Engum blöðum er um það að fletta að okkar mati að upptakturinn í komum ferðamanna á komandi misserum gerir gæfumuninn um hversu hratt hagkerfið réttir úr kútnum að nýju eftir Kórónukreppu. Mikil óvissa er um hvernig sú þróun verður og hafa horfur um hana breyst hratt síðustu vikur. Spila þar inn í áhrifaþættir á borð við framgang faraldursins hérlendis sem í viðskiptalöndunum, útbreiðslu á bólusetningu, ferðavilja í þeim löndum sem flestir ferðamenn hingað til lands koma frá, samræmingu á bólusetningar- og ónæmisvottorðum og afléttingu á landamæratakmörkunum, svo nokkuð sé nefnt.
Margt bendir til þess að ferðamenn frá þeim Evrópulöndum sem við deilum Schengen-samstarfinu með verði hvað fyrstir til að mæta hingað á nýjan leik. Mikill þrýstingur er frá ýmsum ferðamannalöndum í Suður-Evrópu á að samræmdar reglur gildi innan svæðisins og að landamæratakmarkanir innan þess verði ekki strangari en efni standa til þegar ónæmi verður útbreiddara og faraldurinn vonandi í rénun. Þar njótum við einnig þess anga fjórfrelsisins sem er hornsteinn EES-samningsins að för fólks innan Evrópu skuli vera frjáls að öðru jöfnu.
Meiri óvissa er um hin stærstu markaðssvæði okkar. Í Bretlandi hefur verið á brattann að sækja í baráttu við Kórónuveiruna undanfarið. Bólusetning gengur þar hins vegar vel og eru nú 15% Breta búnir að fá a.m.k. eina bóluefnissprautu samanborið við t.d. 3,1% í Þýskalandi og 2,4% í Frakklandi. Ekki er heldur ljóst hvort Bretar muni taka upp sams konar regluverk og önnur Evrópulönd þótt við teljum líklegt að það verði á endanum raunin.
Bandaríkjamenn hafa verið drjúgur hluti ferðamanna hingað til lands. Líkt og í Bretlandi hefur baráttan við faraldurinn verið hörð þar undanfarnar vikur en á móti hefur vaxandi skriðþungi færst í bólusetningar og eru nú ríflega 8% landsmanna bólusettir. Enn meiri óvissa er um ferðamenn frá Asíu þar sem bólusetning er víða skammt á veg komin og ferðahömlur strangar.
Í sem stystu máli gerum við ráð fyrir að ferðamenn frá meginlandi Evrópu verði einna atkvæðamestir í vor og sumar, breskir ferðamenn fari að koma eftir því sem líður lengra á sumarið, Bandaríkjamenn fari fyrst að láta sjá sig í umtalsverðum mæli á lokamánuðum ársins og ferðamenn frá öðrum markaðssvæðum ekki fyrr en á næsta ári svo einhverju nemi.