Heildareignir íslenskra lífeyrissjóða tóku hressilegan fjörkipp á síðasta fjórðungi nýliðins árs. Samkvæmt nýbirtum tölum Seðlabankans voru eignir sjóðanna alls 7.287 ma.kr. um síðustu áramót. Í desembermánuði jukust eignirnar um 191 ma.kr. og á lokafjórðungi ársins óx eignasafn sjóðanna um 401 ma.kr. Til samanburðar stækkaði eignasafnið um 256 ma.kr. á fyrstu 9 mánuðum ársins.
Hagur lífeyrissjóða vænkaðist talsvert á lokafjórðungi 2023
Meðvindur á hlutabréfamörkuðum hér á landi sem erlendis á lokamánuðum síðasta árs gerði gæfumuninn um að raunávöxtun íslenskra lífeyrissjóða var lítillega jákvæð árið 2023. Raunávöxtun lífeyrissjóða undanfarinn áratug hefur verið nokkuð yfir 3,5% ávöxtunarviðmiði skuldbindinga sjóðanna. Allgóðar líkur eru á að þetta ár verði þeim hagfelldara en síðustu tvö ár.
Eins og sjá má af myndinni er ástæða þessarar myndarlegu eignaaukningar fyrst og fremst aukning í innlendum hlutabréfum og hlutdeildarskírteinum sem og erlendum eignum, sem sömuleiðis eru að langstærstum hluta bein eða óbein hlutabréfaeign. Innlenda hlutabréfaeignin jókst um 88 ma.kr. á fjórðungnum en erlendar eignir um 247 ma.kr. á sama tíma. Alls nam innlend eign lífeyrissjóðanna í hlutabréfum og hlutdeildarskírteinum 1.051 ma.kr. (14,4% af heildareignum) um áramótin en erlenda verðbréfaeignin stóð á sama tíma í 2.739 ma.kr. (37,6% af heildareignum).
Meðbyr á mörkuðum
Þótt sjóðirnir hafi efalítið keypt talsvert af innlendum og erlendum hlutabréfum og hlutdeildarskírteinum á tímabilinu er stærsta skýringin á þessu stökki í slíkum eignum viðsnúningur á innlendum og erlendum hlutabréfamörkuðum. Hlutabréfamarkaðir voru gjöfulir á lokafjórðungi síðasta árs. Þannig hækkaði til að mynda MSCI heimsvísitalan, sem endurspeglar verðþróun á alþjóðlegum hlutabréfamörkuðum, um ríflega 11% frá septemberlokum til áramóta og íslenska OMXIPI hlutabréfavísitalan hækkaði um 10%. Minnkandi áhyggjur af mikilli verðbólgu, hækkandi vaxtastigi og mögulegum samdrætti í helstu iðnríkjum hafði sitt að segja um alþjóðlegu þróunina og hér heima bættust jákvæðar fréttir af einstökum félögum á markaði við þessa alþjóðlegu strauma.
Þessi meðvindur á mörkuðum breytti verulega stöðunni hvað raunávöxtun íslenskra lífeyrissjóða á síðasta ári varðar frá því sem útlit var fyrir í fyrrahaust. Við fjölluðum fyrir nokkru um stöðu og horfur í lífeyrissjóðakerfinu. Þá töldum við horfur á því að raunávöxtun eigna lífeyrissjóðanna myndi reynast neikvæð á árinu 2023, annað árið í röð.
Það er því ánægjulegt að sjá að við vorum full svartsýn í þessari áætlun okkar. Samkvæmt áætlun Landssamtaka lífeyrissjóða (LL) var nafnávöxtun sjóðanna í fyrra um 8,5% og raunávöxtun, að teknu tilliti til um 8% verðbólgu, því jákvæð um 0,5%. Það er að sönnu ekki mikil raunávöxtun en töluvert hagfelldari útkoma en sú 3,5 – 4,0% neikvæða raunávöxtun sem við töldum vera í kortunum í fyrrahaust.
Lífeyrissjóðirnir eru langtímafjárfestar enda líða áratugir að jafnaði frá því iðgjöld sjóðfélaga berast þar til þau hin sömu hefja töku lífeyris. Þar að auki er innflæði vegna iðgjalda enn talsvert umfram lífeyrisgreiðslur og rekstrarkostnað og allnokkur ár í að breyting verið þar á. Þol sjóðanna gagnvart skammtímasveiflum í ávöxtun er því verulegt.
Í áætlun LL kemur til að mynda fram að meðalraunávöxtun sjóðanna undanfarinn áratug hafi verið 4,1% og síðustu fimm árin hafi raunávöxtunin verið að jafnaði 3,8% þrátt fyrir rýr ár 2022-2023. Langtímaávöxtun lífeyrissjóða hefur því undanfarið verið nokkuð umfram 3,5% raunávöxtunarviðmið skuldbindinga sjóðanna, sem eru góðar fréttir fyrir núverandi jafnt sem tilvonandi lífeyrisþega.
Verður árið 2024 gjöfulla en síðustu ár?
Eftir mótbyr á mörkuðum hér sem erlendis hafa horfur fyrir komandi ár nokkuð verið að glæðast. Skörp hækkun vaxta á alþjóðavísu virðist að mestu ef ekki öllu leyti að baki og útlit er fyrir að seðlabankar erlendis sem hér á landi geti byrjað að slaka á peningalegu aðhaldi á þessu ári. Á sama tíma virðast líkur fara vaxandi á að ekki verði umtalsvert bakslag í heimshagkerfinu á næstunni.
Þannig hljóðar nýbirt heimshagspá OECD upp á 2,9% hagvöxt á heimsvísu í ár og telur stofnunin hagvaxtarhorfur hafa glæðst lítið eitt frá síðustu spá sinni í nóvember á sama tíma og verðbólguhorfur í flestum stærstu hagkerfum heims hafa skánað. Það ætti að öðru jöfnu að skapa tiltölulega hagfellt efnahagsumhverfi fyrir helstu verðbréfamarkaði, hvort sem er með skuldabréf eða hlutabréf. Í nýbirtri þjóðhagsspá okkar kveður við svipaðan tón hvað vexti og verðbólgu varðar þótt við gerum ráð fyrir að hagvöxtur verði með rýrara móti í ár. Það eru því ágætar líkur á því að raunávöxtun íslenskra lífeyrissjóða verði betri þetta árið en í fyrra og lífeyriskerfið haldi áfram að dafna.