Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Íslandsbanki hf.: Fyrsta árshlutauppgjör Íslandsbanka 2018

Íslandsbanki hóf árið með áframhaldandi útlánavexti sem nam 2,8% frá áramótum, 1,4% aukningu í innlánum og 5,1% stækkun efnahagsreiknings sem er nú um 1.088 milljarðar króna.


Helstu atriði í afkomu 1F2018

  • Hagnaður eftir skatta var 2,1 ma. kr. (1F17: 3,0 ma.kr.) og var arðsemi eigin fjár 4,8% á fjórðungnum (1F17: 7,0%).
  • Hagnaður af reglulegri starfsemi var 2,9 ma. kr. (1F17: 3,5 ma. kr.) og var arðsemi eigin fjár af reglulegri starfsemi miðað við 15% eiginfjárhlutfall þáttar 1 (CET1) 8,2% á fjórðungnum (1F17: 10,6%).
  • Hreinar vaxtatekjur jukust um 4,6% og voru 7,7 ma. kr. (1F17: 7,4 ma. kr) Vaxtamunur var 2,9% (1F17: 2,9%).
  • Hreinar þóknanatekjur voru 2,8 ma. kr. (1F17: 3,3 ma. kr.) sem er lækkun um 15% frá 1F17 og má að mestu rekja til lækkunar á þóknanatekjum í tveimur dótturfélögum bankans.
  • Stjórnunarkostnaður án einskiptisliða var 6,8 ma. kr. á 1F18 sem er 7,3% hækkun frá 1F17 en sé tekið tillit til verðbólgu fyrir tímabilið, þá var hækkunin 2,9%. Hækkunina má að mestu rekja til kostnaður vegna innleiðingar á nýjum grunnkerfum bankans fyrir innlán og greiðslumiðlun en gert er ráð fyrir að því verkefni ljúki síðar á árinu. Einnig höfðu samningsbundnar launahækkanir áhrif til hækkunar á kostnaði.
  • Útlán til viðskiptavina jukust um 2,8% (21 ma. kr.) á 1F18 eða í 776 ma. kr. Ný útlán á fjórðungnum voru 42 ma. kr. og dreifðust vel á milli viðskiptaeininga bankans á meðan innlán frá viðskiptavinum hækkuðu um 1,4% eða 8,2 ma.kr. frá árslokum 2017 (heildarinnlán voru 575 ma. kr.).
  • Lausa- og eiginfjárstaða bankans er áfram sterk og umfram kröfur eftirlitsaðila og innri viðmið.

Helstu atriði úr rekstri 1F2018

  • Bankinn gaf í janúar út 300 milljóna evru skuldabréf á 75 punkta álagi yfir millibankavexti í evrum til 6 ára en með innköllunarheimild eftir 5 ár. Viðskiptin mörkuðu tímamót í rekstri Íslandsbanka en um var að ræða lengstu skuldabréfaútgáfu og bestu kjör erlendis sem íslensk fjármálastofnun hefur notið frá árinu 2008.
  • Í febrúar kynntu Íslandssjóðir uppbyggingarfélagið 105 Miðborg til leiks sem mun reisa í samstarfi við fjárfesta, nýtt 42.000 fermetra borgarhverfi á Kirkjusandi á næstu árum.
  • Á aðalfundi bankans í mars var samþykkt að greiða 13 milljarða króna af hagnaði ársins 2017 í arð til hluthafa en bankinn hefur þá greitt um 76 milljarða króna í arð til hluthafa frá árinu 2013.
  • Góður gangur var í húsnæðislánum á fjórðungnum og uxu þau um 5% frá árinu á undan.
  • Sjálfvirkur afgreiðslubúnaður bankans vegna umsókna um yfirdráttarheimild hefur samþykkt um 4.500 lánveitingar frá því hann var tekinn í notkun byrjun febrúar.
  • Nýlega opnaði Íslandsbanki fyrir samstarf við nýsköpunarfyrirtæki um þróun á framtíðar fjártæknilausnum fyrir viðskiptavini.

Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka:

Íslandsbanki hóf árið með áframhaldandi útlánavexti sem nam 2,8% frá áramótum, 1,4% aukningu í innlánum og 5,1% stækkun efnahagsreiknings sem er nú um 1.088 milljarðar króna. Það var góður gangur í nýjum húsnæðislánum sem uxu um 5% frá árinu á undan. Tekjur og þóknanir voru í takt við væntingar í móðurfélagi en 15% samdráttur varð í tekjum og þóknunum samstæðu miðað við sama tíma í fyrra vegna minni umsvifa hjá tveimur dótturfélögum.

Kostnaður er enn of hár hjá bankanum en 2,9% raunhækkun frá fyrra ári má að mestu má rekja til launakostnaðar vegna vinnu við nýtt innlána- og greiðslukerfi auk annarra samningsbundinna launahækkana. Við erum spennt að ljúka við innleiðingu kerfisins síðar á árinu sem mun ásamt nýju skipulagi, áframhaldandi hagræðingaraðgerðum, flutningi í nýjar höfuðstöðvar og skilvirku útibúaneti, leiða til hagkvæmari reksturs og lækkunar á kostnaði hjá bankanum.

Fjármögnun bankans hefur verið árangursrík það sem af er á árinu en við vorum með tvær vel heppnaðar erlendar skuldabréfaútgáfur, aðra að fjárhæð 300 milljónir evra (um 38 milljarðar íslenskra króna) á 75 punkta álagi yfir millibankavöxtum í evrum en hina að fjárhæð 1. milljarður sænskra króna (um 11,9 milljarðar íslenskra króna) á 80 punkta álagi ofan á 3 mánaða millibankavexti í sænskum krónum. Báðar útgáfur eru með innköllunarheimild sem er nýjung á markaði og mun hjálpa við stýringu á lausafjárhlutföllum bankans. Við héldum einnig áfram að vera leiðandi innanlands í útgáfu á sértryggðum bréfum og gáfum út fyrir 9,5 milljarða króna á fjórðungnum.

Í dag fer mestur hluti samskipta bankans við viðskiptavini um stafræna miðla. Í takt við framtíðarsýn okkar um að vera númer eitt í þjónustu, þá höfum við haldið áfram að þróa nýjar stafrænar lausnir í tengslum við Íslandsbanka, Kass og Kreditkorta öppin okkar. Þar að auki kynntum við nýlega til sögunnar spennandi verkefni í tengslum við nýja evrópska tilskipun um greiðslumiðlun, PSD2 þar sem við ætlum að opna fyrir samstarf við þriðja aðila. Með þessu stígur Íslandsbanki mikilvægt skref í átt að bankaþjónustu framtíðarinnar með það í huga að mæta breyttu neyslumynstri viðskiptavina og hraðri þróun á markaði.

Símafundur á ensku kl. 13:00

Markaðsaðilum er boðið upp á símafund á ensku í dag miðvikudaginn 9. maí kl. 13:00. Farið verður yfir helstu atriði í íslenskum efnahagsmálum og afkomu bankans. 
Vinsamlegast skráið ykkur á símafundinn með að senda póst á ir@islandsbanki.is. Fundargögn og aðgangsorð vegna símafundar verða send út til skráðra aðila fyrir fundinn.

Öll gögn má nálgast á vef fjárfestatengsla www.islandsbanki.is/fjarfestatengsl. 
Upplýsingar um fjárhagsdagatal bankans og þögul tímabil má finna hér: http://www.islandsbanki.is/um-islandsbanka/fjarfestatengsl/fjarhagsdagatal/.

ÍSB Árshlutareikningur fyrir fyrsta fjórðung 2018