Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Hart en skammvinnt samdráttarskeið í kortunum?

Útlit er fyrir að samdráttur landsframleiðslu á Íslandi í ár verði að svipaðri stærðargráðu og samdrátturinn árið eftir fjármálahrunið 2008. Öfugt við þróunina þá eru hins vegar allgóðar líkur á því að vöxtur verði myndarlegur strax á næsta ári. Horfur eru á að verðbólga verði skapleg og utanríkisviðskipti í sæmilegu jafnvægi á komandi misserum.


Válynd veður í heimshagkerfinu

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn birti nýverið vorspá sína um alþjóðahagkerfið. Eins og nærri má geta lita áhrif COVID-19 faraldursins spána talsvert dökkum litum. Í stað ríflega 3% vaxtar á heimsvísu sem sjóðurinn spáði í ársbyrjun telur hann nú að heimsframleiðsla dragist að raungildi saman um 3% á árinu 2020. Er það meiri samdráttur en var í heimshagkerfinu árin 2008-2009 að sögn sjóðsins.

Grunnsviðsmynd, sem gerir ráð fyrir að faraldurinn hjaðni á seinni helmingi þessa árs, hljóðar upp á 5,8% heimshagvöxt á næsta ári. Hins vegar er tekið fram að hættan á lakari þróun sé umtalsverð. Grunnmyndin byggir á þeirri forsendu að áhrif faraldursins fari hjaðnandi á seinni helmingi þessa árs og að samkomu- og ferðatakmörkunum verði aflétt jafnt og þétt samhliða. Verði faraldurinn í algleymingi fram yfir mitt ár eða taki hann sig upp að nýju verður samdrátturinn í ár dýpri og hljóðar svartasta sviðsmynd AGS til að mynda upp á 11% samdrátt á heimsvísu í ár.

Grunnspá AGS hljóðar upp á 5,8% hagvöxt á heimsvísu á næsta ári. Sjóðurinn gerir ráð fyrir að samdrátturinn verði dýpri í ár (-6,1%) og efnahagsbatinn hægari 2021 (4,5%) í þróuðum hagkerfum. Líkt og fyrir þetta ár er hættan á hægari bata á næsta ári töluverð að mati AGS.

Krappur samdráttur á Íslandi í ár..

Í spá AGS má finna spá fyrir nokkra helstu hagvísa íslenska hagkerfisins. Telur sjóðurinn að verg landsframleiðsla (VLF) á Íslandi dragist saman um 7,2% í ár. Gangi sú spá eftir verður um að ræða mesta samdrátt undanfarinna 100 ára, en til samanburðar skrapp VLF saman um 6,8% árið 2009. Hins vegar er sá reginmunur á spánni nú og þróuninni fyrir áratug að spáð er 6,0% hagvexti hér á landi strax á næsta ári en árið 2010 fylgdi 3,4% samdráttur hinu mikla falli VLF árið áður. Þarna gerir að okkar mati gæfumuninn að efnahagsreikningar bæði einkageirans,  hins opinbera og síðast en ekki síst þjóðarbúsins gagnvart útlöndum voru með traustara móti áður en áfallið reið yfir. Auk þess eru góðar líkur á að helsta útflutningsgreinin, ferðaþjónusta, taki nokkuð myndarlega við sér að nýju á komandi ári.

..en ljós við enda ganganna

Þrátt fyrir harðan skell á ferðaþjónustuna í ár gerir AGS ráð fyrir að utanríkisviðskipti verði áfram fremur hagstæð. Spá sjóðsins hljóðar upp á viðskiptaafgang sem nemur 2,1% af VLF í ár og 3,4% á næsta ári. Tökum við í stórum dráttum undir þá skoðun AGS að þrátt fyrir verulegan samdrátt í útflutningstekjum sé ekki þar með sagt að utanríkisviðskipti fari í hið gamla hallafar enda munu innflutningsútgjöld dragast talsvert saman á móti. Þótt ekki sé birt spá um þróun krónu má leiða að því líkum að AGS geri ekki ráð fyrir verulegri viðbótarveikingu krónu þar sem verðbólguspá hans fyrir Ísland hljóðar upp á 2,3% verðbólgu í ár og 2,5% verðbólgu að jafnaði á næsta ári. Hins vegar gerir sjóðurinn ráð fyrir að atvinnuleysi aukist verulega í ár og mælist að jafnaði 8% að vinnuafli.

Seðlabankinn birti í síðasta mánuði yfirlit yfir tvær sviðsmyndir um möguleg áhrif COVID-19 faraldursins á íslenska hagþróun. Áhugavert er að bera þær saman við hina nýju spá AGS. Þar er þó vert að hafa í huga að þróun síðustu vikna hefur verið hröð og skammtímahorfur dökknað hratt. Hér skoðum við til að mynda aðeins þá svartsýnni af sviðmyndum bankans þar sem að okkar mati eru litlar líkur á að bjartsýnni sviðsmyndin muni ganga eftir úr því sem komið er.

Eins og sjá má gerir Seðlabankinn ráð fyrir minni samdrætti VLF í ár en AGS. Þá er bankinn bjartsýnni á atvinnuhorfur er sjóðurinn þótt munurinn þar á milli sé raunar ekki ýkja mikill. Loks gerir Seðlabankinn ráð fyrir minni verðbólgu en AGS í ár þótt raunar sé ekki hægt að telja sjóðinn svartsýnan á verðbólguþróunina. Því má bæta við að nýleg verðbólguspá okkar er á mjög svipuðum nótum og spá AGS og hljóðar upp á verðbólgu í grennd við 2,5% verðbólgumarkmið Seðlabankans bæði þetta ár og það næsta.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband