Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Ferðamannastraumurinn skiptir sköpum fyrir efnhagsbatann

Mikil óvissa er um fjölda ferðamanna hingað til lands á komandi misserum. Sviðsmyndagreining varpar að mati okkar ljósi á hversu mikilvægur ferðamannastraumurinn verður fyrir efnahagsbatann eftir Kórónukreppu.


Engum blöðum er um það að fletta að okkar mati að upptakturinn í komum ferðamanna á komandi misserum gerir gæfumuninn um hversu hratt hagkerfið réttir úr kútnum að nýju eftir Kórónukreppu. Mikil óvissa er um hvernig sú þróun verður og hafa horfur um hana breyst hratt síðustu vikur. Spila þar inn í áhrifaþættir á borð við framgang faraldursins hérlendis sem í viðskiptalöndunum, útbreiðslu á bólusetningu, ferðavilja í þeim löndum sem flestir ferðamenn hingað til lands koma frá, samræmingu á bólusetningar- og ónæmisvottorðum og afléttingu á landamæratakmörkunum, svo nokkuð sé nefnt.

Margt bendir til þess að ferðamenn frá þeim Evrópulöndum sem við deilum Schengen-samstarfinu með verði hvað fyrstir til að mæta hingað á nýjan leik. Mikill þrýstingur er frá ýmsum ferðamannalöndum í Suður-Evrópu á að samræmdar reglur gildi innan svæðisins og að landamæratakmarkanir innan þess verði ekki strangari en efni standa til þegar ónæmi verður útbreiddara og faraldurinn vonandi í rénun. Þar njótum við einnig þess anga fjórfrelsisins sem er hornsteinn EES-samningsins að för fólks innan Evrópu skuli vera frjáls að öðru jöfnu.

Meiri óvissa er um hin stærstu markaðssvæði okkar. Í Bretlandi hefur verið á brattann að sækja í baráttu við Kórónuveiruna undanfarið. Bólusetning gengur þar hins vegar vel og eru nú 15% Breta búnir að fá a.m.k. eina bóluefnissprautu samanborið við t.d. 3,1% í Þýskalandi og 2,4% í Frakklandi. Ekki er heldur ljóst hvort Bretar muni taka upp sams konar regluverk og önnur Evrópulönd þótt við teljum líklegt að það verði á endanum raunin.

Bandaríkjamenn hafa verið drjúgur hluti ferðamanna hingað til lands. Líkt og í Bretlandi hefur baráttan við faraldurinn verið hörð þar undanfarnar vikur en á móti hefur vaxandi skriðþungi færst í bólusetningar og eru nú ríflega 8% landsmanna bólusettir. Enn meiri óvissa er um ferðamenn frá Asíu þar sem bólusetning er víða skammt á veg komin og ferðahömlur strangar.

Í sem stystu máli gerum við ráð fyrir að ferðamenn frá meginlandi Evrópu verði einna atkvæðamestir í vor og sumar, breskir ferðamenn fari að koma eftir því sem líður lengra á sumarið, Bandaríkjamenn fari fyrst að láta sjá sig í umtalsverðum mæli á lokamánuðum ársins og ferðamenn frá öðrum markaðssvæðum ekki fyrr en á næsta ári svo einhverju nemi.

Þrjár sviðsmyndir: Ferðamenn á bilinu 400 þúsund til 1 milljón í ár

Til þess að slá mati á hvað hin mikla óvissa um umhverfi ferðaþjónustunnar gæti þýtt fyrir efnahagsþróunina gerðum við þrjár sviðsmyndir fyrir nýlega þjóðhagsspá okkar.

Sviðsmyndin sem liggur til grundvallar hagspánni sjálfri hljóðar upp á að 700 þúsund ferðamenn komi hingað til lands sem að langstærstum hluta koma á seinni hluta ársins. Á næsta ári gerum við ráð fyrir 1,3 milljón ferðamönnum og einni og hálfri milljón ferðamanna árið 2023. Til samanburðar voru erlendir ferðamenn á Íslandi rétt um tvær milljónir árið 2019.

Auk miðspárinnar settum við saman bjartsýnismynd þar sem við teljum u.þ.b. 10% líkur á að þróunin verði í samræmi við hana eða jafnvel enn betri og svartsýnismynd þar sem u.þ.b. 10% líkur eru að mati okkar á þeirri eða enn verri niðurstöðu.

Gangi bjartsýnismyndin eftir verða ferðamenn tæplega 1,0 milljón talsins á þessu ári, ríflega 1,5 milljónir á næsta ári og 1,8 milljónir árið 2023. Ef hlutirnir þróast hins vegar í takti við svartsýnismyndina verða erlendir ferðamenn einungis 400 þúsund í ár en 1,0 milljón á næsta ári og 1,3 milljónir eftir tvö ár.

Framangreindar sviðsmyndir um fjölda ferðamanna breyta svo verulega efnahagshorfunum til skamms og meðallangs tíma að okkar mati. Ef bjartsýna spáin gengur eftir gæti hagvöxtur hér á landi slagað hátt í 5% í ár. Atvinnuleysi myndi minnka allhratt og reynast að jafnaði  tæplega 8% í ár samanborið við 9,4% í grunnspánni. Hröð aukning á gjaldeyristekjum hefði í för með sér að krónan myndi styrkjast hraðar en ella, sem aftur þýddi að verðbólga myndi hjaðna hratt og verða einungis 1,4% á árinu 2022. Hraðari vöxtur kaupmáttar, aukin bjartsýni og minna atvinnuleysi hefði í för með sér að innlend eftirspurn fara á verulegan skrið upp úr miðju ári.

Fari hlutirnir hins vegar á verri veg í ferðaþjónustunni verður hagvöxtur í ár líklega ekki mikið yfir prósentu. Atvinnuleysi verður yfir 10% stærstan hluta ársins og hjaðnar hægar næstu ár en ella. Krónan á undir högg að sækja lengst af árinu þar sem gjaldeyristekjur verða í besta falli áþekkar og í fyrra. Fyrir vikið verður verðbólga verður þrálátari en ella og innlend eftirspurn á erfitt uppdráttar. 

Rétt er að halda því til haga að í dökku sviðsmyndinni erum við samt sem áður að gera ráð fyrir að faraldurinn láti á endanum undan síga og ferðavilji glæðis hægt og sígandi. Vöxturinn myndi þá í mun meiri mæli færast yfir á næsta ár. Það hefði hins vegar í för með sér mun víðtækari gjaldþrot fyrirtækja og greiðsluerfiðleika heimila, langvinnari halla á opinberum fjármálum og hættu á að margs konar samfélagsleg vandamál myndu ná að grafa um sig sem erfitt gæti reynst að vinda ofan af. Það skiptir því miklu máli að ferðaþjónustan nái vopnum sínum fyrr en síðar.

Ítarlegri umfjöllun um sviðsmyndagreiningu okkar er að finna í viðauka aftast í nýlega birtri Þjóðhagsspá 2021-2023.