Nýverið kynntu bresk stjórnvöld tímasetta áætlun um hvernig hömlum vegna sóttvarna verði aflétt í Englandi. Líklegt er að aðrir hlutar Bretlands, þ.a. Skotland, Wales og N-Írland, muni fylgja svipuðum takti þótt áætlunin hafi einungis tekið til Englands. Sá hluti áætlunarinnar sem líklega hefur mest áhrif á íslenskt efnahagslíf til skemmri tíma litið snýr að ferðalögum, en áætlað er að hömlur á ferðalög milli landa verði mildaðar talsvert um miðjan maí þótt um þá tímasetningu sé settur fyrirvari.
COVID-19 faraldurinn hefur verið í hraðri rénun í Bretlandi undanfarið og bólusetningar ganga óvíða betur. Í gær hafði ríflega fjórðungur Breta fengið a.m.k. eina bóluefnissprautu. Miklu lægra hlutfall landsmanna hefur þó verið fullbólusett, eða u.þ.b. 1%, enda fara Bretar þar allt aðra leið en flest önnur lönd þar sem bólusetning er á annað borð hafin af krafti. Til samanburðar hafa ríflega 3% Íslendinga verið fullbólusettir en u.þ.b. 5% landsmanna hafa fengið a.m.k. einn bóluefnisskammt.