Við spáum því að vísitala neysluverðs (VNV) hækki um 0,7% í mars frá fyrri mánuði. Gangi spáin eftir mun 12 mánaða verðbólga hjaðna úr 10,2% í 10%. Helsta skýringin á mánaðarhækkuninni eru verðhækkanir á matvörum og flugfargjöldum. Við spáum því að verðbólgutoppnum hafi verið náð í febrúar og verðbólga hjaðni á næstu mánuðum, þó hægar en við áður töldum. Hagstofan birtir vísitölu neysluverðs fyrir mánuðinn þann 28. mars næstkomandi.
Hefur verðbólga náð toppi?
Við gerum ráð fyrir að verðbólga hafi náð toppi í febrúar og muni hjaðna í mars. Ef spá okkar gengur eftir mun ársverðbólga mælast 10%. Verðbólgan um þessar mundir er á ansi breiðum grunni og óvissan um nærhorfurnar mikil. Samt sem áður væntum við þess að verðbólga muni hjaðna á næstu mánuðum.
Flestir liðir hækka á milli mánaða
Það sem vegur þyngst til hækkunar í marsmánuði eru hækkanir á matvöruverði. Samkvæmt mælingu okkar hækkar verð um 1,4% (0,21% áhrif á VNV) á milli mánaða. Matur og drykkjarvörur hafa hækkað í verði um tæplega 4% frá áramótum en ýmsir innflytjendur á matvöru tilkynntu verðbreytingar um áramótin. Þessar hækkanir eru að birtast í verðinu núna og munu líklega halda því áfram á næstu mánuðum, þó með hægara móti. Vonir standa til að matvöruverð muni svo finna sitt jafnvægi á vormánuðum að öðru óbreyttu en til að mynda hefur hrávöruverð erlendis lækkað að undanförnu.
Það sem einnig vegur þungt í marsmælingunni eru flugfargjöld sem hækka um 10,1% (0,20% áhrif á VNV) samkvæmt mælingu okkar. Flugverð á það til að hækka í kringum páska en páskarnir eru snemma í apríl þetta árið. Líklega mun flugverð því hækka minna í apríl en oft áður þar sem verðmæling Hagstofunnar í aprílmánuði á sér stað eftir páska.
Einnig hækka fatnaður og skór í verði um 2,9% (0,09% áhrif á VNV) samkvæmt spá okkar ásamt húsgögnum og heimilisbúnaði sem hækka um 1,2% (0,08% áhrif á VNV).
Aðrir helstu liðir sem hækka á milli mánaða eru tómstundir og menning (0,05% áhrif á VNV), hótel og veitingastaðir (0,04% áhrif á VNV) ásamt annarri vöru og þjónustu (0,03% áhrif á VNV).
Íbúðaverð heldur aftur af verðbólgu
Það sem er jákvætt við verðbólguþróunina síðustu mánuði er íbúðamarkaðurinn. Markaðsverð íbúðarhúsnæðis hefur nú lækkað tvo mánuði í röð og haldið aftur af hækkun vísitölunnar. Vaxtaþátturinn, sem byggir á vöxtum verðtryggðra lána, hefur þó orðið til þess að reiknaða húsaleigan hefur hækkað síðustu mánuði. Við spáum því að reiknaða húsaleigan muni nú lækka um 0,1% í marsmánuði (-0,01% áhrif á VNV) og þar með lækka í fyrsta skipti frá því í nóvember 2020. Við teljum að liðurinn haldi áfram að lækka örlítið næstu mánuði þar sem þessir tveir þættir munu vegast á, markaðsverð íbúðarhúsnæðis og vaxtaþátturinn.
Aðrir undirliðir í húsnæðisliðnum hækka á milli mánaða. Greidd húsaleiga mun hækka í verði um 0,9% (0,04% áhrif á VNV) samkvæmt spá okkar auk þess sem viðhald og viðgerðir á húsnæði munu hækka um 0,7% (0,01% áhrif á VNV).
Verðbólgan hjaðnar, eða hvað?
Verðbólga í febrúar fór yfir 10% múrinn í fyrsta sinn frá haustinu 2009. Verðbólgan er á býsna breiðum grunni en allir mælikvarðar á undirliggjandi verðbólgu hækkuðu í febrúar og eru þeir allir langt yfir verðbólgumarkmiði Seðlabankans.
Ef rýnt er í verðbólguna eftir eðli og uppruna hafa allir liðir fyrir utan húsnæði vegið til vaxandi verðbólgu að undanförnu. Af 10,2% verðbólgu í febrúar skýrir húsnæðisliðurinn 3,3% af heildarverðbólgunni, innfluttar vörur skýra um 2,9%, þjónusta um 2,2% og innlendar vörur um 1,8%.
Við, eins og aðrir greinendur, höfum undanfarið verið of bjartsýn um verðbólguhorfur og er óvissan um nærhorfurnar mikil. Á næstu mánuðum munu stórir hækkunarmánuðir þó detta út úr ársverðbólgunni og þess vegna teljum við að verðbólga muni hjaðna. Í bráðabirgðaspá okkar spáum við 0,4% hækkun í apríl, 0,3% í maí og 0,5% í júní. Gangi spá okkar eftir mun verðbólga mælast 7,6% í júní. Þetta er þó hægari hjöðnun en við höfðum áður gert ráð fyrir. Við gerum svo ráð fyrir að verðbólga verði að jafnaði 8,0% á árinu.
Það er langur vegur framundan og margt sem þarf að ganga upp til að verðbólgan hjaðni í markmið Seðlabankans. Í gærmorgun birtum við stýrivaxtaspá þar sem við spáum því að Seðlabankinn hækki stýrivexti um 0,75 prósentur í næstu viku til að bregðast við þrálátari verðbólgu.
Höfundur
Lagalegur fyrirvari
Skýrsla þessi er tekin saman af Greiningu Íslandsbanka hf. (Íslandsbanki).
Upplýsingar í skýrslu þessari eru upprunnar frá innlendum og erlendum upplýsinga- og fréttaveitum, sem taldar eru áreiðanlegar, ásamt opinberum upplýsingum, eigin úrvinnslu Greiningar og mati á hverjum tíma. Upplýsingarnar hafa ekki verið kannaðar sjálfstætt af Íslandsbanka og ábyrgist bankinn ekki nákvæmni upplýsinganna, áreiðanleika eða réttmæti þeirra. Skoðanir höfunda geta breyst án fyrirvara og ber Íslandsbanka ekki skylda til að uppfæra, lagfæra eða breyta skýrslunni við breyttar forsendur.
Skýrslan er einungis birt í upplýsingaskyni og skal því ekki litið á hana sem ráðleggingu/ráðgjöf um að ráðast eða ráðast ekki í tiltekna fjárfestingu eða tilboð um að kaupa, selja eða skrá sig fyrir tilteknum fjármálagerningum. Íslandsbanki og starfsmenn bankans bera ekki ábyrgð á viðskiptum sem kunna að vera gerð á grundvelli þeirra upplýsinga sem fram koma í skýrslunni. Þeim aðilum sem hafa hug á viðskiptum er bent á að leita sér sérfræðilegrar ráðleggingar og kynna sér vel hina ýmsu fjárfestingarkosti sem í boði eru. Fjárfestingum fylgir ávallt fjárhagsleg áhætta og ber m.a. að hafa í huga áhættu vegna alþjóðlegra fjárfestinga og gengisflökts gjaldmiðla. Fjárfestingamarkmið og fjárhagsstaða fjárfesta er mismunandi. Bent skal á að árangur í fortíð er ekki trygging um árangur í framtíð.
Skýrslur og aðrar upplýsingar sem berast frá Íslandsbanka eru einungis ætlaðar til einkanota. Hvorki má afrita efnið, vitna í það né dreifa því, í heild eða að hluta, án skriflegs leyfis frá Íslandsbanka.
Skýrsla þessi er stutt samantekt og ber ekki að líta svo á að í henni sé að finna allar tiltækar upplýsingar um þau viðfangsefni sem hún fjallar um.
Eftirlitsaðili: Fjármálaeftirlitið (www.fme.is).
BANDARÍKIN
Skýrslu þessari eða afritum hennar má ekki dreifa í Bandaríkjunum eða til viðtakenda sem eru bandarískir ríkisborgarar í andstöðu við takmarkanir sem kveðið er á um í bandarískum lögum. Dreifing skýrslunnar í Bandaríkjunum kynni að teljast brot á þeim lögum.
KANADA
Upplýsingarnar í skýrslu þessari eru ekki ætlaðar til dreifingar eða útbreiðslu með neinum hætti í Kanada og því ber ekki að líta á þær sem fjármálaráðgjöf eða ráðleggingu um fjárfestingar í skilningi kanadískra verðbréfalaga.
ÖNNUR LÖND
Lög og reglugerðir í öðrum löndum kunna einnig að takmarka dreifingu skýrslu þessarar.