Heildarverðmæti vöruútflutnings var 745 ma.kr. á fyrst níu mánuðum ársins samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofu Íslands. Jafngildir það tæplega 38% aukningu frá sama tímabili í fyrra í krónum talið en á föstu gengi krónu er aukningin 43%. Verulegan hluta þessarar aukninga milli ára má rekja til meiri útflutningstekna af áli. Álútflutningur skilaði alls 307 ma.kr. í vergum útflutningstekjum á fyrstu þremur fjórðungum ársins og var það 57% aukning í krónum talið á milli ára.
Hærra verð helsta skýring á stórauknum vöruútflutningstekjum
Verðmæti vöruútflutnings var tæplega 38% meira á fyrstu níu mánuðum ársins en á sama tíma í fyrra. Drjúg verðhækkun á helstu útflutningsafurðum skýrir vöxtinn að miklu leyti en á móti hefur verð á ýmsum innfluttum aðföngum hækkað umtalsvert. Miklu skiptir fyrir batnandi utanríkisviðskipti að verð á afurðum sjávarútvegs og eldis haldist hátt á komandi fjórðungum.
Fleiri greinar voru þó að skila ágætum vexti í krónum talið á tímabilinu. Þróunin hjá hinum ýmsu útflutningsgreinum var þannig á fyrstu níu mánuðum ársins:
- Sjávarafurðir: 258 ma.kr. (19% aukning í krónum milli ára)
- Afurðir fiskeldis: 33 ma.kr. (24% aukning)
- Kísiljárn: 35 ma.kr. (124% aukning)
- Lyf og lækningatæki: 13 ma.kr. (37% aukning)
- Aðrar iðnaðarvörur: 72 ma.kr. (39% aukning)
- Landbúnaðarafurðir: 6 ma.kr. (4% samdráttur)
Miklar verðsveiflur á alþjóðamörkuðum
Eins og flestum er kunnugt hafa framboðshnökrar í kjölfar faraldursins og myndarlegur eftirspurnarvöxtur undanfarin misseri haft hækkunaráhrif á ýmsum hrávörumörkuðum. Úkraínustríðið bætti svo gráu ofan á svart á þessum mörkuðum þótt tvísýnni horfur um eftirspurn á heimsvísu hafi aftur slegið á verðhækkun á ýmsum vörum síðustu mánuðina.
Okkar helstu markaðir í milliríkjaviðskiptum hafa ekki farið varhluta af þessari þróun. Innflutningsverð hefur snarhækkað í mörgum tilfellum en góðu heilli hefur þó verðhækkun á ýmsum útflutningsvörum vegið á móti.
Lítum aðeins nánar á síðarnefndu þróunina og hvernig hún hefur komið fram á útflutningshliðinni undanfarið.
Sem fyrr segir uxu útflutningstekjur af sjávarafurðum um 19% á fyrstu þremur fjórðungum ársins. Að hluta má þakka það myndarlegri loðnuvertíð þar sem útflutningsverðmæti loðnu var 44 ma.kr. á tímabilinu og ríflega tvöfaldaðist milli ára.
Fleira kemur þó til. Verð á sjávarafurðum hefur hækkað umtalsvert frá upphafi áratugarins þótt faraldurinn setti þar tímabundið strik í reikninginn. Miðað við verðvísitölu sjávarafurða, sem Hagstofan birtir, hefur verð sjávarafurða hækkað um tæplega 18% frá ársbyrjun reiknað á föstu gengi krónu. Á þennan mælikvarða var verð sjávarafurða að jafnaði ríflega fimmtungi hærra á fyrstu þremur ársfjórðungum 2022 en á sama tíma ári áður.
Haldist verðið á helstu nytjafisktegundum Íslendinga áfram hátt mun verðhækkunin líklega vega upp, og jafnvel gott betur, þann samdrátt sem varð í úthlutuðu aflamarki ýmissa botnfisktegunda á fiskveiðiárinu sem hófst í septemberbyrjun. Sem dæmi má nefna að aflamark í þorski var lækkað um 6% milli ára en þorskur er langverðmætasta nytjafisktegundin hér við land og stóð til dæmis undir nærri 45% af öllum útflutningstekjum sjávarútvegs á síðasta ári.
Hátt verð á eldisfiski
Það er ekki einungis fiskur veiddur af skipakosti landsmanna sem hefur hækkað í verði undanfarið. Verð á eldisfiski hefur verið hátt frá innrás Rússa í Úkraínu. Sér í lagi var verð á eldislaxi hátt í sumar ef miðað er við verð á norskum laxi, en verðið hefur heldur gefið eftir með kólnandi tíð undanfarnar vikur. Aukningu á útflutningsverðmæti eldisfisks má nánast alfarið rekja til hærra verðs samkvæmt frétt Fiskifrétta. Horfur eru hins vegar á vaxandi útflutningi eldisafurða í tonnum talið enda talsverð uppbygging í greininni nú um stundir og sér ekki fyrir endann á henni.
Nokkuð önnur mynd blasir við ef horft er til álútflutnings. Álverð hækkaði skarpt fyrst eftir innrás Rússa í Úkraínu en hefur gefið verulega eftir frá síðasta vori eftir því sem horfur um eftirspurn á heimsvísu hafa dökknað. Er verðið á áltonninu nú á svipuðum slóðum og vorið 2021, ríflega 2.200 USD/tonn fyrir gæðaál. Álverð er þó enn u.m.þ. bil 10% yfir meðalverði síðustu 10 ára.
Misjafnt hve stór hluti útflutningstekna verður eftir á Íslandi
Samanburður á heildar útflutningstekjum af hinum ýmsu vöruflokkum segir auðvitað ekki alla söguna um vægi þeirra fyrir íslenskan efnahag. Til að mynda verður talsvert stærri hluti af hverjum milljarði útflutningstekna eftir innanlands í tilfelli sjávarafurða en raunin er með ál, þar sem innflutt aðföng eru gjarnan á bilinu 30-40% af útflutningsverðmæti og hagnaður af framleiðslunni rennur til erlendra eigenda álveranna. Báðir fyrrnefndir þættir sveiflast svo í takti við álverðið sjálft og minni sveiflur verða á innlendum virðisauka vegna álframleiðslu þegar verðið breytist en raunin er í ýmsum öðrum útflutningagreinum, til að mynda sjávarútvegi.
Það skiptir því á endanum meira máli fyrir þjóðarbúskapinn að verð á sjávarfangi haldist hátt en álverð. Góðu heilli virðist þróunin til skemmri tíma leggjast með okkur að þessu leytinu. Ekki veitir heldur af því að afla meiri útflutningstekna af vöruútflutningi þessa dagana þar sem vöruskiptahalli var tæpir 210 ma.kr. á fyrstu þremur fjórðungum ársins og hefur ekki verið meiri í a.m.k. 15 ár.