Það hefur hins vegar lítið upp á sig að bera saman vexti, sem eðli máls samkvæmt skila ávöxtun í framtíð, og verðbólgumælingu sem endurspeglar hækkun neysluverðs síðustu 12 mánuði. Fyrir fólk sem setur fjármuni í ávöxtun skiptir það fyrst og fremst máli hvort vextir halda í við hækkun verðlags á ávöxtunartímanum. Að sama skapi ræðst raunkostnaður við lántöku af því hvort vaxtakostnaðurinn er meiri eða minni en sem nemur hækkun verðlags á lánstímanum.
Þessi munur verður sérstaklega skýr þegar horfur eru á fremur hraðri hjöðnun verðbólgu eins og almennt er vænst ef horft er til flestra væntingamælikvarða, verðbólguálags á markaði og verðbólguspáa.
Tökum dæmi um þetta. Við spáum því að stýrivextir verði 6% fram á mitt næsta ár og lækki niður í 5,5% í árslok 2023. Stýrivextir verða samkvæmt því rúmlega 5,8% að jafnaði næstu 12 mánuði og ávöxtun rétt um 6% þegar tekið er tillit til vaxtavaxta. Verðbólguspá okkar fyrir næsta ár hljóðar upp á 4,8% verðbólgu yfir næsta ár, þ.e. ársverðbólguna í desember 2023. Á þann kvarða eru raunstýrivextir því ríflega 1%.
Verðtryggðir vextir hafa hækkað
Þeir raunvextir sem máli skipta fyrir almenning, fyrirtæki og hið opinbera eru nær alltaf fastir verðtryggðir vextir til nokkurra ára, hvort sem horft er á fjármögnunarkostnað eða ávöxtun af sparnaði. Þar hefur þróunin verið á svipaða lund og í raunstýrivöxtunum. Til að mynda var ávöxtunarkrafa verðtryggðra ríkisbréfa í lágmarki síðsumars 2020 og fór raunar undir núllið í sumum flokkum. Frá síðasta vori hefur ávöxtunarkrafa verðtryggðu ríkisbréfanna hins vegar stigið umtalsvert og er nú í kring um 1,9%. Eru verðtryggðir grunnvextir á þennan mælikvarða á svipuðum slóðum og um mitt ár 2018.