Kortavelta innlendra greiðslukorta að fyrirtækjakortum frátöldum var ríflega 98 ma.kr. í september síðastliðnum samkvæmt nýlegum tölum Seðlabankans. Í krónum talið var um ríflega 5% aukningu að ræða milli ára. Annað kemur hins vegar á daginn þegar leiðrétt er fyrir þróun verðlags og gengis krónu. Á þann mælikvarða skrapp kortavelta heimila saman um 1,6% á milli ára í september.
Heimilin skipta niður í fyrsta neyslugír
Kortavelta íslenskra heimila skrapp saman að raunvirði milli ára í september, sjötta mánuðinn í röð. Á sama tíma jókst velta erlendra korta í innlendri verslun og þjónustu í takti við fjölgun ferðamanna og var gjaldeyrisinnflæði tengt kortaveltu líklega tæpir 10 ma.kr. í mánuðinum. Þróun kortaveltu er skýrt merki um viðsnúning í einkaneyslu landsmanna síðustu mánuði eftir öran vöxt misserin á undan.
Samdráttur varð í kortaveltu innlendra korta milli ára bæði hérlendis (-1,3%) og utan landsteinanna (-4,2%), reiknað á föstu verðlagi og gengi. Á þennan mælikvarða hefur mælst samdráttur í veltu innanlands í sex mánuði samfleytt, en í fjóra mánuði sé horft til kortaveltu erlendis.
Umtalsvert gjaldeyrisinnflæði tengt kortaveltu
Samdráttur í veltu korta íslenskra heimila utan landsteinanna helst í hendur við viðsnúning í ferðagleði landsmanna. Tölur Ferðamálastofu um brottfarir Íslendinga um Keflavíkurflugvöll sýna þannig að eftir myndarlegan vöxt allt frá því ferðatakmörkunum vegna faraldursins var aflétt fram á fyrsta fjórðung þessa árs hefur utanlandsferðum landsmanna fækkað milli ára allt frá apríl síðastliðnum ef júlí er undanskilinn. Til að mynda fóru tæplega 47 þúsund Íslendingar af landi brott um Keflavíkurflugvöll í september sem svarar til ríflega fimmtungs samdráttar frá sama mánuði 2022. Líkast til skýrist hlutfallslega minni samdráttur í kortaveltu erlendis en í utanferðum bæði af vaxandi netverslun milli ára og eins hinu að hver og einn hafi að jafnaði straujað kort sín af heldur meira kappi í utanlandsferð sinni nú í haust en fyrir ári síðan.
Á sama tíma hélst þróun kortaveltu erlendra korta í verslun og þjónustu hérlendis nokkurn veginn í hendur við fjölgun ferðafólks hér á landi á milli ára. Í september voru erlend kort straujuð fyrir rúma 33 ma.kr. sem jafngildir fimmtungs aukningu í krónum talið á milli ára. Var gjaldeyrisinnflæði vegna slíkrar kortaveltu 9,5 ma.kr. meira en útflæði vegna erlendrar veltu íslenskra korta. Þetta flæði, sem við höfum kallað kortaveltujöfnuð, hefur verið jákvætt (þ.e. velta erlendra korta hérlendis meiri en velta íslenskra korta utan landsteinanna) samfleytt frá maí síðastliðnum. Á 3. ársfjórðungi var kortaveltujöfnuðurinn jákvæður um tæpa 45 ma.kr. en til samanburðar var jöfnuðurinn jákvæður um tæpa 32 ma.kr. á sama tímabili í fyrra.
Einkaneysla komin í fyrsta gír?
Kortavelta er einn þeirra hagvísa sem gefa hvað skýrasta vísbendingu um þróun einkaneyslu á hverjum tíma enda eru greiðslukort notuð til greiðslu fyrir langstærstan hluta neyslu íslenskra heimila. Eins og sést á myndinni hefur verið allgóð fylgni milli ársbreytingar kortaveltu á föstu gengi og verðlagi annarsvegar, og einkaneyslu hins vegar. Þó eru þar undantekningar og má nefna að kortaveltan á 2. ársfjórðungi skrapp saman um 5,5% á þennan mælikvarða en samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofunnar jókst einkaneysla um 0,5% á sama tíma.
Á 3. fjórðungi skrapp kortavelta saman um 2,5% að raungildi. Það bendir til þess að heimilin hafi hert nokkuð beltið á milli ára í ljósi verulegrar verðbólgu og hárra vaxta. Hins vegar jókst kaupmáttur launa á tímabilinu auk þess sem væntingar almennings um efnahagslíf og atvinnuástand réttu heldur úr kútnum á fjórðungnum frá fjórðungnum á undan. Hugsanlega hefur einkaneyslan á fjórðungnum verið heldur líflegri en kortaveltuþróunin gefur til kynna þótt það sé einnig mögulegt að heimilin séu að leggja meira fyrir í sparnað en áður. Loks ber að hafa í huga að kaupmáttur launa tekur ekki tillit til áhrifa hækkandi vaxta á ráðstöfunartekjur launafólks.
Í öllu falli bendir flest til þess að einkaneysla hafi í besta falli aukist lítillega á fjórðungnum eða hugsanlega dregist nokkuð saman. Það væri viðsnúningur eftir mikinn einkaneysluvöxt allt frá vordögum 2021 fram undir lok síðasta vetrar. Við spáðum því í nýlegri þjóðhagsspá okkar að hægari einkaneysluvöxtur yrði meðal helstu skýringa á mun minni hagvexti í ár en var í fyrra. Styðja framangreindar tölur við þá spá okkar og við teljum líklegt að þróunin verði áfram á svipuðum nótum næstu fjórðunga.