Hagvöxtur í fyrra reyndist allmyndarlegur, flestum að óvörum, en samsetning hans var um margt óvenjuleg. Hagvöxturinn tók raunar kipp á lokafjórðungi síðasta árs og hefur ekki mælst hraðari frá fyrsta fjórðungi ársins 2018. Vöxturinn var 4,7% frá sama fjórðungi árið áður samkvæmt nýjum tölum Hagstofunnar. Þessi kippur kann að koma mörgum spánskt fyrir sjónir í ljósi þess að efnahagshorfur fóru heldur dökknandi með lækkandi sól, atvinnuleysi jókst og væntingar sigu.
Hagvöxtur 2019 í boði innflutningssamdráttar
Hagvöxt á síðasta ári má að stórum hluta þakka umtalsverðum samdrætti í innflutningi ásamt hóflegum neysluvexti. Aukin umsvif heimila í neyslu og fjárfestingu draga vaxtarvagninn þessa dagana en líklegt er að hið opinbera bætist þar í hópinn þetta árið.
Þegar rýnt er nánar í tölurnar kemur í ljós að þessi vaxtarkippur er nánast alfarið í boði mikils samdráttar í innflutningi. Þannig mældist einkaneysluvöxtur aðeins 1% á tímabilinu, útflutningur óx um 0,5% og vöxtur samneyslu nam 3,8% en fjárfesting dróst hins vegar saman um 3%. Innflutningur skrapp hins vegar saman í magni mælt um ríflega 10% á lokafjórðungi ársins 2019.
Minni innflutningur og meiri neysla
Í okkar smáa og sveiflukennda hagkerfi er oftast gagnlegra að líta á árstölur en tölur fyrir einstaka ársfjórðunga. Á árinu 2019 í heild mældist hagvöxtur 1,9%. Er það hægasti vöxtur frá árinu 2012 en samt sem áður talsvert myndarlegri vöxtur en flestir, þar á meðal við, væntu í kjölfar áfalla í útflutningsgreinum Íslands. Samsetning þessa hagvaxtar á síðasta ári er hins vegar afar sérstök í sögulegu ljósi. Að stærstum hluta er hann til kominn vegna þess að innflutningur skrapp saman í magni mælt um tæp 10%. Þá óx einkaneysla um 1,6% og samneysla um 4,1% á síðasta ári. Fjárfesting dróst hins vegar saman um ríflega 6% og útflutningur um 5% í fyrra. Það má því segja að hagvöxtur á síðasta ári hafi að mestu verið í boði innflutningssamdráttar með hjálp frá hóflegum neysluvexti. Þær meginstoðir vaxtar sem gefa helst vísbendingu um hvert hagkerfið stefnir á komandi tíð skruppu hins vegar saman í fyrra, þ.e. fjárfesting og útflutningur.
Einnig ber að halda til haga að samtímis því að tölur fyrir hagvöxt í fyrra voru birtar endurskoðaði Hagstofan hagvöxt ársins 2018 niður á við um 1 prósentu. Telst nú hagvöxtur það ár hafa verið 3,8%. Breytingin er til komin vegna meiri samdráttar í fjárfestingu atvinnuvega en Hagstofan telur nú að slík fjárfesting hafi skroppið saman um 11,5% að raungildi fremur en 4,1% eins og fyrra mat hljóðaði upp á.
Fjárfesting atvinnuvega hefur skroppið saman um rúman fjórðung..
Það má raunar teljast nokkurt áhyggjuefni hversu mikið fjárfesting atvinnuvega hefur látið undan síga síðustu misserin. Frá árinu 2017 hefur slík fjárfesting samtals skroppið saman um tæp 27% og var hlutfall hennar af VLF 11,1% í fyrra sem er lægsta hlutfall frá árinu 2012. Þótt það sé vissulega jákvætt að ekki virðist hafa verið farið allt of geyst í skuldsettum fjárfestingarspretti þegar líða tók á hagsveifluna, öfugt við þróunina fyrir rúmum áratug síðan, má einnig spyrja hvort þessi þróun gefi ekki tilefni til þess að leggja meiri áherslu en ella á að stuðla að aukinni fjárfestingu atvinnuveganna á komandi fjórðungum.
..en fjárfesting og neysla heimilanna ýtir undir hagvöxtinn
Á sama tíma og dregið hefur umtalsvert úr atvinnuvegafjárfestingu hefur mikill vöxtur einkennt íbúðafjárfestingu. Í fyrra mældist vöxtur þeirrar fjárfestingar ríflega 31% eftir 15% vöxt árið 2018. Aukið framboð af nýju íbúðarhúsnæði er sannarlega kærkomið eftir verulegan framboðsskort upp úr miðjum nýliðnum áratug þótt einhver misbrestur virðist enn á því að samsetning þess íbúðarhúsnæðis sem verið er að byggja þessa dagana sé í fullu samræmi við mikla spurn eftir minna og ódýrara íbúðarhúsnæði.
Við höfum áður fjallað um breytta hegðun íslenskra heimila þar sem neysluhegðun þeirra hefur síðustu árin verið til þess fallin að dempa hagsveifluna eftir að hafa á árum áður verið sveifluaukandi á þann veg að heimilin juku neyslu sína mjög hratt í góðæri og hertu svo beltin fast þegar verr áraði. Tölur síðasta árs sýna áframhald þessarar þróunar enda óx einkaneysla hóflega þrátt fyrir að innlend eftirspurn í heild stæði nánast í stað. Þessi breytta hegðun og fremur sterk eignastaða flestra heimila mun reynast dýrmætt veganesti inn í þá um margt flóknu stöðu sem efnahagslífið er í þessa dagana.
Verður einhver hagvöxtur í ár?
Það má með sanni segja að hagvöxtur síðasta árs hafi reynst umtalsvert meiri en allflestir bjuggust við. Hagvaxtartalan 2019 ein og sér segir þó ekki alla söguna um stöðu hagkerfisins um þessar mundir eða hvernig skynsamlegast sé að spila úr stöðunni. Líkt og nefnt er hér að framan var það innflutningssamdráttur sem skilaði á endanum tæplega 2% hagvexti á meðan innlend eftirspurn stóð í stað og útflutningur átti nokkuð undir högg að sækja. Þótt það sé að vissu leyti kærkomið við þær aðstæður sem uppi voru á síðasta ári að dregið hafi umtalsvert úr innflutningi verður ekki til lengdar byggt á slíkri þróun, enda eru innflutt aðföng mikilvæg í uppbyggingu atvinnulífsins og bættum lífskjörum til framtíðar.
Í janúarmánuði spáðum við því að hagvöxtur í ár myndi reynast 1,4% eftir 0,3% hagvöxt á síðasta ári. Margt bendir nú til þess að vöxturinn kunni að reynast minni þetta árið. Má þar nefna grunnáhrif af hinum mikla innflutningssamdrætti í fyrra sem eykur líkur á að framlag utanríkisviðskipta verði talsvert neikvætt í ár auk þess sem óvissa um útflutning hefur teygst niður á við eftir því sem COVID-19 veiran gerir meiri usla í alþjóðahagkerfinu. Þá gefur mikill vöxtur samneyslu í fyrra vísbendingu um að vöxtur hennar kunni að reynast lítill í ár. Sú skoðun okkar stendur hins vegar óbreytt að einkaneyslan muni reynast haukur í horni varðandi það að halda dampi í innlendri eftirspurn og koma í veg fyrir vítahring rekstrarerfiðleika innlendra fyrirtækja, vaxandi atvinnuleysis og samdráttar í spurn eftir innlendum vörum og þjónustu. Þá aukast þessa dagana líkur á að opinberir aðilar muni taka dýpra í árinni en við væntum varðandi sveiflujafnandi innviðafjárfestingar og aðra opinbera fjármunamyndun. Það er því engan veginn öll nótt úti enn um að hagvöxtur verði einhver á yfirstandandi ári þrátt fyrir ýmis óveðursský við sjóndeildarhringinn.