Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Eru raunstýrivextir neikvæðir?

Raunstýrivextir hafa hækkað talsvert frá miðju ári og eru nú jákvæðir á flesta mælikvarða sem máli skipta. Bæði hérlendis sem erlendis hafa verðtryggðir vextir hækkað undanfarið og eru hærri en þeir hafa verið um árabil. Þetta bendir til þess að aðhald peningastefnunnar sé líklega hæfilegt fyrir næstu fjórðunga þótt stýrivextir yrðu ekki hækkaðir frekar.


Því er stundum slegið fram í ræðu og riti þessa dagana að þrátt fyrir vaxtahækkun Seðlabankans séu raunvextir enn lágir og jafnvel neikvæðir. En er það svo? Í sem stystu máli veltur það á því hvaða mælistika er sett á raunvextina en almennt er svarið nei að okkar mati.

Þegar faraldurinn brast á af fullum þunga lækkaði Seðlabankinn stýrivexti hratt líkt og aðrir seðlabankar um víða veröld. Tilgangurinn var að keyra niður raunvexti og nýta þar með slaka peningastefnunnar til þess að milda efnahagshöggið af faraldrinum eins og kostur væri. Þetta gekk eftir og voru raunstýrivextir neikvæðir á alla mælikvarða samfellt frá 2. fjórðungi ársins 2020 og fram á yfirstandandi ár.

Með vaxandi verðbólgu og batnandi efnahag réðst Seðlabankinn í vaxtahækkunarferli í þeim tilgangi að koma böndum á verðbólgu og aftur horfði bankinn til raunvaxtanna í þessu skyni. Það reyndist þó hægara sagt en gert og voru raunstýrivextir neikvæðir á alla helstu mælikvarða fram yfir mitt þetta ár. Undanfarna mánuði hafa raunstýrivextirnir hins vegar hækkað umtalsvert á ýmsa mælikvarða og eru nú jákvæðir á þá flesta.

Eins og sjá má á myndinni skera tveir mælikvarðar sig nokkuð úr í mati á raunstýrivöxtum undanfarið, þ.e. raunvextir byggðir á verðbólguvæntingum almennings og á mældri verðbólgu. Þar þarf að hafa í huga að verðbólguvæntingar almennings hafa mikla fylgni við verðbólgu á hverjum tíma og gefa því takmarkaða vísbendingu um þá verðbólgu sem er í vændum.

Sá mælikvarði sem hvað oftast er vísað til, og gefur lægstu raunstýrivextina, er hins vegar sá sem minnsta þýðingu hefur en það er samanburður á stýrivöxtunum og mældri 12 mánaða verðbólgu. Verðbólga er nú 9,3% og er því ríflega 3% hærri en 6% stýrivextir Seðlabankans.

Vissulega hefur það áhrif á væntingar næsta kastið ef verðbólga er jafn mikil og verið hefur og eins hafa verðbólguvæntingar almennings áhrif á launakröfur, kauphegðun og sparnað heimila svo nokkuð sé nefnt.

Það hefur hins vegar lítið upp á sig að bera saman vexti, sem eðli máls samkvæmt skila ávöxtun í framtíð, og verðbólgumælingu sem endurspeglar hækkun neysluverðs síðustu 12 mánuði. Fyrir fólk sem setur fjármuni í ávöxtun skiptir það fyrst og fremst máli hvort vextir halda í við hækkun verðlags á ávöxtunartímanum. Að sama skapi ræðst raunkostnaður við lántöku af því hvort vaxtakostnaðurinn er meiri eða minni en sem nemur hækkun verðlags á lánstímanum.

Þessi munur verður sérstaklega skýr þegar horfur eru á fremur hraðri hjöðnun verðbólgu eins og almennt er vænst ef horft er til flestra væntingamælikvarða, verðbólguálags á markaði og verðbólguspáa.

Tökum dæmi um þetta. Við spáum því að stýrivextir verði 6% fram á mitt næsta ár og lækki niður í 5,5% í árslok 2023. Stýrivextir verða samkvæmt því rúmlega 5,8% að jafnaði næstu 12 mánuði og ávöxtun rétt um 6% þegar tekið er tillit til vaxtavaxta. Verðbólguspá okkar fyrir næsta ár hljóðar upp á 4,8% verðbólgu yfir næsta ár, þ.e. ársverðbólguna í desember 2023. Á þann kvarða eru raunstýrivextir því ríflega 1%.

Verðtryggðir vextir hafa hækkað

Þeir raunvextir sem máli skipta fyrir almenning, fyrirtæki og hið opinbera eru nær alltaf fastir verðtryggðir vextir til nokkurra ára, hvort sem horft er á fjármögnunarkostnað eða ávöxtun af sparnaði. Þar hefur þróunin verið á svipaða lund og í raunstýrivöxtunum. Til að mynda var ávöxtunarkrafa verðtryggðra ríkisbréfa í lágmarki síðsumars 2020 og fór raunar undir núllið í sumum flokkum. Frá síðasta vori hefur ávöxtunarkrafa verðtryggðu ríkisbréfanna hins vegar stigið umtalsvert og er nú í kring um 1,9%. Eru verðtryggðir grunnvextir á þennan mælikvarða á svipuðum slóðum og um mitt ár 2018.

Þessi þróun er ekki bundin við Ísland þótt verðtryggðir vextir leiki mun stærra hlutverk á íslenskum fjármagnsmarkaði en gengur og gerist erlendis. Eins og sjá má af myndinni er ávöxtunarkrafa bandarískra TIPS ríkisbréfa til að mynda á áþekkum slóðum og krafa íslensku RIKS bréfanna. Verðtryggð bréf breska og þýska ríkisins eru hins vegar flest á raunávöxtunarkröfu nærri núlli eftir tímabil neikvæðrar kröfu mestallan undanfarinn áratug. Lægra vaxtastig á verðtryggðum ríkisbéfum síðarnefndu ríkjanna endurspegla væntingar um lægri raunstýrivexti í viðkomandi löndum á komandi árum, sem svo aftur byggir á meiri svartsýni á efnahagshorfur þar en t.d. í Bandaríkjunum eða hér á landi.

Sem sagt, raunvextir í íslenska hagkerfinu hafa almennt hækkað talsvert á árinu 2022 og útlit er fyrir að þeir verði hærri á flesta ef ekki alla mælikvarða en þeir hafa verið síðustu ár. Peningalegt aðhald er því allnokkuð um þessar mundir og teljum við raunar að öðru óbreyttu líklegt að það muni duga til þess að koma á betra jafnvægi í hagkerfinu og beisla verðbólgu þegar frá líður án þess að Seðlabankinn þurfi að hækka stýrivexti meira en orðið er.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband