Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Erlendar eignir lífeyrissjóða aldrei meiri

Erlendar eignir samtryggingadeilda lífeyrissjóða nema nú tæpum þriðjungi heildareigna sjóðanna og hefur þetta hlutfall aldrei verið hærra.


Erlendar eignir samtryggingadeilda lífeyrissjóða nema nú tæpum þriðjungi heildareigna sjóðanna og hafa þetta hlutfall aldrei verið hærra. Heildareignir íslenskra lífeyrissjóða nema nú liðlega einni og hálfri landsframleiðslu og hafa þær aukist um ríflega 100 milljarða í mánuði hverjum það sem af er árinu 2019.

Samkvæmt nýbirtum tölum Seðlabankans námu heildareignir íslenskra lífeyrissóða 4.549 mö.kr. í lok mars síðastliðins. Þar af voru eignir samtryggingarsjóða 4.085 ma.kr. en eignir séreignarsjóða 460 ma.kr. Höfðu eignir sjóðanna aukist um 306 ma.kr. frá áramótum. Kúfurinn af þessari eignaaukningu (270 ma.kr.) varð í samtryggingarsjóðunum, en þeir sjóðir eru hryggjarstykkið í lífeyriskerfinu.

Vorar í eignasöfnum sjóðanna

Fjármálaeftirlitið sendi í kjölfarið út sundurliðun á fjárfestingum lífeyrissjóðanna á 1F og kemur þar fram að eignaaukningin  á fjórðungnum sé nánast jafn mikil og varð yfir allt árið 2018. Stærstur hluti hennar skýrist af erlendum fjárfestingum sjóðanna og hagstæðrar þróunar á erlendum mörkuðum. Þar verður þó að taka með í reikninginn að síðasti fjórðungur ársins 2018 var sjóðunum býsna mótdrægur hvað varðar snarpa verðlækkun á erlendum hlutabréfum og verðhækkunin í upphafi árs var að stórum hluta sú lækkun að ganga til baka.

Ef litið er til samtryggingarsjóða námu erlendar eignir þeirra 1.292 mö.kr. í lok fyrsta ársfjórðungs og hafði þá aukist um 190 ma.kr. frá áramótum. 32% af heildareignum sjóðanna var því erlendar eignir og hefur þetta hlutfall ekki áður verið jafn hátt. Til samanburðar var þetta hlutfall 25% fyrir 18 mánuðum síðan. Umfangsmikil eignakaup sjóðanna utan landsteinanna, veiking krónu undanfarið ár og hækkun á erlendum mörkuðum hefur allt lagt sitt af mörkum um þessa hækkun hlutfalls gjaldeyriseignanna.

Kostir og gallar við sjóðasöfnun í gjaldeyri

Mikið hefur verið rætt um þörf lífeyrissjóða á það auka hlutfall gjaldeyriseigna í söfnum sínum, enda hafa þeir löngum verið býsna umsvifamiklir á innlendum fjármagnsmörkuðum og sterk rök má færa fyrir því að dreifa fjárfestingaráhættu þeirra víðar en eingöngu um hið smá íslenska hagkerfi. Framangreindar tölur bera með sér að sjóðunum hafi orðið vel ágengt með hækkun þessa hlutfalls undanfarin misseri. Í Fjármálastöðugleika Seðlabankans kom fram að gjaldeyriskaup lífeyrissjóðanna hefðu numið 110 mö.kr. á árinu 2018 og tæpum 120 mö.kr. árið áður. Færa má fyrir því rök að þessi gjaldeyriskaup hafi haldið aftur af gengisstyrkingu krónu á fyrra árinu og stuðlað að veikingu krónu á því síðara en okkar skoðun að núverandi gengi sé mun heppilegra fyrir innri og ytri stöðuleika  hagkerfisins en sú sterka króna sem var við lýði fyrir réttum tveimur árum síðan.

Aukning erlendra eigna hefur þó einnig í för með sér ýmis vandamál. Eftir því sem hlutfall gjaldeyriseigna af heildareignum hækkar eykst að sama skapi gjaldeyrisáhætta lífeyrissjóðanna. Ef hluti verðandi lífeyrisþega hittir þannig á að eftirlaunaár þeirra falli að verulegu leyti á tímabil þar sem vel gengur í innlendu hagkerfi en miður annars staðar getur lífeyrir þeirra orðið rýrari en ella ef erlendu eignir viðkomandi lífeyrissjóðs hafa rýrnað í krónum talið vegna sterkrar krónu og ávöxtun erlendis á sama tíma verið léleg. Ekki er heldur svigrúm innan íslenska fjármálakerfisins til að verja þessa áhættu nema að hluta vegna stærðar sjóðanna í samanburði við innlenda fjármagnsmarkaði. Á þetta hefur m.a. hagfræðingurinn Gylfi Magnússon bent í ræðu og riti.

Íslenskt, best í heimi?

Íslenska lífeyriskerfið er eitt hið stöndugasta á alþjóðavísu, enda nema eignir sjóðanna samtals u.þ.b. 150% af áætlaðri landsframleiðslu þessa árs. Kerfið er helsti farvegur langtímasparnaðar landsmanna og undanfarin misseri hefur þeim sparnaði í talsverðum mæli verið ráðstafað til ávöxtunar erlendis. Áfram má ætla að svo verði á meðan kerfið fer stækkandi og innflæði í sjóðina að viðbættri ávöxtun vegur upp lífeyrisgreiðslur. Þó þarf að okkar mati ekki endilega að vera samasemmerki milli erlendra fjárfestinga sjóðanna og viðskiptaafgangs á komandi tíð. Innflæði vegna fjárfestinga erlendra aðila hérlendis getur hæglega brúað bilið þarna á milli svo lengi sem slíkt innflæði verður ekki nýtt til að viðhalda óeðlilega háu raungengi á kostnað utanríkisviðskipta um lengri tíma. Með öðrum orðum ætti gjaldeyrisflæði vegna lífeyrissjóðanna ekki að bjaga verulega innbyrðis lífskjör kynslóðanna, hvorki á kostnað þeirrar sem senn fer á eftirlaun eða hinnar sem er nú er á fyrri hluta starfsævi sinnar.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband