Umtalsvert gjaldeyrisútflæði hefur orðið undanfarið ár vegna sölu erlendra aðila á íslenskum verðbréfum. Samkvæmt nýlega birtu riti Seðlabankans, Fjármálastöðugleika, var hrein nýfjárfesting neikvæði um 57 ma.kr. á árinu 2020 og um 58 ma.kr. á fyrsta fjórðungi þessa árs. Fram kemur í ritinu að tvær stórar hreyfingar erlendra aðila skýri meginhluta þessarar þróunar:
- Stór skuldabréfasjóður sem í ársbyrjun 2020 átti helming allra ríkisbréfa sem á annað borð voru í erlendri eigu seldi öll ríkisbréf sín á síðasta ári. Salan fór að stærstum hluta fram á haustmánuðum og greindi Seðlabankinn raunar frá því að bankinn hefði á endanum haft samband við þennan aðila og gert samkomulag um að leggja til gjaldeyri í viðskiptunum til að draga úr þrýstingi á gjaldeyrismarkaði.
- Erlend sjóðafyrirtæki losuðu stöðu sína í hlutabréfum Arion banka á fyrsta fjórðungi þessa árs. Til að mynda seldi vogunarsjóðurinn Taconic, sem í ársbyrjun var stærsti einstaki hluthafi í bankanum, allan sinn hlut í bankanum samkvæmt umfjöllun í Fjármálastöðugleika.