Grunnsviðsmynd, sem gerir ráð fyrir að faraldurinn hjaðni á seinni helmingi þessa árs, hljóðar upp á 5,8% heimshagvöxt á næsta ári. Hins vegar er tekið fram að hættan á lakari þróun sé umtalsverð. Grunnmyndin byggir á þeirri forsendu að áhrif faraldursins fari hjaðnandi á seinni helmingi þessa árs og að samkomu- og ferðatakmörkunum verði aflétt jafnt og þétt samhliða. Verði faraldurinn í algleymingi fram yfir mitt ár eða taki hann sig upp að nýju verður samdrátturinn í ár dýpri og hljóðar svartasta sviðsmynd AGS til að mynda upp á 11% samdrátt á heimsvísu í ár.
Grunnspá AGS hljóðar upp á 5,8% hagvöxt á heimsvísu á næsta ári. Sjóðurinn gerir ráð fyrir að samdrátturinn verði dýpri í ár (-6,1%) og efnahagsbatinn hægari 2021 (4,5%) í þróuðum hagkerfum. Líkt og fyrir þetta ár er hættan á hægari bata á næsta ári töluverð að mati AGS.
Krappur samdráttur á Íslandi í ár..
Í spá AGS má finna spá fyrir nokkra helstu hagvísa íslenska hagkerfisins. Telur sjóðurinn að verg landsframleiðsla (VLF) á Íslandi dragist saman um 7,2% í ár. Gangi sú spá eftir verður um að ræða mesta samdrátt undanfarinna 100 ára, en til samanburðar skrapp VLF saman um 6,8% árið 2009. Hins vegar er sá reginmunur á spánni nú og þróuninni fyrir áratug að spáð er 6,0% hagvexti hér á landi strax á næsta ári en árið 2010 fylgdi 3,4% samdráttur hinu mikla falli VLF árið áður. Þarna gerir að okkar mati gæfumuninn að efnahagsreikningar bæði einkageirans, hins opinbera og síðast en ekki síst þjóðarbúsins gagnvart útlöndum voru með traustara móti áður en áfallið reið yfir. Auk þess eru góðar líkur á að helsta útflutningsgreinin, ferðaþjónusta, taki nokkuð myndarlega við sér að nýju á komandi ári.