Hafberg rifjar upp að 16 ára gamall fór hann til Noregs í þeim tilgangi að læra garðyrkju. Þaðan sneri hann til Íslands og hafði þá áform um að rækta grænmeti fyrir Íslendinga. Lambhagi hóf rekstur árið 1977 og fyrstu vörur fyrirtækisins komu á markað tveimur árum síðar, árið 1979.
„Þetta var bara lítið fjölskyldufyrirtæki úti í móa,“ segir Hafberg. Rétt er að hafa í huga að í lok áttunda áratugarins, þegar fyrirtækið hóf útiræktun, var hvorki byggð í Grafarvogi né Grafarholti og Lambhagi því nokkuð fjarri byggð. Síðan þá hefur Hafberg ferðast víða um heim til að sjá hvernig hægt er að gera hlutina betur. Hann segir mikilvægt að kynna sér hverjar þarfirnar eru á markaði hverju sinni og hvað þurfi að gera til að mæta þeim.
Lambhagi áformar nú að reisa stærri verksmiðju í Lundi i Mosfellsdal og mun það stórefla framleiðslugetu fyrirtækisins. Það hefur þó ekki gengið fyrirhafnarlaust.
„Íslandsbanki kom með mér í þetta og hjálpaði mér á lokametrunum,“ segir Hafberg. Þá reisti Hafberg sína eigin verksmiðju í Danmörku sem framleiðir þau færibönd sem til þarf í nýju verksmiðjuna. Þau færibönd, sem þegar hafa verið keyrð til reynslu, eru að sögn Hafbergs á allt annan máta en þekkst hefur hingað til.