Athugið

Þessi grein er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Full mikið lesið í markaðinn?

Ég hef jafnvel heyrt sama fólkið bókstaflega sveiflast endanna á milli á einum degi; til dæmis frá því að telja bensínlítrann stefna í 500 krónur í upphafi dags og í frjálst verðfall seinni partinn.


Fyrir nokkrum árum gáfu þau Svandís Rún Ríkharðsdóttir og Sigurður B. Stefánsson út bók sem mögulega er sú besta sem skrifuð hefur verið á íslensku um fjárfestingar. Titill hennar, Lesið í markaðinn, lýsir innihaldinu vel en auk þess sem rýnt er í sögu fjárfestinga og eignastýringar er vandlega litið á einstakar sveiflur á mörkuðum.

Að lesa í markaðinn með þeim hætti sem Svandís og Sigurður gera svo listilega vel er bæði upplýsandi og áhugavert en krefst þó ákveðins aga. Við gætum nefnilega þurft að minna okkur reglulega á að hreyfingar innan dags og aðrar skammtímasveiflur kunna að segja nokkuð takmarkaða sögu. Aukinn fréttaflutningur og gott aðgengi að markaðsupplýsingum gera okkur vissulega kleyft að fylgjast vel með markaðinum og meta ástæður hreyfinga í rauntíma en bjóða stundum upp á að full mikið sé í þær lesið. Plottið er sjaldan að finna á hverri síðu góðrar bókar og sömuleiðis hefur sveiflan í dag yfirleitt minniháttar áhrif á framvindu markaðarins til lengri tíma litið. 

Eru skammtímasveiflur alltaf fyrirboði um það sem koma skal?

Hér er ég ekki að ljóstra upp neinu leyndarmáli. Að sjálfsögðu leggja sparifjáreigendur og fjárfestar yfirleitt mat á fýsileika fjárfestinga til lengri tíma en eins dags. Ég hef þó á tilfinningunni að þessa dagana beri óvenju mikið á að hreyfingar innan dags séu túlkaðar sem fyrirboði um komandi tíð. Sveiflur hafa vissulega verið miklar og fréttnæmar að undanförnu. Áhrif Covid hafa verið umtalsverð og innrás Rússa í Úkraínu hefur hrist rækilega upp í mörkuðum. Það er trú sumra á varanleika þeirra sveiflna sem veldur mér eilitlum áhyggjum. Ég hef jafnvel heyrt sama fólkið bókstaflega sveiflast endanna á milli á einum degi; til dæmis frá því að telja bensínlítrann stefna í 500 krónur í upphafi dags og í frjálst verðfall seinni partinn. Í flestum tilvikum virðist ástæðan vera tilhneiging til að telja að hreyfingar sem þegar hafa átt sér stað hljóti að halda áfram, án sýnilegs rökstuðnings.

Sérstaklega þykir mér þó bera á þess háttar málflutningi á samfélagsmiðlum. Grandlausir sparifjáreignendur óska eftir ráðleggingum og fá svör þar sem iðulega er vísað í hreyfingar sem þegar hafa komið fram. Þetta er að ákveðnu leyti skiljanlegt þar sem vinstri hluti línuritsins er skýrari en það sem eftir á að bæta við, en það gerir slíka ráðgjöf ekki betri. Nær væri að spyrja hvort langtímavæntingar til viðkomandi fjárfestingar hafi breyst við nýjustu tíðindi og hvort hætt hafi verið við upphaflegt markmið um fjárfestingu til lengri tíma og nú skuli ráðast í spákaupmennsku þar sem þess verði freistað að spila á skammtímasveiflur, með tilheyrandi áhættu og kostnaði.

Í þessu samhengi rifjast upp fyrir mér viðbrögð sparifjáreigenda og fjárfesta við sveiflum á skuldabréfamarkaði á árunum eftir klandrið 2008. Sterk rök mátti færa fyrir kaupum á ríkisskuldabréfum þar sem ávöxtunarkrafa þeirra var enn mjög há og samhliða efnahagsbata og hjaðnandi verðbólgu voru líkur á talsverðum vaxtalækkunum. Með tiltölulega lítilli áhættu mátti því festa sér þokkalega ávöxtun með ríkisábyrgð og aukinheldur væntingar um umframávöxtun vegna kröfulækkunar. Skemmst er frá því að segja að þetta gekk eftir og var ávöxtun flestra skuldabréfaeigenda ljómandi góð. En leiðin að ávöxtuninni var ekki línuleg. Af og til hækkaði ávöxtunarkrafa bréfanna, jafnvel yfir langt tímabil. Þetta túlkuðu því miður margir sem svo að skuldabréf væru slæm fjárfesting og best væri að selja bréfin. Lítill annar rökstuðningur stóð að baki innlausninni en óþægindin sem fylgdu stakri skammtímasveiflu. En höfðu væntingar fólks til langtímaþróunar vaxta eða öryggis útgefenda breyst? Það heyrðist mér ekki. 

Hvað nú?

Sem sparifjáreigendur og fjárfestar eigum við oft í fullu fangi með að passa upp á að tilfinningar ráði ekki þeim ákvörðunum sem við tökum. Okkur virðist vera eðlislægt að telja núverandi sveiflu og ástand hljóta að vera varanlegt og því er mikilvægt að við séum meðvituð um að svo þurfi ekki endilega að vera.

Vissulega er afar erfitt að lesa í markaðinn þessa stundina. Framvindan veltur að miklu leyti á þróun og lengd þessarar hræðilegu innrásar í Úkraínu og um slíkt vitum við að sjálfsögðu ekkert. Á miklum óvissutímum er sérstök ástæða til að fara varlega og vanda sig þegar ákvarðanir eru teknar. Vörumst því að lesa of mikið í markaðinn innan dags en gefum okkur þess í stað tíma til að leita okkur ráðgjafar, huga að eignasafninu og gera svo mögulega breytingar ef sérstök ástæða þykir til.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu

Höfundur


Björn Berg Gunnarsson

Deildarstjóri Greiningar og fræðslu


Senda tölvupóst