um 6,4% á milli ára. Ársverðbólga mældist 6,7% samkvæmt gögnum Hagstofu frá janúar síðastliðnum. Þróun launa og verðbólgu hefur því verið á svipuðu reiki og kaupmáttur jókst lítillega í janúar miðað við launavísitölu, en miðað við vísitölu grunnlauna varð hins vegar lítilsháttar samdráttur í kaupmætti.  Útlit fyrir allhraða hjöðnun verðbólgu næstu fjórðunga gefur von um frekari kaupmáttaraukningu, sér í lagi ef vel spilast úr yfirstandandi kjaraviðræðum.

Til þess að ekki dragi úr kaupmætti þarf verðbólga fyrst og fremst að þróast til betri vegar. Ef kjaraviðræður reynast farsælar, gengi krónu helst nokkuð stöðugt og aðrar helstu forsendur nýlegrar þjóðhagsspár okkar ganga eftir eru horfur á kaupmáttarvöxt næstu árin. Í þjóðhagsspá okkar gerum við ráð fyrir ríflega 1% vexti kaupmáttar í ár, 2,2% árið 2025 og 1,6% árið 2026.

Dregur úr spennu á vinnumarkaði

Atvinnuleysi jókst í janúar frá fyrri mánuði og mælist nú 3,8% samkvæmt gögnum frá Vinnumálastofnun. Aukningin nemur því 0,2% frá því í desember og 0,1% frá sama mánuði í fyrra. Atvinnuleysi hefur ekki mælst hærra á þennan kvarða síðan í maí 2022 þegar það nam 3,9%. Mest atvinnuleysi var á Suðurnesjum 6,7% þar sem það jókst um 1,1% á milli mánaða. Í nýlegri Þjóðhagsspá Íslandsbanka spáðum við 3,9% atvinnuleysi að jafnaði á þessu ári sem er í línu við nýjustu tölur. Tölurnar gefa til kynna heldur minni spennu á vinnumarkaði en undanfarin misseri sem útskýrast ekki einungis af hefðbundnum árstíðarsveiflum í ferðaþjónustu.

Spenna á vinnumarkaði er enn talsverð þó margt bendi til þess að hún sé að minnka í takt við minni innlenda eftirspurn og hægari útflutningsvöxt. Einnig virðist hafa dregið úr skorti á starfsfólki samkvæmt könnun meðal 400 stærstu fyrirtækja landsins sem Gallup framkvæmir reglulega fyrir Samtök Atvinnulífsins og Seðlabankann. Stjórnendur sem töldu skort vera á starfsfólki hjá sínu fyrirtæki voru 34% samkvæmt könnuninni á lokafjórðungi síðasta árs en hlutfallið hefur ekki mælst lægra frá árinu 2021 en hæst mældist það 56% á þriðja ársfjórðungi 2022.

Með hægari vexti í hagkerfinu teljum við að spenna á vinnumarkaði muni minnka enn frekar á næstunni og atvinnuleysi muni aukast lítillega. Við spáum 4,0% atvinnuleysi að jafnaði árin 2025 og 2026.

Ferðaþjónustan gæti skipt sköpum

Ferðaþjónustan kemur líklega til með að vera ráðandi þáttur í þróun atvinnuleysis á næstu misserum. Í nýlegri Þjóðhagsspá Íslandsbanka er áframhaldandi vexti ferðaþjónustu spáð þar sem teikn eru á lofti um að 2024 verði metár hvað ferðamannafjölda varðar. Alls gerum við ráð fyrir því að ríflega 2,4 milljónir ferðafólks heimsæki Ísland í ár. Nýlegar fréttir af hugsanlegu bakslagi í bókunum og áhyggjum af minnkandi tekjum á hvern ferðamann vekja greinendur til umhugsunar eins og við fjölluðum nýlega um. Ljóst er að slík þróun gæti haft talsverð áhrif á þróun vinnumarkaðar, og þar með talið þróun atvinnuleysis.

Íslenskur vinnumarkaður er býsna sveigjanlegur í samanburði við flest önnur iðnríki. Kemur þar ýmislegt til, svo sem tiltölulega auðvelt streymi vinnuafls til og frá landinu, mikil atvinnuþátttaka námsfólks, sveiflur í spurn eftir framhaldsmenntun sem markast af þróun atvinnuleysis og sveigjanleiki í starfslokum þeirra sem eru að ljúka starfsævi sinni. Það er því ólíklegt að mikið atvinnuleysi verði verulegur dragbítur á lífskjör og vöxt hér á landi á komandi árum en vissulega bendir margt til þess að vinnumarkaður sæki í aukið jafnvægi á komandi fjórðungum eftir mikla spennu undanfarin misseri.

Höfundur


Profile card

Birkir Thor Björnsson

Hagfræðingur


Hafa samband