Með uppfærðri aðferð Seðlabankans við birtingu á kortaveltugögnum hefur komið fram skýrari mynd af einkaneyslu landsmanna og nærhorfum í hagkerfinu. Á nýliðnum ársfjórðungi jókst kortavelta heimila innanlands lítillega, eða um 1,1% að raunvirði samkvæmt nýlega birtum tölum bankans. Í september varð hins vegar samdráttur í kortaveltu heimila innanlands á milli ára, um 1,8% að raunvirði, eftir talsverða aukningu mánuðina á undan.
Hægari vöxtur kortaveltu
Kortavelta innlendra greiðslukorta nam rúmum 120 mö.kr. í september síðastliðnum. Enn er seigt í kortaveltu þrátt fyrir hátt vaxtastig en hún jókst að raungildi á milli ára á þriðja ársfjórðungi. Ný gögn benda til þess að einkaneysla haldi dampi á árinu þó vöxtur verði trúlega lítill.
Aðra sögu er þó að segja um kortaveltu utanlands en hún hefur sótt í sig veðrið síðustu misseri. Í september jókst kortavelta innlendra korta erlendis um 7,8% að raunvirði milli ára. Kortaveltan erlendis hefur aukist alla mánuði ársins að apríl undanskildum, en þá dróst hún saman um tæp 4% að raunvirði, sem skýrist af því að páskar voru í mars í ár. Það sem af er ári hefur brottförum Íslendinga um Keflavíkurflugvöll fjölgað um 1% frá sama tíma í fyrra. Líklega skýrir aukin netverslun því stóran hluta aukinnar kortaveltu utanlands.
Alls jókst því kortavelta innlendra heimila um 0,3% í september að teknu tilliti til verð- og gengisbreytinga og um 2,6% á þriðja ársfjórðungi frá sama tíma í fyrra.
Kortaveltutölur vísbending um hægari vöxt einkaneyslu
Þó mælingar á kortaveltu fyrir einstaka mánuði séu almennt nokkuð sveiflukenndar vekur athygli hve stöðugar mælingar þriggja mánaða hlaupandi meðaltals hafa verið á árinu. Stöðugleikinn ber þess merki að neyslumynstur heimila hafi náð nokkurs konar tímabundnu jafnvægi við núverandi raunvaxtaaðhald. Þriggja mánaða hlaupandi meðaltal aukningar kortaveltu að raunvirði alls, hefur verið á bilinu 2,6-3,6% frá því í febrúar. Þetta er mun þrengra bil en fyrir nokkrum misserum síðan en á sama tímabili í fyrra var staðalfrávikið á þennan mælikvarða um það bil tífalt meira. Þetta þrönga bil endurspeglar einnig hve stöðug kortavelta á mann hefur verið síðastliðin misseri, þar sem fólksfjölgun hefur verið á svipuðu bili.
Einkaneysla jókst óvænt lítillega á fyrsta fjórðungi þessa árs eftir samdrátt á seinustu tveimur fjórðungum síðasta árs. Nýleg endurskoðun kortaveltutalna setur vöxtinn þó í betra samhengi, en fyrri tölur höfðu bent sterklega til samdráttar. Á öðrum fjórðungi varð hins vegar samdráttur einkaneyslu um 0,9%. Samkvæmt Hagstofu vógu þar þyngst samdráttur í neyslu varanlegra neysluvara, til að mynda bílakaupum, en einnig samdráttur í kaupum heimilanna á þjónustu. Þar ber að hafa í huga að bifreiðakaup er sú tegund neyslu sem helst er fjármögnuð með lánum að verulegu leyti og vaxtabyrði bílalána hefur aukist verulega síðustu misserin.
Við teljum að heimilin muni halda að sér höndum þegar kemur að kaupum varanlegra neysluvara næstu fjórðunga, þar sem háir raunvextir auka bæði fjármögnunarkostnað og fórnarkostnað. Hins vegar mun slík neysla taka við sér á ný þegar líður á næsta ár og árið 2026 með lækkandi vöxtum og verðbólgu, sem gerir fjármögnun ódýrari og sparifé liðugra til neyslu. Í þjóðhagsspá okkar sem kom út fyrir skemmstu spáðum við 0,8% vexti einkaneyslu á yfirstandandi ári, 2% næsta ári og 2,5% á árinu 2026.
Svartsýni heimila og fyrirtækja aukist
Væntingavísitala Gallup hefur ekki mælst lægri í fjögur ár en hún mældist 61,2 í september, sem gerir lækkun um tæplega 30% frá sama tíma fyrir ári síðan og ber þess merki að svartsýni heimila hafi aukist talsvert upp á síðkastið. Stjórnendur fyrirtækja eru einnig svartsýnni á ástandið en áður samkvæmt könnun Samtaka atvinnulífsins. Hlutfall stjórnenda sem telja aðstæður fara batnandi á næstu sex mánuðum lækkaði á milli kannana og mælist nú 26% og hlutfall þeirra sem telja aðstæður fara versnandi hefur nær tvöfaldast milli kannana og mælist nú 31%. Sama saga endurspeglast í ráðningaráformum fyrirtækjastjórnenda en 73% stjórnenda telja sig ekki búa við skort á starfsfólki, sem gerir lítilsháttar aukningu frá síðustu könnun. Einungis 15% þeirra stjórnenda sem taka þátt í könnuninni sjá fram á fjölgun starfsfólks næstu 6 mánuði, 22% stjórnenda sjá fram á að fækka starfsfólki og 62% búast við óbreyttum fjölda starfsfólks.
Þessar tölur endurspegla minni spennu á vinnumarkaði upp á síðkastið og styrkja trú okkar á því að launaskrið verði takmarkað næstu misseri og áframhaldandi hjöðnun verðbólgu sé í kortunum. Tölurnar renna jafnframt stoðum undir þá skoðun okkar að vöxtur einkaneyslu verði með hægara móti allra næstu misseri, enda oft allmikil fylgni milli þessara stærða, og auka líkur á því að stærra vaxtalækkunarskref verði stigið í nóvember að öðru jöfnu.