Afgangur af þjónustuviðskiptum við útlönd var ríflega 110 ma.kr. á þriðja fjórðungi ársins. Er það fjórði mesti afgangur sem mælst hefur samkvæmt tölum Hagstofunnar en afgangur af þjónustujöfnuði hefur ávallt verið mestur á 3. ársfjórðungi frá því ferðaþjónustunni fór að vaxa verulegur fiskur um hrygg fyrir rúmum áratug. Þjónustuútflutningur nam 263 ma.kr. á tímabilinu en á sama tíma keyptu landsmenn erlenda þjónustu fyrir 153 ma.kr. Mikill vöxtur var milli ára á báðum hliðum þjónustujafnaðar og jókst útflutningurinn um 58% frá sama tíma í fyrra en innflutningur um 49%.
Ferðaþjónustan færði björg í bú á 3. ársfjórðungi
Endurkoma ferðaþjónustunnar sem lykilútflutningsgreinar réði mestu um að 110 milljarða króna afgangur var á þjónustuviðskiptum við útlönd á 3. ársfjórðungi. Samanlagður afgangur af viðskiptum með vörur og þjónustu var 39 milljarðar. Líklega verður nokkur halli á utanríkisviðskiptum á lokafjórðungi ársins enda hefur innflutningur verið umtalsverður síðustu vikur og mánuði.
Gott ferðamannasumar skýrir langstærstan hluta af miklum útflutningsvexti í þjónustu. Alls nam útflutningur tengdur farþegaflutningum með flugi og ferðalögum ríflega 187 ma.kr. Eru tekjur af þessari starfsemi þar með farnar að nálgast það sem mest var fyrir faraldur en hámarki náðu þær á 3. ársfjórðungi 2018, ríflega 194 ma.kr.
Ferðagleði landsmanna var þó einnig talsverð á tímabilinu. Alls námu útgjöld vegna flugfargjalda og neyslu á ferðalögum erlendis rúmlega 61 ma.kr. og hafa ekki verið meiri í krónum talið. Afgangur af viðskiptum tengdum ferðaþjónustu milli landa var þ.a.l. 126 ma.kr.
Aðrir undirliðir þjónustujafnaðar skiluðu flestir hverjir halla á 3. fjórðungi ársins. Þannig var 252 m.kr. halli á gjöldum fyrir notkun hugverka milli landa, en sá liður hefur á stundum skilað drjúgum afgangi enda er útflutningur hugverka vaxandi grein hér á landi. Sérfræðiþjónusta ýmis konar, sem fellur undir liðinn „Önnur viðskiptaþjónusta“ í bókhaldi Hagstofunnar, skilaði einnig talsverðum halla á fjórðungnum. Góðu heilli réði myndarlegur afgangur tengdur ferðaþjónustunni þó baggamuninn og skilaði myndarlegum heildarafgangi eins og oft áður á fjórðungnum.
Ferðaþjónustan á leið í fyrsta sætið á ný
Ferðaþjónustan hefur sótt verulega í sig veðrið á nýjan leik í hópi útflutningsgreina eftir djúpa dýfu á faraldurstímanum. Á tímabilinu frá október í fyrra fram til september á þessu ári skilaði greinin 411 ma.kr. heildartekjum sem samsvarar tæpum fjórðungi af heildar útflutningstekjum á tímabilinu. Á sama tíma voru heildartekjur af útflutningi sjávarafurða 337 ma.kr. (20% af heild), ál og álafurðir 396 ma.kr. (24%), aðrar iðnaðarvörur 155 ma.kr. (9%) og annar útflutningur vöru og þjónustu 377 ma.kr. (23%).
Útlit er fyrir að ferðaþjónustan sé að endurheimta sinn fyrri sess sem stærsta útflutningsgrein þjóðarbúsins. Á 3. ársfjórðungi aflaði greining ríflega þriðjungs af heildar gjaldeyristekjum þjóðarbúsins en til samanburðar var hlutur hennar í útflutningi að jafnaði á þeim slóðum árin fyrir faraldur.
Afgangur breytist í halla með lækkandi sól
Eins og við fjölluðum nýlega um hefur vöruskiptahalli verið mikill og vaxandi það sem af er ári. Samkvæmt tölum Hagstofunnar var vöruskiptahallinn 71 ma.kr. á 3. ársfjórðungi og hefur ekki áður verið meiri í krónum talið á einum ársfjórðungi. Samanlagður afgangur af vöru- og þjónustuviðskiptum var því rýrari en oft áður á háannatíma ferðaþjónustunnar. Alls skiluðu vöru- og þjónustuviðskipti við útlönd 39 ma.kr. afgangi á tímabilinu en þegar hæst hóaði, á 3F 2016, var afgangurinn á þennan kvarða nærri 105 ma.kr.
Þegar öllu er á botninn hvolft eru þó þessar tölur Hagstofunnar heldur jákvæðari en við þorðum að vona. Ljóst virðist að aðrir kraftar en flæði beintengt vöru- og þjónustuviðskiptum hafa ráðið ferðinni um gengisþróun krónu á 3. ársfjórðungi. Frá júlíbyrjun til septemberloka lækkaði gengi krónu um tæp 2% á sama tíma og afgangur af framangreindum viðskiptum var jafn myndarlegur og raun ber vitni.
Aftur á móti hefur líklega áfram sigið nokkuð á ógæfuhliðina í vöru- og þjónustuviðskiptum með haustinu eins og septembertölurnar gáfu reyndar til kynna. Metfjöldi landsmanna hélt utan í október og kortavelta erlendis náði að sama skapi methæðum eins og við höfum fjallað um nýlega. Sama var uppi á teningnum í vöruskiptum þar sem halli í október, 53 ma.kr.., var sá mesti í sögunni. Á sama tíma fækkaði komum ferðamanna talsvert frá háönn þótt haustið hafi raunar verið býsna drjúgt hjá ferðaþjónustunni. Því má búast við að halli á slíkum viðskiptum í heild reynist allnokkur á lokafjórðungi ársins.
Í komandi viku birtir Seðlabankinn svo tölur um viðskiptajöfnuð og erlenda stöðu þar sem gögn um þáttatekjujöfnuð og jöfnuð framlaga milli landa bætist við tölurnar hér að ofan. Verður fróðlegt að sjá þróun í þeim tölum og eins hvernig erlend staða þjóðarbúsins hefur þróast á misviðrasömum tímum á alþjóðlegum eignamörkuðum.