Verðbólguvæntingar hafa lækkað umtalsvert á flesta mælikvarða frá því þær náðu hámarki um mitt síðasta ár. Frá því vaxtalækkunarferli Seðlabankans hófst í októberbyrjun hefur sömuleiðis orðið marktæk lækkun á væntingunum. Breytingin er sérstaklega afgerandi í skemmri tíma verðbólguvæntingum. Þar má nefna að miðað við síðustu mælingar Seðlabankans eru verðbólguvæntingar til eins árs 4,6% meðal almennings, 4,0% hjá stjórnendum fyrirtækja og 3,5% meðal markaðsaðila á fjármálamarkaði. Sambærilegar tölur í sumarlok voru hins vegar 7,0% hjá almenningi, 5,0% meðal fyrirtækjastjórnenda og 4,3% hjá markaðsaðilum.
Háir raunvextir þrátt fyrir lækkun stýrivaxta
Verðbólguvæntingar hafa lækkað umtalsvert á flesta mælikvarða undanfarið. Þrátt fyrir lækkun stýrivaxta er aðhald peningastefnunnar enn mikið og raunvextir háir. Minnkandi spenna í hagkerfinu og hagfelldari þróun verðbólgu og verðbólguvæntinga eykur svigrúm til frekari lækkunar stýrivaxta á komandi fjórðungum.
Lengri tíma verðbólguvæntingar hafa einnig lækkað talsvert frá því snemma í haust. Þá taldi almenningur verðbólgu næstu 5 ára verða 5% að jafnaði og stjórnendur fyrirtækja bjuggust að jafnaði við 4% verðbólgu á þennan kvarða. Markaðsaðilar bjuggust á sama tíma við því að verðbólga yrði 3,6% næsta áratuginn.
Miðað við nýlega birtar kannanir Seðlabankans hafa 5 ára verðbólguvæntingar almennings lækkað niður í 4,0% og 5 ára væntingar fyrirtækjastjórnenda niður í 3,5%. Að sama skapi hafa væntingar markaðsaðila til 10 ára meðalverðbólgu lækkað niður í 3,0%. Eru langtíma verðbólguvæntingar á alla þessa kvarða þær lægstu í tvö og hálft til þrjú ár. Að teknu tilliti til þess að þessir sömu aðilar gera ráð fyrir heldur meiri verðbólgu allra næstu misserin en þessi meðaltöl gefa til kynna má álykta að langtíma verðbólguvæntingar séu almennt komnar í sjónmál við 2,5% verðbólgumarkmið Seðlabankans.
Enn er þó vitaskuld björninn ekki unninn að þessu leytinu þar sem langtímavæntingarnar skortir enn kjölfestu sem best sést á því hversu mikið þær hafa sveiflast undanfarna fjórðunga. Það er lengri tíma verkefni að efla þá kjölfestu og kallar trúlega á hærri raunvexti en víðast hvar í löndunum í kring um okkur næstu árin.
Raunvextir eru enn háir
Lækkun verðbólguvæntinga er væntanlega peningastefnunefnd Seðlabankans mikið fagnaðarefni enda hefur nefndarfólk ítrekað viðrað miklar áhyggjur af háum verðbólguvæntingum við vaxtaákvarðanir síðustu misserin.
Lægri verðbólguvæntingar hafa þó breiðari þýðingu en einungis að vera mælikvarði á traust landsmanna á getu Seðlabankans til þess að gegna lögbundnu hlutverki sínu við að hafa hemil á verðbólgu.
Verðbólguvæntingar setja þannig nafnvexti í samhengi við smærri sem stærri ákvarðanir um sparnað, neyslu og fjárfestingar. Ef þess er almennt vænst að vextir haldi ekki í við verðbólgu er hvati til sparnaðar lítill en hvatinn til neyslu og fjárfestingar þeim mun meiri. Þessu er svo vitaskuld öfugt farið ef þess er almennt vænst að nafnvextir skili ávöxtun umfram verðbólgu á komandi tíð. Aðhald peningastefnu Seðlabankans ræðst því á endanum ekki af því hverjir stýrivextirnir eru á hverjum tíma heldur því hversu háir þeir eru í samanburði við mælikvarða á verðbólguvæntingar. Oft eru stýrivextirnir reyndar líka bornir saman við liðna 12 mánaða verðbólgu þótt það sé misvísandi mælikvarði eins og við höfum áður fjallað um.
Þegar rýnt er í raunstýrivexti á hina ýmsu mælikvarða kemur í ljós að þótt stýrivextir Seðlabankans hafi verið lækkaðir um 0,75 prósentur frá upphafi fjórða ársfjórðungs hafa raunstýrivextir síður en svo lækkað. Þvert á móti hafa þeir þokast upp á við og eru um þessar mundir á bilinu 3,7% - 4,8% miðað við hina ýmsu væntingamælikvarða. Til samanburðar var bilið 2,1% - 5,0% í september síðastliðnum. Betra samræmi er því milli hinna ýmsu mælikvarða um þessar mundir og að meðaltali er raunvaxtastigið hærra.
Svipaða sögu má segja af raunvöxtum eins og þeir birtast í ávöxtunarkröfu verðtryggðra skuldabréfa og vöxtum á verðtryggðum útlánum. Til að mynda er ávöxtunarkrafa verðtryggðra ríkisbréfa til 3ja ára 4,1% um þessar mundir og til 10 ára er samsvarandi ávöxtunarkrafa 2,6%. Um mitt síðasta ár, þegar Seðlabankinn hafði lokið vaxtahækkunarferli sínu og stýrivextir stóðu í 9,25%, var bæði 3ja ára og 10 ára ríkisbréfakrafan hins vegar rétt ríflega 2%. Á báða þessa mælikvarða er raunvaxtastigið einnig á svipuðum slóðum og fyrir fyrstu vaxtalækkun Seðlabankans í októberbyrjun.
Þetta háa raunvaxtastig endurspeglast einnig í vöxtum á íbúðalánum. Algengir útlánavextir á verðtryggðum íbúðalánum með 3ja ára fastvaxtatímabil eru um eða yfir 4% um þessar mundir. Líkt og raunin er með verðtryggð vaxtakjör ríkissjóðs hafa þeir vextir almennt ekki lækkað undanfarna mánuði þrátt fyrir lækkun stýrivaxta. Endurspegla þeir, líkt og verðtryggða ávöxtunarkrafa ríkisbréfanna, því raunvaxtastigið í hagkerfinu og vaxandi aðhald peningastefnunnar síðustu misserin þrátt fyrir að stýrivextir hafi síðast hækkað vorið 2023.
Svigrúm til frekari lækkunar stýrivaxta á næstunni
Og hvaða þýðingu hefur ofangreint fyrir vaxtahorfur horft fram á veg? Í sem stystu máli teljum við að hátt raunvaxtastig nú um stundir endurspegli það svigrúm sem Seðlabankinn hefur til lækkunar vaxta á komandi fjórðungum. Þar skiptir ekki öllu máli þótt tímabundið hlé verði á hjöðnun verðbólgunnar allra næstu mánuði eins og við fjölluðum nýlega um. Þyngra vega þau merki sem uppi eru á vinnumarkaði, íbúðamarkaði og í öðrum nýlegum hagvísum um að dregið hafi verulega úr eftirspurnarvexti og hagkerfið þokist jafnt og þétt í áttina að betra jafnvægi. Minni þensla samhliða hagfelldari verðbólguvæntingum ætti að leiða til minni þarfar fyrir háa raunstýrivexti þegar fram líða stundir.
Næstu stýrivaxtaákvarðanir Seðlabankans eru 5. febrúar og 19. mars á komandi ári. Að öðru óbreyttu teljum við líklegt að vextir verði lækkaðir báða þessa daga. Á heildina litið gerum við ráð fyrir 2ja prósentu lækkun stýrivaxta á næsta ári og að vextirnir verði komnir niður í 6,5% að ári liðnu.