Hækkunartaktur launa með rólegra móti en kaupmáttur eykst

Launavísitala hækkaði milli mánaða í september og tólf mánaða hækkun launa mælist nú 6,1% samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofu. Þrátt fyrir hægari hækkunartakt hefur hann meira en haldið í við verðbólgu og kaupmáttur launa fer því vaxandi.


Launavísitala hækkaði um 0,7% í september frá fyrri mánuði samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofu á meðan vísitala grunnlauna hækkaði um 0,3%. Á þriðja ársfjórðungi hækkuðu laun því um 6,3% frá sama tíma í fyrra og um 0,9% frá fyrri fjórðungi. Hækkun launavísitölunnar milli mánaða hefur ekki verið meiri frá því í mars á þessu ári en þá komu til framkvæmda launahækkanir sem samið var um í fyrstu hrinu kjarasamninga. Skýringin felst í því að hækkun launavísitölu í september er venjulega meiri en mánuðina á undan þar sem álagsgreiðslur eru hærri á haustin en yfir sumarmánuðina sem einkennast af sumarleyfum og störfum afleysingarfólks.

Kaupmáttur launa eykst

Á myndinni að ofan má sjá að vöxtur kaupmáttar hefur tekið við sér síðustu mánuði. Í september hafði vísitala kaupmáttar launa hækkað um 0,9% frá september í fyrra. Vísitala kaupmáttar launa hækkaði um 1,4% í mars síðastliðnum þegar ákvæði kjarasamninga komu til framkvæmda, en í sumar var nokkuð hóflegur hækkunartaktur. Það sem af er þessu ári hefur kaupmátturinn aukist um 0,61%.

Í nýlegri þjóðhagsspá okkar spáðum við því að laun myndu hækka um 5,7% á þessu ári og kaupmáttur dragast örlítið saman. Eftir nokkuð hagfelldari verðbólgumælingar síðustu mánuði en von var á hafa líkur á lítilsháttar kaupmáttarvexti á árinu aukist. Við eigum jafnframt von a því að laun muni hækka um 5,1% á næsta ári og 4,7% árið 2026. Ef helstu forsendur þjóðhasspár okkar ganga eftir mun kaupmáttur því aukast um 1,4% á næsta ári og 1,7% árið 2026.

Launahækkanir launþegahópa leita í jafnvægi

Nýleg gögn um launahækkanir eftir ólíkum launþegahópum og atvinnugreinum, sem ná til júlí 2024, sýna merki um þróun í átt að jafnvægi. Á myndinni sést að ákveðinn viðsnúningur varð í þróun launa á milli almenns og opinbers vinnumarkaðar í mars á þessu ári. Eftir undirritun nýrra kjarasamninga fyrir stóran hluta almenns vinnumarkaðar, jukust launahækkanir á þeim markaði verulega, á sama tíma og kjarasamningar á stórum hluta opinbera markaðarins losnuðu.

Nýjustu gögn benda þó til þess að opinberi markaðurinn sé nú að jafna sig, þar sem launahækkanir opinberra starfsmanna stefna í svipaðan árshækkunartakt og sést á almennum vinnumarkaði um þessar mundir. Þetta gefur til kynna að launaþróun almenna og opinbera markaðarins leiti í aukið jafnvægi, sem endurspeglar lendingu hagkerfisins á sama tíma og verðbólguþrýstingur fer minnkandi og nokkuð breið samstaða hefur náðst um kjarasamninga þó enn eigi eftir að skrifa undir samninga fyrir hluta vinnumarkaðar, sér í lagi hjá hinu opinbera.

Þróun eftir atvinnugreinum gefur einnig merki um jafnvægi

Nýjustu gögn um launahækkanir eftir ólíkum atvinnugreinum á almennum vinnumarkaði, sem ná fram í júlí 2024, benda til þess að launahækkanir séu í ágætu jafnvægi milli atvinnugreina. Launin hafa hækkað meira en almennt verðlag í öllum greinum, sem sýnir jákvæða þróun á vinnumarkaði.

Laun fólks sem starfar við flutninga- og geymslu hækkuðu mest, eða 8,6%, á tólf mánaða tímabili frá júlí 2023 til júlí 2024. Launahækkanir í öðrum atvinnugreinum fylgja fast á eftir, með hækkun í kringum 6-7%. Minnsta hækkunin á þessu tímabili var í fjármála- og vátryggingarstarfsemi, sem og heild- og smásöluverslun, en þar hækkuðu laun um 6,5%.

Tölurnar sýna að svipað jafnvægi sé í ólíkum atvinnugreinum og launaskrið á í einstökum greinum sé ekki að sjá. Jafnari hækkunartaktur launa í ólíkum atvinnugreinum dregur einnig úr líkum á launaskriði á almennum vinnumarkaði.

Minnkandi spenna á vinnumarkaði dregur úr launaskriði

Atvinnuleysi hefur verið nokkru meira fyrstu þrjá fjórðunga ársins en á sama tíma í fyrra. Að meðaltali hefur atvinnuleysi verið 3,5% á þessu ári samanborið við 3,2% á sama tíma í fyrra. Við spáum því að atvinnuleysi verði 3,7% á árinu í heild.

Þegar fram í sækir eigum við þó von á því að atvinnuleysi þokist aðeins niður. Á næsta ári spáum við því að atvinnuleysi verði 4,1% og 3,8% árið 2026. Miðast þær tölur við skráð atvinnuleysi en alla jafna eru mun meiri sveiflur á atvinnuleysistölum Hagstofunnar.

Minni spenna á vinnumarkaði dregur úr launaskriði og á sinn þátt í væntingum okkar um hægari hækkun launa á komandi misserum eins og fyrr segir. Það eru hins vegar góðar líkur á því að verðbólga hjaðni enn hraðar og að kaupmáttur launa vaxi því allnokkuð næstu misserin.

Eftir lítilsháttar samdrátt einkaneyslu á fyrri helmingi ársins gæti meiri vindur blásið í segl einkaneyslunnar á næstunni. Við fjölluðum nýlega um fjörkipp í væntingavísitölunni í október en nokkur fylgni er milli þróunar hennar og einkaneyslunnar. Þar eru trúlega á ferð meðal annars áhrif af lækkun stýrivaxta í októberbyrjun. Lækkun vaxta gæti með tímanum einnig haft áhrif á sparnaðarhneigð heimilanna en sparnaður þeirra er enn talsverður. Þá er framangreind þróun í kaupmætti launa einnig til þess fallin að styðja við einkaneysluna. Við spáðum í september tæplega prósentu vexti í einkaneyslunni þetta árið þrátt fyrir samdrátt á fyrri árshelmingi. Virðist okkur framangreind þróun ríma ágætlega við þá spá.

Höfundur


Profile card

Birkir Thor Björnsson

Hagfræðingur í Greiningu


Hafa samband