Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Góður áratugur að baki hjá lífeyrissjóðunum

Undanfarinn áratugur hefur verið tími góðrar ávöxtunar fyrir íslenska lífeyrissjóði. Síðasta ár stóð þar upp úr og lítur út fyrir að raunávöxtun eigna sjóðanna hafi verið nærri 12% í fyrra. Líklegt er að raunávöxtun sjóðanna verði hægari þegar fram í sækir.


Skráðu þig á póstlistann okkar

Samkvæmt nýlegum tölum frá Seðlabankanum námu eignir íslenskra lífeyrissjóða 4.959 mö.kr. í árslok 2019. Nemur það u.þ.b. 167% af vergri landsframleiðslu miðað við áætlun Seðlabankans og íslenska lífeyrissjóðakerfið er því eitt það stöndugasta á byggðu bóli á þennan mælikvarða. Á síðasta ári jukust eignir sjóðanna um 714 ma.kr. sem samsvarar tæplega 17% vexti sjóðanna í krónum talið á árinu. Þótt innflæði vegna iðgjalda sé enn umtalsvert meira en sem nemur lífeyrisgreiðslum og rekstrarkostnaði sjóðanna er langstærstur hluti þessarar aukningar til kominn vegna myndarlegrar ávöxtunar á eignasafni sjóðanna.

Gjöfult ávöxtunarár að baki

Óhætt er að segja að síðasta ár hafi verið lífeyrissjóðunum gjöfult, eins og raunar öðrum verðbréfafjárfestum. Innlend sem erlend hlutabréf hækkuðu verulega í verði og þá var þróun á skuldabréfamarkaði einnig hagfelld, þótt raunar sé mismunandi hvernig síðastnefnda þróunin kemur fram í bókum sjóðanna eftir því hvort þeir gera upp skuldabréfaeign sína á kaupkröfu eða eftir markaðsvirði. Má hér nefna að OMXI10 vísitala Kauphallarinnar fyrir innlend hlutabréf hækkaði um ríflega 31% á árinu 2019 og heimsvísitala MSCI, sem mælir þróun á alþjóðlegum hlutabréfamörkuðum, hækkaði um 24% á sama tíma. Innlend hlutabréf eru rétt um 14% heildareigna lífeyrissjóðanna og erlendar eignir, að langstærstum hluta í formi beinnar eða óbeinnar hlutabréfaeignar, nema 30% af heildareignum sjóðanna miðað við áramótatölur og því ekki að furða að gott hlutabréfaár endurspeglist í örum vexti hlutabréfaeignar þeirra.

Að teknu tilliti til verðbólgu og líklegs hreins innflæðis iðgjalda umfram lífeyrisgreiðslur og kostnað áætlum við að raunávöxtun eigna íslenska lífeyrissjóðakerfisins hafi verið í námunda við 12% á árinu 2019. Ef rétt reynist er það langhæsta raunávöxtun undanfarins áratugar. Árin 2010-2018 var raunávöxtun sjóðanna að jafnaði 4,4%. Sé tekið tillit til áætlunar okkar fyrir 2019 lætur nærri að raunávöxtun lífeyrissjóðanna hafi að jafnaði verið rétt um 5% á ári undanfarinn áratug. Það er talsvert yfir 3,5% viðmiðinu fyrir raunávöxtun sem sjóðunum er gert að miða við samkvæmt lögum og hefur staða þeirra því styrkst umtalsvert á áratugnum sem nú er að baki, a.m.k. á þennan kvarða.

Erlend hlutabréfaeign er orðin umtalsverð

Sem fyrr sagði nemur hlutabréfaeign lífeyrissjóðakerfisins alls u.þ.b. 44% af heildareignum þeirra og eru gróflega 1/3 þeirrar eignar innlend en 2/3 hlutar bein eða óbein erlend hlutabréfaeign. Raunar má segja að vægi eiginlegrar innlendrar hlutabréfaeignar sé minni þegar tillit er t.d. tekið til þess að langstærsta fyrirtækið í Kauphöllinni, Marel, er fremur alþjóðlegt fyrirtæki en íslenskt og svipaða sögu má segja af nokkrum öðrum Kauphallarfyrirtækjum í mismiklum mæli. Erlend hlutabréfaeign hefur vaxið hratt í bókum sjóðanna síðustu misserin. Nam hún ríflega 23% heildareigna í ársbyrjun 2017 en er nú 30% heildareigna eins og fyrr segir.

Sjóðirnir fjármagna flest íbúðalán beint eða óbeint

Að hlutabréfum slepptum má segja að fjármunum lífeyrissjóðakerfisins sé að stærstum hluta varið til fjármögnunar á íbúðalánum landsmanna. Slík fjármögnun nam um síðustu áramót alls 1.445 mö.kr., sem samsvarar rúmlega 29% af heildareignum sjóðanna. Þar af voru 670 ma.kr. í formi skuldabréfa Íbúðalánasjóðs og forvera hans, sjóðfélagalán námu 519 mö.kr. og eign sjóðanna í sértryggðum skuldabréfum bankanna nam 256 mö.kr. Áhugavert er að sjá, sbr. myndina, að stefnubreyting virðist verða um áramótin 2015-2016 þar sem sjóðirnir blása til sóknar á íbúðalánamarkaði. Frá þeim tíma hafa útistandandi sjóðfélagalán með íbúðaveði farið úr 170 mö.kr. í tæpa 519 ma.kr. miðað við síðustu áramót. Hlutdeild sjóðfélagalána í heildareignum lífeyrissjóðanna hefur því tvöfaldast á þessum tíma úr 5,3% í 10,5%.

Minni raunávöxtun í kortunum?

Öflugt lífeyriskerfi er ein af þeim stoðum sem við höfum oft bent á að eigi eftir að reynast okkur drjúg búbót á komandi áratugum. Þó er ólíklegt að annar eins áratugur og nú er að baki sé í kortunum hvað ávöxtun varðar. Vextir hafa lækkað verulega hérlendis sem erlendis og erlendir hlutabréfamarkaðir eiga tæpast viðlíka verðhækkanir inni og einkennt hafa síðustu ár. Það verður því vaxandi áskorun fyrir sjóðina að viðhalda raunávöxtun í takti við 3,5% viðmiðið en að sama skapi er gleðiefni að staða þeirra sé jafn sterk og raun ber vitni um þessar mundir.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband