Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Ferðaþjónustan nær nýjum hæðum á næstu misserum

Uppgangur ferðaþjónustunnar eftir faraldur hefur verið hraður og enn sem komið er virðast versnandi efnahagshorfur víða um heim ekki hafa dregið úr spurn eftir Íslandsferðum. Við spáum ríflega 2,1 milljón ferðamanna hingað til lands á þessu ári og metfjölda næstu tvö ár.


Uppgangur ferðaþjónustunnar hefur verið hraður frá því sóttvarnartakmörkunum var aflétt síðastliðið vor. Enn sem komið er virðast versnandi efnahagshorfur erlendis heldur ekki hafa slegið á ferðavilja hingað til lands svo neinu nemi.

Erlendir ferðamenn hingað til lands með flugi voru tæplega 1,7 milljónir á árinu 2022 ef miðað er við brottfarartölur um Keflavíkurflugvöll. Við það bætist nokkur fjöldi farþega um Akureyrarflugvöll að ógleymdum erlendum ferðamönnum sem sóttu landið heim með ferjunni Norrænu sem og með skemmtiferðaskipum. Hefur ferðafólk hér á landi ekki verið fleira frá árinu 2019. Þótt heimsóknir fólks frá Asíu séu mun færri nú en fyrir faraldur hefur fjölgun ferðalanga frá Bandaríkjunum og Evrópu bætt það upp.

Útlitið fyrir komandi misseri er allgott þótt enn sé umtalsverð óvissa tengd þróun efnahagsmála í Bretlandi sem og á meginlandi Evrópu. Reyndar hefur góðu heilli heldur birt til í þróun orkuverðs og efnahagshorfum almennt í Evrópu síðustu vikurnar eftir óvenju hlýjan vetur það sem af er.

Bókunarstaða, vaxandi tíðni áætlaðra flugferða til og frá landinu og upptaktur í áætluðum komum skemmtiferðaskipa benda til áframhaldandi myndarlegs vaxtar á þessu ári. Sama má segja um leitni í vefleitum með leitarvef Google sem virðast raunar hafa tekið nokkurn fjörkipp á fyrstu vikum ársins. Á það ekki síst við um Bretland, en ferðafólk þaðan er afar mikilvægt fyrir vetrarferðamennskuna hérlendis og hefur stundum verið fjölmennast allra þjóðerna yfir háveturinn.

Við spáum því í þjóðhagsspá okkar sem út kom í febrúarbyrjun að ríflega 2,1 milljón ferðamanna sæki landið heim um Keflavíkurflugvöll á þessu ári. Gangi spá okkar eftir er það svipaður fjöldi og var hér fyrir sex árum síðan. Á næsta ári gerum við ráð fyrir rúmum 2,3 milljónum ferðafólks og 2,4 – 2,5 milljónum árið 2025. Næstu tvö ár verða því metár í ferðaþjónustu gangi spá okkar eftir. Hafa ber í huga að spá þessi miðast við brottfarir um Keflavíkurflugvöll en talsverður fjöldi mun auk þess sækja landið heim um Akureyrarflugvöll, með Norrænu og með skemmtiferðaskipum.

Hægari fjölgun ferðamanna þegar frá líður í spá okkar skýrist m.a. af skorðum í framboði á gistingu og öðrum tilheyrandi innviðum auk þess sem hækkandi raungengi gæti með tímanum dregið úr ferðavilja sumra hingað til lands. Hvað sem því líður virðist ljóst að ferðaþjónustan er að endurheimt sinn fyrri sess sem stærsta útflutningsgrein þjóðarbúsins.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband