Kaupmáttur launa stóð í stað í maí á milli mánaða. Undanfarna 12 mánuði hefur kaupmátturinn aukist um 2,9% og hefur hægst nokkuð á kaupmáttarvextinum undanfarið af sömu ástæðu og nefnd er hér að ofan varðandi launavísitöluna, en einnig vegna þess að verðbólga hefur verið með mesta móti undanfarna mánuði og náði toppi í apríl síðastliðnum í 4,6%.
Þó hægst hafi á vexti kaupmáttar launa undanfarna tvo mánuði hefur vöxturinn reynst hraður að undanförnu og mældist mestur í febrúar síðastliðnum í 6,2%. Svo hraður hefur kaupmáttarvöxturinn ekki verið frá ársbyrjun 2017. Ástæða þessa kaupmáttarvaxtar er að stærstum hluta vegna Lífskjarasamninganna sem hafa, ásamt öðrum samningum sem fylgdu í kjölfarið, skilað stórum hluta vinnumarkaðar talsverðri hækkun launa frá vordögum 2019. Einnig hefur stytting vinnuvikunnar áhrif á mælinguna.
Raunlaun hækka þrátt fyrir niðursveiflu
Allsterk fylgni er á milli þróunar einkaneyslu og kaupmáttar launa til lengri tíma litið. Þó hefur sambandið þarna á milli stundum slitnað, til að mynda þegar hinn hraði einkaneysluvöxtur á góðærisárunum 2004-2007 átti sér stað. Hann var að stórum hluta fjármagnaður með aukinni skuldsetningu heimilanna frekar en vexti kaupmáttar. Að sama skapi skrapp einkaneysla mun meira saman en kaupmáttur launa eftir efnahagshrunið árið 2008 þegar mörg heimili voru að jafna sig á þeim harða skelli sem hrunið hafði í för með sér. Skuldsett einkaneysla líkt og við sáum hér fyrir efnahagshrunið hefur ekki verið vandamál hingað til heldur er þvert á móti eignastaða flestra heimila nokkuð traust. Það gæti reynst einhverjum heimilum sem orðið hafa fyrir atvinnumissi í Kórónukreppunni eða orðið fyrir tekjutapi í rekstri drjúgur styrkur um þessar mundir.