Erlend staða þjóðarbúsins sterk þrátt fyrir talsverðan viðskiptahalla

Viðskiptahalli var ríflega 64 ma.kr. á fyrri helmingi þessa árs. Lakari viðskiptajöfnuður en á sama tíma í fyrra skýrist að stórum hluta af lakara gengi ferðaþjónustu og auknum vöruskiptahalla. Erlend staða þjóðarbúsins er sterk þrátt fyrir lítils háttar bakslag á öðrum ársfjórðungi.


Viðskiptahalli á öðrum fjórðungi ársins var 30,5 ma.kr. samkvæmt nýbirtum tölum Seðlabankans. Nýlega birti Hagstofan tölur um vöru- og þjónustujöfnuð á tímabilinu og kom þar fram að vöruskiptahalli var ríflega 89 ma.kr. en afgangur af þjónustuviðskiptum við útlönd nam rúmum 67 ma.kr. á tímabilinu. Í tölum Seðlabankans bætast við jöfnuður frumþáttatekna, þar sem afgangur var ríflega 5 ma.kr. , sem og uppgjör á rekstrarframlögum milli landa og var halli á þeim tæplega 14 ma.kr.

Á sama tíma í fyrra var ríflega 6 ma.kr. afgangur af viðskiptajöfnuði og hefur því orðið verulegur viðsnúningur til hins verra á milli ára. Líkt og við fjölluðum um nýlega skrifast sú breyting að stórum hluta á lakari þjónustujöfnuð vegna minni ferðaþjónustutekna og aukinna þjónustu útgjalda, auk þess sem halli á vöruskiptum jókst nokkuð milli ára. Þar við bætist að verulega dró úr afgangi af frumþáttatekjum auk þess sem hrein rekstrarframlög út úr landinu jukust heldur milli ára.

Afkoma álvera litar þáttatekjur eins og fyrri daginn

Frumþáttatekjur eru samheiti yfir tekjur af vinnuframlagi og fjármagni. Jöfnuður frumþáttatekna er því einfaldlega uppgjör á launagreiðslum, vaxtagreiðslum og arði af hlutafé milli landa. Við höfum áður fjallað um samhengi afkomu álvera við útflutningstekjur og þáttatekjur. Hærra heimsmarkaðsverð á áli leiðir að öðru jöfnu til betri afkomu álveranna þriggja. Þar sem þau eru öll í erlendri eigu færist hagnaður af starfsemi þeirra gjaldamegin í þáttatekjubókhaldi Seðlabankans og tap kemur til hækkunar á heildarjöfnuðinum (raunar sem frádráttarliður á gjaldahliðinni sem kemur í sama stað niður). Á móti bókast vitaskuld auknar útflutningstekjur í vöruskiptajöfnuðinum.

Eins og sjá má af myndinni fylgjast þessar stærðir nokkuð vel að undanfarin ár. Það er því vitaskuld ekki svo að betri afkoma álveranna leiði til lakari ytri jafnaðar þjóðarbúsins þar sem hreinar útflutningstekjur af áli ættu að vega á móti betri afkomu til eigendanna og gott betur. Mismunurinn er sá virðisauki sem verður eftir hér á landi í formi tekna orkufyrirtækja af orkusölu, vinnulauna, þjónustukaupa og opinberra gjalda álveranna hér á landi.

Auknar vaxtatekjur af gjaldeyrisforða Seðlabankans

Gjaldeyrisforði Seðlabankans er ávaxtaður í öruggum skammtímaeignum á borð við erlenda ríkisvíxla og trygg innlán í erlendum bönkum. Þessar eignir hafa löngum skilað næsta litlum vaxtatekjum. Með hækkandi vaxtastigi erlendis hefur þó orðið breyting til batnaðar sem sjá má í tölunum nýju. Þannig skilaði gjaldeyrisforðinn 7,5 ma.kr. vaxtatekjum til Seðlabankans á örðum fjórðungi ársins og hafa þær tekjur ekki áður verið meiri í krónum talið. Á móti þarf bankinn hins vegar að greiða vexti bæði af þeim hluta forðans sem fjármagnaður er með gjaldeyrisinnstæðum í bankanum og eins þeim hluta sem er í raun fjármagnaður í krónum. Gjaldeyrisforði Seðlabankans nam jafnvirði 888 ma.kr. í lok júní á móti stóðu skuldir í erlendum gjaldmiðlum upp á samtals 350 ma.kr. Ríflega 60% forðans voru því fjármagnaðar í krónum en tæp 40% í gjaldeyri á þennan kvarða.

Ekki útlit fyrir viðskiptaafgang í ár

Á fyrri helmingi ársins var viðskiptahalli alls ríflega 64 ma.kr. Er það mun meiri halli en á sama tíma í fyrra (tæpir 9 ma.kr.). Allir helstu undirliðir viðskiptajafnaðarins hafa þróast til lakari vega á tímabilinu en mestu munar um 31 ma.kr. minni þjónustuafgang og 19 ma.kr. aukningu í vöruskiptahalla. Þótt þriðji fjórðungur eigi vísast eftir að skila allmyndarlegum afgangi vegna háannar ferðaþjónustu hafa horfur um viðskiptajöfnuð ársins dökknað nokkuð frá því við gáfum út þjóðhagsspá í maí síðastliðnum. Þar spáðum við viðskiptaafgangi upp á 45 ma.kr. (tæplega 1% af VLF) á árinu í heild. Sýnist okkur nú að í besta falli verði jafnvægi á utanríkisviðskiptum þetta árið en þess má geta að í nýlega birtum Peningamálum gerði Seðlabankinn ráð fyrir viðskiptahalla upp á 0,6% af VLF í ár. Utanríkisviðskipti verða því að öllum líkindum ekki lyftistöng fyrir gengi krónu í ár.

Hrein erlend staða versnar lítillega

Hreinar erlendar eignir þjóðarbúsins námu 1.705 ma.kr. um mitt ár eða sem svarar til 38,9% af áætlaðri VLF. Versnaði hreina staðan um 47 ma.kr. á öðrum fjórðungi ársins, að mestu vegna meiri minnkunar á erlendum eignum (132 ma.kr.) en skuldum (92 ma.kr.). Á móti vógu gengis- og verðbreytingar sem bættu erlendu stöðuna um 24 ma.kr. á tímabilinu.

Þrátt fyrir lítilsháttar bakslag í hreinu erlendu stöðunni er staðan býsna sterk ef horft er til sögunnar. Áratugina fyrir hrun höfðu erlendar skuldir þjóðarbúsins ávallt verið umtalsvert hærri en eignir þótt um þverbak keyrði á útrásartímanum. Fyrir um það bil áratug komst svo jafnvægi á erlendu stöðuna og undanfarin ár hafa erlendar eignir ávallt verið umtalsvert meiri en skuldir.

Ólík samsetning eigna og skulda skýrir svo að mestu þær sveiflur sem orðið hafa í hreinu stöðunni síðustu misserin. Þar er hrein eign í hlutabréfum og hlutdeildarskírteinum burðarásinn á eignahlið ásamt gjaldeyrisforða Seðlabankans á meðan vaxtaberandi skuldir eru talsvert meiri en eignir auk þess sem bein fjárfesting erlendra aðila hér á landi er nokkru meiri en sambærilegar fjárfestingar landsmanna erlendis. Við fjölluðum nýverið um þróun eigna lífeyrissjóðanna á fyrri helmingi ársins. Þar kom fram að á tímabilinu jukust erlendar eignir sjóðanna um 319 ma.kr. og að þá aukningu mætti að langstærstum hluta skrifa á eignakaup sjóðanna og hækkun á markaðsvirði slíkra eigna þar sem litlar breytingar höfðu orðið á gengi krónu á þessum tíma.

..en ytri staða þjóðarbúsins er enn sterk

Í ljósi þess að ekki er útlit fyrir viðskiptaafgang í ár munu utanríkisviðskipti tæplega leiða til aukningar á hreinum erlendum eignum þjóðarbúsins þetta árið. Á hinn bóginn gæti áframhaldandi meðvindur á erlendum mörkuðum bætt stöðuna frekar það sem eftir lifir árs. Í öllu falli bendir flest til þess að ytra jafnvægi þjóðarbúsins verði þokkalegt á komandi misserum og að sterk ytri staða hjálpi til við að viðhalda stöðugleika í gengi krónu og minnka hættu á skakkaföllum á gjaldeyrismarkaði vegna fjármagnsflótta eða tímabundins mótvinds í utanríkisviðskiptunum.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband