Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Fjárhagur heimila landsins líklega aldrei verið heilbrigðari

Skuldir heimila hafa lækkað um fimmtung frá árslokum 2007 og kaupmáttur launa aukist um fjórðung. Einstæðir karlmenn eru þó tvöfalt líklegri til að búa við íþyngjandi greiðslubyrði en aðrir.


Heimili landsins skulda um þessar mundir um 2.050 milljarða króna og hafa skuldir þeirra lækkað um 500 milljarða, eða 20%, árslokum 2007.

Á sama tímabili hefur kaupmáttur launa aukist um 24%. Bæði hafa því skuldir heimilanna lækkað og kaupmáttur aukist. Þar að auki hefur hækkandi íbúðaverð undanfarinn áratug á umræddu tímabili aukið eigið fé þeirra heimila sem þegar eiga fasteignir.  Hefur áðurgreind þróun orðið til þess að auka verulega viðnámsþrótt gagnvart fjárhagslegum áföllum. Verður að teljast líklegt að fjárhagur heimilanna hafi heilt á litið sjaldan eða aldrei staðið á eins styrkum stoðum og nú.

Jákvæð þróun nær einnig til þeirra sem glíma við íþyngjandi greiðslubyrði

Greiðslubyrði skulda sem hlutfall af ráðstöfunartekjum segir til um hve auðvelt eða erfitt er fyrir lántakendur að ráða við skuldsetningu sína. Því lægra sem hlutfallið er, því minni hluti ráðstöfunartekna ætti að öðru óbreyttu að fara í greiðslubyrði lána. Þrátt fyrir að fjárhagur heimilanna hafi almennt þróast með jákvæðum hætti eru enn aðilar sem glíma við íþyngjandi greiðslubyrði vegna skulda. Talað er um að greiðslubyrði sé íþyngjandi þegar 40% eða hærra hlutfall útborgaðra launa fer í að þjónusta skuldir. Í þann flokk falla um 7% landsmanna um þessar mundir en hlutfallið var 11% árið 2015. Þannig hefur fækkað í hópi þeirra sem glíma við íþyngjandi greiðslubyrði sem hlýtur að teljast jákvæð þróun.

Ástæður þessa eru hvort tveggja að dregið hefur úr skuldsetningu og vaxtaumhverfi hefur þróast í átt að lægri vöxtum. Þá hafa laun hækkað umtalsvert líkt og greint hefur verið frá hér að ofan. Hefur því hluti ráðstöfunartekna landsmanna sem varið er í vaxtagjöld og afborganir skulda lækkað talsvert og samhliða því skapast svigrúm hjá fleiri aðilum til að verja auknum hlut ráðstöfunartekna til neyslu og/eða sparnaðar.

Einstæðir karlmenn tvöfalt líklegri til að búa við íþyngjandi greiðslubyrði

Þegar litið er til greiðslubyrði skulda sem hlutfall af ráðstöfunartekjum eftir fjölskyldugerð árið 2018 lítur út fyrir að einstæðir karlmenn séu sá hópur sem í hvað flestum tilvikum býr við íþyngjandi greiðslubyrði. Jafnframt er algengast að byrðin sé íþyngjandi á meðal fólks á aldrinum 35–64 ára. Þannig má leiða líkum að því að óheilbrigð skuldsetning sé hvað algengust hér á landi hjá einstæðum karlmönnum á áðurgreindu aldursbili.

Höfundur


Elvar Orri Hreinsson

Sérfræðingur í Greiningu


Senda tölvupóst