Kortavelta innlendra greiðslukorta nam tæpum 130 ma.kr. í desember síðastliðnum og jókst um tæp 4% í krónum talið frá sama mánuði í fyrra. Þegar leiðrétt er fyrir þróun verðlags og gengis krónu skrapp kortavelta heimila saman um 1,8% á milli ára í desember. Kortavelta hefur nú skroppið saman að raunvirði níu mánuði í röð.
Heimilin hertu beltin í jólamánuðinum
Áfram mælist samdráttur í kortaveltu heimila miðað við nýbirtar tölur fyrir desembermánuð. Kortaveltan bendir til samdráttar í einkaneyslu á lokafjórðungi nýliðins árs. Viðsnúningur varð í þróun eftirspurnar í hagkerfinu á seinni helmingi síðasta árs og vaxtahækkunarferli Seðlabankans líklega á lokametrunum eða nú þegar á enda runnið.
Kortavelta heimila hér innanlands skrapp saman um tæplega 3% að raunvirði í desember en athyglisvert er að kortavelta Íslendinga erlendis jókst um 3% að raunvirði á sama tímabili. Fram að þessu hafði kortavelta erlendis dregist saman 6 mánuði í röð. Þrátt fyrir aukningu á kortaveltu erlendis voru færri Íslendingar á faraldsfæti í desember en á sama tíma ári fyrr. Alls fóru 36 þúsund Íslendingar um Keflavíkurflugvöll í desembermánuði en árið 2022 var fjöldinn 43 þúsund, sem gerir 15% fækkun á milli ára. Það sem gæti skýrt þessa aukningu í desembermánuði er erlend netverslun. Íslensk heimili hafa tileinkað sér að versla talsvert á netinu og gæti verið að jólagjafirnar hafi verið keyptar í meiri mæli á erlendum netverslunum fyrir síðustu jól en ári fyrr.
Kortaveltutölur vísbending um áframhaldandi samdrátt í einkaneyslu
Nú eru komnar kortaveltutölur fyrir allt árið 2023. Í samanburði við árið 2022 dróst kortaveltan á nýliðnu ári saman um tæplega 2% að raunvirði. Það er talsverð breyting frá undanförnum tveimur árum. Til að mynda var vöxturinn 2022 ríflega 9% á milli ára að raunvirði og hélst í hendur við öran einkaneysluvöxt. Þessi viðsnúningur rímar auðvitað við kólnun hagkerfisins sem er að eiga sér stað um þessar mundir. Kortavelta gefur góða vísbendingu um þróun einkaneyslunnar sem dróst saman á þriðja ársfjórðungi síðasta árs í fyrsta sinn frá árinu 2020. Útlit er fyrir að samdráttur verði einnig í pípunum á lokafjórðungi ársins.
Að okkar mati eru vaxtahækkanir Seðlabankans farnar að skila talsverðum árangri í að kæla hagkerfið, í það minnsta hvað eftirspurn varðar. Auk einkaneyslunnar eru ýmsar vísbendingar um að fjárfesting hafi staðnað eða dregist saman á seinni helmingi síðasta árs. Peningastefnunefnd Seðlabankans andar líklega léttar að sjá að landsmenn eru í meiri mæli farnir að draga úr neyslu og auka sparnað. Að öðru óbreyttu teljum við líklegt að vaxtahækkunarferli Seðlabankans sé á lokametrunum, ef það er nú ekki þegar á enda runnið.