Eftir tæplega 3% styrkingu krónu á árinu 2021 hélt gengi hennar áfram að hækka gagnvart körfu helstu gjaldmiðla á fyrstu 5 mánuðum þessa árs. Styrkingin frá janúarbyrjun til maíloka nam ríflega 7% að jafnaði. Frá júníbyrjun til septemberloka lækkaði gengi krónu hins vegar á nýjan leik um tæp 4%.
Fær krónan aftur vind í seglin?
Gengi krónunnar hefur gefið nokkuð eftir frá sumarbyrjun eftir talsverða styrkingu hennar frá ársbyrjun til maíloka. Dollar hefur hækkað verulega gagnvart krónu það sem af er ári en gengi evru og breska pundsins lækkað. Horfur um utanríkisviðskipti næstu fjórðunga eru tvísýnni en áður en viðskiptaafgangur er í kortunum þegar fram í sækir.
Gengisþróunin gagnvart helstu gjaldmiðlum hefur hins vegar verið býsna ólík enda miklar sveiflur verið á alþjóðlegum gjaldeyrismörkuðum og Bandaríkjadollar styrkst verulega gagnvart öðrum meginmyntum frá ársbyrjun. Þannig hefur dollarinn hækkað í verði gagnvart íslensku krónunni um 9% frá ársbyrjun. Aftur á móti hefur evran lækkað í verði um 5 krónur og enska pundið um 9 krónur á sama tíma.
Þessi þróun skiptir talsverðu máli fyrir samkeppnisstöðu innlendra aðila gagnvart ólíkum myntsvæðum. Til dæmis er Ísland í grófum dráttum álíka dýrt heim að sækja fyrir bandarískt ferðafólk og fyrir ári síðan (og raunar ódýrara ef miðað er við samræmda vísitölu neysluverðs) þar sem styrking dollarans vegur meira og minna upp þá verðbólgu sem orðin er hér á landi síðasta árið. Aftur á móti hafa verðbólga og innbyrðis gengisbreytingar gert landið talsvert dýrara fyrir ferðamenn frá Bretlandi og Evrusvæðinu.
Nýir áhrifaþættir
Gengisþróun krónu það sem af er ári er ekki hægt að skýra með ýmsum þeim undirliggjandi þáttum sem oft hafa ráðið miklu um þróun hennar síðustu ár. Til að mynda var viðskiptahalli 84 ma.kr. á fyrri helmingi ársins, flæði vegna skráðra nýfjárfestinga erlendra aðila oftast nýr fremur út úr landinu en hitt ef frá er talinn aprílmánuður og hrein gjaldeyriskaup lífeyrissjóða námu samtals 58 ma.kr. á fyrstu átta mánuðum ársins.
Hins vegar átti aukin stöðutaka með krónu í gegnum framvirka samninga líklega talsverðan þátt í styrkingunni frá ársbyrjun til maíloka þrátt fyrir talsverðan viðskiptahalla á tímabilinu. Þar með er stór hluti þeirrar styrkingar sem ella hefði fylgt gjaldeyrisinnflæði síðar á árinu líklega þegar kominn fram. Frá ársbyrjun til júníloka jókst hrein framvirk staða viðskiptabanka um tæplega 76 ma.kr. en alls nam slík staða 192 ma.kr. í lok júní. Framvirk gjaldeyrisstaða viðskiptabankanna endurspeglar andstæða stöðu viðskiptavina, sem í verulegum mæli gerðu framvirka samninga um sölu á gjaldeyri á tímabilinu. Eins og sést á myndinni hægði hins vegar mjög á vexti framvirku stöðunnar í júlí og ágúst en hún nam 197 ma.kr. í ágústlok.
Seðlabankinn studdi við krónuna í september
Seðlabankinn hefur dregið verulega úr inngripum á gjaldeyrismarkaði undanfarið en grípur þó til inngripa þegar tímabundið ójafnvægi verður á markaði, sér í lagi ef um flæði tengt fjárfestingum er að ræða. Slíkt ójafnvægi myndaðist einmitt í septembermánuði um það leyti sem íslenski hlutabréfamarkaðurinn var færður upp um flokk í markaðsvísitölum FTSE. Alls seldi Seðlabankinn 42 m.evra fyrir krónur á millibankamarkaði í mánuðinum og hefur gjaldeyrissala hans ekki verið meiri í einum mánuði frá mars 2021. Þrátt fyrir gjaldeyrissöluna í september hefur bankinn frá áramótum keypt 126 m. evra að frádreginni gjaldeyrissölu hans á fyrstu níu mánuðum ársins.
Líkur á styrkingu krónu þegar frá líður
Horfur um utanríkisviðskipti á næstunni hafa heldur dökknað undanfarna mánuði enda var viðskiptahalli mikill á fyrri helmingi ársins. Þá var vöruskiptahalli á þriðja ársfjórðungi 95 ma.kr. sem er talsvert meiri halli en við höfðum gert ráð fyrir. Á þessu ári er útlit fyrir að halli verði á viðskiptajöfnuði og horfur eru á minni viðskiptaafgangi á næsta ári en við væntum áður. Því er meðvindur með krónunni væntanlega ekki jafn sterkur á komandi fjórðungum og áður leit út fyrir. Þó er viðskiptaafgangur í kortunum þegar fram í sækir, vaxtamunur allnokkur, erlend staða þjóðarbúsins er sterk, vaxtarhorfur betri en gengur og gerist víða erlendis næsta kastið og verðbréfaeign erlendra aðila fremur lítil í sögulegu samhengi.
Á móti vegur meðal annars að erlendar fjárfestingar lífeyrissjóða verða væntanlega talsverðar næstu misserin. Þjóðhagslegum sparnaði umfram fjárfestingu er þannig í raun ráðstafað að stórum hluta til langtíma fjárfestingar í erlendum eignum.
Veruleg óvissa er ávallt um stærð og tímasetningu gengishreyfinga en spánni er gert ráð fyrir að krónan verði um það bil 6% sterkari í lok spátímans en hún var í lok ágúst 2022. Raungengið miðað við hlutfallslegt verðlag verður þá svipað og árin 2018-2019.