Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Íslandsbanki gefur út fyrstu niðurstöður fjármagnaðs útblásturs

Það felast mikil tækifæri í að fjármagna þá umbreytingu sem þarf að eiga sér stað til þess að Ísland geti náð metnaðarfullum markmiðum í loftlagsmálum.


Íslandsbanki hefur gefið út fyrstu niðurstöður mælingar á fjármögnuðum útblæstri fyrir árin 2020 og 2019, í samræmi við PCAF aðferðafræðina. Kolefnisspor af lána- og eignasafni er 360 sinnum stærra en kolefnisspor af rekstri bankans á árinu 2020. Þetta jafngildir því að útblástur af rekstri bankans sé álíka mikill á einu ári eins og útblástur lána- og eignasafns væri á einum degi.  

Niðurstöðurnar sýna þannig enn betur en áður fram á að stærsta tækifæri bankans til þess að vera hreyfiafl til góðra verka er að styðja við og valdefla viðskiptavini á sjálfbærnivegferð þeirra. Það felast mikil tækifæri í því að fjármagna þá umbreytingu sem þarf að eiga sér stað til þess að Ísland geti náð metnaðarfullum markmiðum í loftlagsmálum. 

Árið 2019 var fjármagnaður útblástur 358 kt CO2 íg en árið 2020 163 kt CO2 íg. Þennan mikla mun á milli ára má rekja til heimsfaraldursins sem dró tímabundið úr útblæstri í mikilvægum atvinnugreinum. Töluverður munur var á fjármögnuðum útblæstri  eftir atvinnugreinum. Lán sem falla undir iðnað og samgöngur ollu 54% af útblæstri bankans en voru ekki nema 6% af heildarlánabókinni. Útblástur vegna húsnæðislána var einungis 0,5% af heildarútblæstri en 37% af fjárhæð lánabókar. Þó viðbúið sé að iðnaður og samgöngur valdi meiri útblæstri en húsnæði er mikilvægt að mæla það. Þegar viðmiðunarþátturinn er þekktur er hægt að skipuleggja markvissa leið að markmiðinu um kolefnishlutleysi og mæla árangur af þeirri stefnu sem bankinn hefur sett sér. 

Stefnt er á að gefa út niðurstöður fyrir árið 2021 síðar á þessu ári en útreikningarnir byggja á uppgjörum viðskiptavina og þurfa þau að liggja fyrir áður en hafist er handa.

Niðurstöðurnar í heild sinni má nálgast hér

Í dag gefum við stolt út fyrsta PCAF matið á kolefnisfótspori lánasafnsins okkar. Eigin rekstur Íslandsbanka hefur verið kolefnishlutlaus frá árinu 2019 en markmið bankans um að ná fullu kolefnishlutleysi 2040 nær einnig til „fjármagnaðs útblásturs“, og þannig kolefnisspors af öllu lána- og eignasafni bankans. Matið sem við kynnum nú er því mikilvægur áfangi á vegferðinni í átt að kolefnishlutleysi. Viðhorf okkar gagnvart sjálfbærni er að þora að tala um þessa mikilvægu hluti, þó að við séum ekki fullkomin sjálf. Sjálfbærni er vegferð, við verðum að vera auðmjúk og forvitin, og að stefna sífellt að framförum á þessu sviði sem öðrum.

Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka og formaður sjálfbærninefndar