Frá sumarbyrjun hefur fjöldinn hins vegar verið sambærilegur við árið 2019 eins og sjá má á myndinni. Fjöldinn á árinu í heild var einnig í góðu samræmi við spá okkar frá september síðastliðnum um 1,7 milljón ferðamenn á nýliðnu ári í heild. Ferðaþjónusta á Íslandi hefur raunar rétt hraðar úr kútnum eftir faraldur en gengur og gerist á heimsvísu eins og ofangreindar tölur bera með sér.
Horfur fyrir ferðaþjónustuárið 2023 eru um margt góðar þótt óvissa um komandi fjórðunga sé veruleg vegna bakslags í efnahag þeirra landa sem hvað flestir ferðamenn koma frá, þar sem verðbólga hefur skert kaupmátt heimila og gæti haft áhrif á ferðavilja á næstunni. Þess sjást þó fá merki, ef nokkur, í áhuga umheimsins á Íslandsferðum og er bókunarstaða fyrir komandi fjórðunga með besta móti samkvæmt forsvarsfólki ferðaþjónustunnar. Komandi mánuðir varpa svo vonandi skýrara ljósi á hvort framvinda í geiranum í ár verður jafn jákvæð og teikn eru um þessa dagana.
Við spáðum í september að u.þ.b. 2 milljónir ferðamanna myndu sækja landið heim á árinu 2023. Ef ekki verður teljandi bakslag i komum ferðafólks frá Evrópu og Bandaríkjunum vegna fyrrnefndra þátta gæti sú spá reynst full varfærin. Því eru þó takmörk sett hversu mikla fjölgun milli ára landið ræður við áður en skortur á gistirýmum og ýmissi þjónustu fer að setja henni skorður. Þar skiptir ekki síst máli að dreifing milli landshluta og árstíða verði jafnari en verið hefur.