Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Hagvöxtur festir sig í sessi á 3. ársfjórðungi

Hagvöxtur er að festa sig í sessi á ný eftir djúpa efnahagsdýfu. Innlend eftirspurn hefur dregið vaxtarvagninn en útflutningur er að sækja í sig veðrið og mun taka við keflinu sem aflvaki vaxtar. Útlit er fyrir að á næsta ári verði hagkerfið búið að ná fyrri styrk eftir Kórónukreppu.


Samkvæmt nýbirtum tölum frá Hagstofunni var hagvöxtur á 3. ársfjórðungi 6,0%. Er það annar fjórðungur samfellt þar sem vöxtur mælist í vergri landsframleiðslu (VLF) á milli ára eftir djúpa dýfu í kjölfar þess að Covid-19 faraldurinn fór að geisa um heimsbyggðina snemma á síðasta ári. Vöxturinn skýrist að stærstum hluta af myndarlegum vexti einkaneyslu og fjárfestingar atvinnulífs og hins opinbera, auk þess sem útflutningur tók hressilega við sér. Á móti óx innflutningur umtalsvert.

Á fyrstu þremur fjórðungum ársins var hagvöxtur 4,1%. Þar dregur innlenda eftirspurnin vagninn að mestu leyti en útflutningur hefur þó verið að sækja í sig veðrið. Framlag utanríkisviðskipta til vaxtar það sem af er ári er neikvætt vegna hraðari vaxtar innflutnings en útflutnings. Má segja að endaskipti hafi orðið á þróuninni miðað við það sem við væntum í upphafi árs þar sem batinn í innlendri eftirspurn er fyrr á ferð en við væntum, sem svo aftur ýtir upp innflutningi og rýrir framlag utanríkisviðskipta.

Einkaneyslan sækir í sig veðrið

Lítið lát er á myndarlegum einkaneysluvexti í nýju tölum Hagstofunnar. Mældist hann 6,1% á 3. ársfjórðungi frá sama tíma ári fyrr í kjölfar 8,8% vaxtar fjórðunginn á undan. Á fyrstu þremur fjórðungum ársins hefur einkaneysla vaxið um 5,4% að raungildi frá sama tíma 2020 og vegur sá vöxtur allþungt í hagvexti tímabilsins. Þessa þróun má að mati okkar þakka þremur þáttum að stórum hluta: Í fyrsta lagi var fjárhagsstaða flestra heimila sterk í upphafi faraldursins og þróun eignamarkaða hefur styrkt þá stöðu frekar en hitt. Í öðru lagi tókst býsna vel til við að sníða mótvægisaðgerðir stjórnvalda með þeim hætti að þær milduðu högg faraldursins á þau heimili sem helstu urðu fyrir barðinu á honum beint eða óbeint.

Í þriðja lagi hefur svo kaupmáttur tekna á heildina litið aukist þrátt fyrir efnahagsbakslag sem er nýlunda í hagsveiflunni íslensku. Einkaneysluþróunin hefur því bæði dempað samdráttinn með því að halda uppi spurn eftir innlendri þjónustu og vörum og eins er hún að toga upp vöxtinn þessa dagana. Góðu heilli eiga heimilin þó í stórum dráttum fyrir þessum neysluvexti, bæði vegna kaupmáttarvaxtar og eins búa þau að talsverðum uppsöfnuðum sparnaði.

Fjárfesting í upptakti

Það sem af er árinu hefur fjárfesting tekið hressilega við sér eftir alldjúpa dýfu á síðasta ári. Þar skekkir þó aðeins myndina að í bókum Hagstofunnar er nú flugvélafloti íslensku flugfélaganna færður sem fjárfesting í ríkari mæli og sem leigðar fjárfestingarvörur í minni mæli en áður. Slík fjárfesting er hins vegar nánast að fullu bókfærð sem innflutningur og áhrifin á hagvöxt því engin. Alls óx fjármunamyndun um 13,3% á fyrstu þremur fjórðungum þessa árs.

Sem fyrr segir litar bókhaldsleg meðferð stórfarartækja nokkuð tölur Hagstofunnar um fjárfestingu atvinnuvega. Almenn atvinnuvegafjárfesting er þó einnig í talsverðum vexti og jókst fjármunamyndun atvinnuvega að frátöldum stórfarartækjum og stóriðjutengdri fjárfestingu um tæplega 22% á fyrstu 9 mánuðum ársins. Á heildina litið mældist vöxtur atvinnuvegafjárfestingar hins vegar 24,4% á tímabilinu.

Opinber fjárfesting er einnig í sókn enda gáfu opinberir aðilar talsvert í slíka fjárfestingu sem hluta af efnahagslegri viðspyrnu við faraldrinum. Á fyrstu þremur fjórðungum ársins jókst fjármunamyndun hins opinbera um 9,9% frá sama tíma í fyrra. Samkvæmt frétt Hagstofu hefur fjárfesting ríkisins á þessu ári verið í þokkalegu samræmi við áætlanir en framvinda fjárfestinga sveitarfélaga verið talsvert hægari en áætlað var. Kúfurinn í fjárfestingarátakinu vegna faraldursins gæti því verið aðeins seinna á ferð en áætlað var.

Þróunin í íbúðafjárfestingu hefur verið öllu lakari undanfarið. Skrapp slík fjárfesting saman um 7,5% að raungildi á fyrstu 9 mánuðum ársins og þar af um 9,8% á þriðja ársfjórðungi. Hagstofan tekur þó fram að útgefnum byggingarleyfum hafi fjölgað umtalsvert að undanförnu, sem viti á gott fyrir framhaldið í íbúðafjárfestingunni. Á þriðja fjórðungi ársins fjölgaði þannig íbúðaeiningum sem skráðar eru á 1. byggingarstigi um ríflega 80% frá sama tíma 2020. Horfur eru því að upptakti í íbúðabyggingum þegar frá líður.

Jákvæður viðsnúningur í utanríkisviðskiptum

Eins og við fjölluðum um nýlega hefur upptaktur í komum ferðamanna frá miðju ári þegar haft talsverð áhrif til hins betra í þróun utanríkisviðskipta. Það endurspeglast til að mynda í jákvæðu framlagi utanríkisviðskipta til hagvaxtar í fyrsta sinn síðan á lokafjórðungi ársins 2019 ef reiknað er á ársfjórðungsgrunni.

Mikill vöxtur í vöruinnflutningi á hins vegar stærsta þáttinn í því að innflutningur hefur á heildina litið vaxið umfram útflutning það sem af er ári og framlag utanríkisviðskipta til vaxtar því verið neikvætt á fyrstu þremur fjórðungum ársins. Þar horfir hins vegar til betri vegar að mati okkar þar sem þjónustuútflutningur er líklegur til að sækja áfram í sig veðrið á sama tíma og dregið gæti úr innflutningsvextinum á lokafjórðungi ársins.

Frekari efnahagsbati í kortunum

Efnahagsbatinn í íslensku hagkerfi virðist vera kominn á allgóðan skrið þrátt fyrir að á ýmsu hafi gengið í þróun faraldursins það sem af er ári. Sem fyrr segir er hagvöxtur á fyrstu þremur fjórðungum ársins 4,1%. Er það nokkurn veginn í takti við nýlega spá okkar en þó heldur jákvæðari niðurstaða ef eitthvað er. Útlit er því fyrir að hagvöxtur ársins verði í námunda við þau 4,2% sem við spáðum í haust.

Þá eru horfur fyrir komandi misseri áfram góðar, að því gefnu að nýjustu vendingar í faraldrinum setji ekki langvarandi strik í reikninginn. Eftir sem áður eru mestar líkur á myndarlegum vexti á næsta ári þar sem utanríkisviðskiptin munu draga vagninn með stórauknum fjölda ferðamanna, myndarlegri loðnuvertíð og áframhaldandi vexti hugverka- og iðnaðarútflutnings svo nokkuð sé nefnt. Þá eru horfur á talsverðum vexti einkaneyslu og íbúðafjárfestingar. Hagvöxtur árið 2022 verður 4,4% miðað við sviðsmynd okkar með góðri loðnuvertíð og verður landsframleiðsla næsta árs miðað við þá spá heldur meiri að raunvirði en á árinu 2019. Í kjölfarið hægir á vexti eftir því sem ferðaþjónusta og innlend eftirspurn nær jafnvægi og gerum við ráð fyrir að hann reynist 3,0% árið 2023.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband