Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Fara Bretar að streyma aftur til Íslands í ár?

Ef Bretar fara aftur að ferðast út fyrir landsteinana í sumar gæti það reynst íslenskri ferðaþjónustu talsverð lyftistöng. Nærri áttundi hver erlendur ferðamaður hér á landi var breskur árið 2019. Breskir ferðamenn hafa jafnað árstíðasveifluna í ferðaþjónustunni og eyða talsverðu fé hér á landi þótt þeir stoppi fremur stutt.


Nýverið kynntu bresk stjórnvöld tímasetta áætlun um hvernig hömlum vegna sóttvarna verði aflétt í Englandi. Líklegt er að aðrir hlutar Bretlands, þ.a. Skotland, Wales og N-Írland, muni fylgja svipuðum takti þótt áætlunin hafi einungis tekið til Englands. Sá hluti áætlunarinnar sem líklega hefur mest áhrif á íslenskt efnahagslíf til skemmri tíma litið snýr að ferðalögum, en áætlað er að hömlur á ferðalög milli landa verði mildaðar talsvert um miðjan maí þótt um þá tímasetningu sé settur fyrirvari.

COVID-19 faraldurinn hefur verið í hraðri rénun í Bretlandi undanfarið og bólusetningar ganga óvíða betur. Í gær hafði ríflega fjórðungur Breta fengið a.m.k. eina bóluefnissprautu. Miklu lægra hlutfall landsmanna hefur þó verið fullbólusett, eða u.þ.b. 1%, enda fara Bretar þar allt aðra leið en flest önnur lönd þar sem bólusetning er á annað borð hafin af krafti. Til samanburðar hafa ríflega 3% Íslendinga verið fullbólusettir en u.þ.b. 5% landsmanna hafa fengið a.m.k. einn bóluefnisskammt.

Bretar ræsa bókunarvélarnar

Bretar hafa tekið þessum tíðindum fagnandi og kom fram í frétt á vef BBC að kippur hefði komið í ferðapantanir hjá þarlendum ferðaskrifstofum í kjölfar þeirra. Rétt er að halda því til haga að þótt Bretar slaki á landamæraráðstöfunum fyrir sitt leyti er talsverð óvissa um hvernig þeim muni ganga að komast til annarra landa. Bretland er sem kunnugt er ekki lengur aðili að Evrópusambandinu og hefur raunar aldrei tekið þátt í Schengen-samstarfinu um opin innri landamæri innan Evrópu, öfugt við t.d. Ísland. Samræmd tilmæli ESB um ferðalög og leiðbeiningar sem Sóttvarnastofnun Evrópu gefur út og svokölluð litakóðun landa byggir á ná því ekki Bretlands, svo nokkuð sé nefnt. Þó teljum við líklegt að þrýstingur verði mikill á báða bóga að liðka fyrir ferðalögum milli Bretlands og annarra Evrópuríkja eftir því sem á árið líður og njótum við Íslendingar góðs af því sem þátttakendur í fyrrnefndu Schengen-samstarfi og aðilar að EES.

Breskir ferðamenn mikilvægir

Fréttirnar frá Bretlandi eru góð tíðindi fyrir íslenska ferðaþjónustu hvað sem framangreindri óvissu líður. Þótt kannanir á okkar helstu markaðssvæðum bendi til þess að ferðavilji sé enn töluverður og að almenningur í Evrópu sé almennt tilbúinn til þess að gera ferðaáætlanir með mun styttri fyrirvara en áður hefur fátt verið handfast í þeim efnum hvenær slík ferðalög verði möguleg með lágmarks flækjum á landamærum. Fréttir frá Bretlandi sýna að aukin vissa um þetta hvetur marga til þess að taka af skarið og kaupa sér utanlandsferð.

En hversu miklu gætu framangreindar fréttir breytt fyrir íslenska ferðaþjónustu?

Breskir ferðamenn hér á landi voru 262 þúsund talsins árið 2019 og þar með ríflega 13% þeirra erlendu ferðamanna sem sóttu landið heim á því ári samkvæmt tölum frá Ferðamálastofu. Aðeins Bandaríkjamenn voru fjölmennari (23%) af ferðamönnum frá einstökum löndum það ár. Þetta hlutfall fór hækkandi framan af síðasta áratug en lækkaði nokkuð að nýju eftir því sem vægi ferðafólks frá Ameríku og Asíu jókst á síðustu árunum fyrir COVID-19.

Mikilvægi þeirra fyrir innlenda ferðaþjónustu er þó að sumu leyti meira en þær tölur endurspegla. Til að mynda keyptu Bretar 16% allra hótelgistinátta erlendra ferðamanna á innlendum hótelum á því ári.

Ferðahegðun Breta er einnig nokkuð á annan veg en ferðafólks frá ýmsum öðrum markaðssvæðum. Heimsóknir þeirra hingað til lands hafa síðustu ár dreifst mun jafnar yfir árið en gerist og gengur. Til að mynda voru ¾ hlutar Íslandsferða Breta farnar utan háannatímans 2019, þ.e. á fyrstu fjórum eða síðustu þremur mánuðum ársins. Þeir leika því mikilvægt hlutverk í því að draga úr árstíðarsveiflum í íslenskri ferðaþjónustu og skapa tekjur fyrir hótel, veitingahús og afþreyingarfyrirtæki utan háannatímans.

Bretar dvelja að jafnaði heldur styttra hér á landi en gengur og gerist með ferðamenn, eða í 5 nætur samanborið við 6,6 nætur að jafnaði hjá öllum erlendum ferðamönnum. Helst styttri dvalartími í hendur við hærra hlutfall vetrarferða þar sem frítími fólks er alla jafna naumar skammtaður að vetrarlagi og langar helgar koma oft í stað dvalartíma sem telur í vikum.

Einnig hafa breskir ferðamenn að jafnaði haft nokkuð dýpri vasa en meðalferðamaðurinn ef horft er til útgjalda á degi hverjum. Þannig námu dagleg meðalútgjöld breskra ferðamanna í Íslandsferð ríflega 37 þús.kr. á árinu 2018 og voru aðeins Bandaríkjamenn og Kínverjar drýgri í útgjöldunum af þeim þjóðum sem hvað fjölmennastar hafa verið meðal ferðamanna hérlendis síðustu ár.

Bretar gætu reynst drjúg búbót næsta vetur

Tekjur af erlendum ferðamönnum námu 470 mö.kr. árið 2019. Líkast til voru ríflega 50 ma.kr. af þeirri upphæð úr vasa breskra ferðamanna ef marka má framangreindar tölur um dvalarlengd og daglega neyslu þeirra. Það skiptir því miklu mál fyrir tekjur og umsvif í ferðaþjónustunni að Bretar taki aftur upp þráðinn við Íslandsferðir fyrr en síðar. Þar þarf þó tvo til, en að því gefnu að áætlun stjórnvalda um að slaka verulega á landamærahömlum í maí gangi eftir, sem svo aftur veltur á framgangi faraldursins og bólusetningu hérlendis sem erlendis, teljum við ástæðu til bjartsýni á að breskum ferðamönnum muni fara fjölgandi eftir því sem lengra líður á árið. Sér í lagi gætu þeir reynst mikilvægur hluti af ferðamannastraumnum á lokafjórðungi ársins og svo áfram á fyrsta þriðjungi næsta árs ef þeir halda áfram uppteknum hætti við vetrarferðir.

Í nýlegri þjóðhagsspá okkar er ein lykilforsendan sú að hingað komi 700 þúsund ferðamenn á yfirstandandi ári. Þar áætluðum við að Norðurlandabúar og fólk frá vesturhluta meginlands Evrópu (Þjóðverjar, Frakkar o.s.frv.) yrði einna fjölmennast í sumar en að breskir ferðamenn myndu sækja í sig veðrið þegar lengra liði á árið. Lengra gæti hins vegar verið í ferðamenn frá Bandaríkjunum og Kanada, og enn lengra í Asíubúa. Fréttirnar frá Bretlandi styrkja þessa skoðun okkar. Vonandi birta fleiri Evrópulönd, sem og Bandaríkin og Kanada, svipaðar áætlanir á komandi vikum og mánuðum þar sem minnkandi óvissa í þessum efnum er afar mikilvæg fyrir ferðaþjónustuna og í framhaldi af því fyrir hagkerfið allt.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband