Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Ferðaþjónustan á hröðum batavegi eftir tveggja ára lægð

Eftir sviptingasöm tvö ár, þar sem skipst hafa á skammvinn vaxtarskeið og ládeyða í komum ferðamanna hingað til lands eftir framgangi faraldursins, er nú útlit fyrir allhraðan bata í ferðaþjónustu hérlendis. Ferðamenn hér á landi gætu orðið 1,5 – 1,6 milljónir í ár og í kring um 2 milljónir næstu tvö ár.


Samkvæmt nýlega birtum tölum frá Ferðamálastofu fóru tæplega 103 þúsund erlendir farþegar frá landinu um Keflavíkurflugvöll í apríl síðastliðnum. Líkt og síðustu mánuði voru Bretar og Bandaríkjamenn fjölmennir meðal ferðafólks. Bretar voru 16% af þeim sem sóttu landið heim og Bandaríkjamenn 17%. Næst þar á eftir komu Pólverjar (11%), Frakkar (6%) og Þjóðverjar (6%). Norðurlandabúar sóttu einnig talsvert í sig veðrið hvað Íslandsferðir varðar en alls voru gestir frá hinum Norðurlöndunum 10% þeirra sem hingað komu í apríl.

Erlendir ferðamenn hingað til lands voru ríflega 340 þúsund á fyrsta þriðjungi ársins ef miðað er við brottfarartölur um Keflavíkurflugvöll. Svo margt ferðafólk hefur ekki sótt landið heim á þessu tímabili frá árinu 2019. Sér í lagi hefur breskum ferðamönnum fjölgað á nýjan leik en þeir hafa verið mikilvægur hluti af vetrarstarfsemi ferðaþjónustunnar allt fram að faraldri.

Bjartsýni ríkir innan greinarinnar varðandi komandi sumar og haust. Bókunarstaða og vaxandi tíðni áætlaðra flugferða til og frá landinu benda til þess að fjöldi ferðafólks á komandi fjórðungum gæti orðið á bilinu 80-90% af fjöldanum árið 2019.

Í nýlega birtri Þjóðhagsspá okkar spáum við því að 1,5 - 1,6 milljónir ferðamanna sæki landið heim á þessu ári. Gangi spá okkar eftir er það svipaður fjöldi og var hér um miðjan síðasta áratuginn. Á næsta ári gerum við ráð fyrir 1,9 milljón ferðamönnum og 2,1 milljónum árið 2024.

Hægari fjölgun ferðamanna þegar frá líður í spá okkar skrifast meðal annars á hærra raungengi, sem gerir Ísland dýrara í samanburði við aðra áfangastaði, svo og horfur á hægari vexti eftirspurnar á heimsvísu sem dregur líklega nokkuð úr ferðavilja og -getu almennings bæði austan hafs og vestan.

Þrátt fyrir að ferðamenn hérlendis hafi verið mun færri í fyrra en árin fyrir faraldur hefur það hjálpað tekjuöflun ferðaþjónustunnar að ferðafólk hingað til lands dvaldi að jafnaði lengur hér á landi og eyddi hærri fjárhæðum í Íslandsferðinni en raunin var áður. Miklu skiptir að sú þróun haldi áfram og teljum við góðar líkur á að tekjur á hvern ferðamann verði að jafnaði nokkru hærri á komandi misserum en var að jafnaði á síðasta áratug. Það styttist því í að ferðaþjónustan öðlist að nýju sinn fyrri sess sem stærsta útflutningsgrein landsins og á hraður vöxtur í greininni að okkar mati stóran þátt í þeim viðsnúningi frá viðskiptahalla til -afgangs sem framundan er í þjóðarbúinu.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband