Líkt og sjá má á töflunni er talsverður munur á því hvernig varaseðlabankastjórarnir tveir greiða atkvæði síðustu árin. Hafa atkvæði Rannveigar Sigurðardóttur, varaseðlabankastjóra peningastefnu, ávallt fallið með tillögu Ásgeirs undanfarin þrjú ár. Gunnar Jakobsson, varaseðlabankastjóri fjármálastöðugleika, hefur hins vegar verið ósammála tillögunni í sex skipti af þeim sautján vaxtaákvörðunum sem tilkynntar hafa verið frá ársbyrjun 2021. Framan af lagðist hann fremur á sveif með Gylfa Zoega og var hlynntur meira peningalegu aðhaldi en raunin varð. Undanfarið ár hefur Gunnar hins vegar í þrígang greitt atkvæði gegn tillögu Ásgeirs og í öll skiptin kosið minna vaxtaaðhald en ákveðið var. Gunnar virðist þannig hafa fest sig í sessi sem svokölluð vaxtadúfa nefndarinnar upp á síðkastið.
Þá hafa utanaðkomandi meðlimir peningastefnunefndarinnar ávallt verið hlynntir meira aðhaldi ef þau hafa á annað borð verið annarrar skoðunar en seðlabankastjóri. Var það sér í lagi raunin í október síðastliðnum þar sem Herdís Steingrímsdóttir kaus gegn tillögu um óbreytta vexti og Ásgerður Pétursdóttir lét bóka að hún hefði, líkt og Herdís, fremur kosið að hækka vexti um 0,25 prósentur þótt hún greiddi atkvæði með tillögu um óbreytta vexti.
Í fundargerðinni koma þessi rök helst fram fyrir óbreyttum vöxtum í febrúar:
- Verðbólga væri enn mikil og verðbólguhorfur væru aðallega betri fyrir þetta ár en til lengri tíma hefðu þær einungis batnað lítillega.
- Töluverður kraftur væri enn á vinnumarkaði og gæti það leitt til meiri hækkunar launakostnaðar á framleidda einingu en ella.
- Veruleg óvissa væri um niðurstöður kjarasamninga.
- Aðgerðir stjórnvalda v. kjarasamninga og Grindavíkur sköpuðu óvissu um aðhald ríkisfjármála enda óljóst hvernig þær yrðu fjármagnaðar.
- Þótt hægt hefði á innlendum umsvifum væri samt sem áður hætta á að fyrirtæki myndu í einhverjum mæli fleyta kostnaðarhækkunum í kjölfar komandi kjarasamninga út í verðlag.
- Vaxandi umsvif virtust vera á húsnæðismarkaði á ný og húsnæðisverð hefði hækkað nokkuð undanfarið.
- Langtímaverðbólguvæntingar hefðu lítið breyst þrátt fyrir að hægt hefði á vexti innlendrar eftirspurnar og verðbólguhorfur batnað.
- Mikilvægt væri að ná verðbólguvæntingum niður til að tryggja að verðbólga komist í markmið.
- Í ljósi mikillar óvissu væri ekki öruggt að vaxtahækkunarferlinu væri lokið og þar sem enn væri spenna í þjóðarbúinu væri betra að halda vöxtum lengur háum heldur en að lækka þá of snemma.
Helstu rök fyrir lækkun vaxta voru hins vegar:
- Nýjustu gögn sýndu að aðhald peningastefnunnar hefði verið nægjanlegt undanfarið enda hefði dregið jafnt og þétt úr umsvifum í þjóðarbúskapnum.
- Nýleg þróun efnahagsmála, verðbólguhorfa og raunvaxta í sér vísbendingar um að komið væri að því að lækka vexti.
- Raunvextir Seðlabankans hefðu ekki verið hærri síðan 2012 og allt benti til að þeir myndu hækka töluvert til viðbótar á næstu mánuðum.
- Hætta væri á að raunvextir myndu því hækka meira en þörf væri á á sama tíma og hratt drægi úr vexti efnahagsumsvifa.
Hvað hefur gerst frá vaxtaákvörðuninni í febrúar?
Þótt stutt sé um liðið frá vaxtaákvörðuninni 7. febrúar hefur þó eitt og annað borið til tíðinda í millitíðinni:
- Nýjustu gögn, svo sem kortavelta, innflutningstölur og fjöldatölur frá Keflavíkurflugvelli fyrir janúarmánuð benda til áframhaldandi samdráttar einkaneyslu og heldur hægari vaxtar þjónustuútflutnings en vænst var.
- Væntingavísitala Gallup tók óvæntan fjörkipp í janúarmánuði og mældist yfir 100 stigum í fyrsta sinn í tæp 2 ár. Það gæti gefið til kynna að einkaneysla tæki við sér á komandi fjórðungum en talsvert flökt er þó á mánaðargildum vísitölunnar.
- Útgefnar verðbólguspár hljóða upp á allnokkra hjöðnun verðbólgu í febrúar. Við gerum ráð fyrir að VNV hækki um 0,8% í febrúar og að verðbólga hjaðni úr 6,7% í 6,1%.
- Hækkun íbúðaverðs á höfuðborgarsvæði í janúar (0,4% á milli mánaða) í nýbirtri mælingu HMS á vísitölu íbúðaverðs var í línu við væntingar okkar og spá um reiknaða húsaleigu í verðbólguspánni.