Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Eldsneytisverð hríðlækkar á heimsmarkaði

Verð á olíu og bensíni hefur lækkað verulega frá júníbyrjun. Smásöluverð á eldsneyti hækkaði um rúm 30% frá ársbyrjun til júlíloka. Möguleg lækkun eldsneytisverðs á komandi mánuðum gæti slegið á verðbólguþrýsting.á næstunni.


Verð á hráolíu og tengdum afurðum hefur lækkað skarpt síðustu vikur á heimsmarkaði eftir mikla hækkun á fyrri hluta ársins. Frá mánaðamótum hefur verð á Brent-hráolíutunnunni lækkað um nærri 12% og frá júníbyrjun er lækkunin ríflega 20%. Verðið á hráolíu er nú u.þ.b. 97 Bandaríkjadollarar á hverja tunnu og þar með svipað og það var rétt áður en innrás Rússa í Úkraínu leiddi til skarprar verðhækkunar í lok febrúar. Nýjasta lækkunarhrinan er að sögn erlendra miðla drifin af þremur þáttum:

  • Nýleg gögn frá Bandaríkjunum leiða í ljós rýmri birgðastöðu þar í landi en talið var.
  • Horfur um hagvöxt á heimsvísu hafa dökknað talsvert undanfarið og þar með hafa væntingar um vöxt spurnar eftir hráolíu og afleiddum afurðum minnkað.
  • OPEC+ verðsamráðshópurinn ákvað að bæta lítillega í framboð aðildarríkjanna

Þótt miklar sveiflur hafi verið í verði hráolíu hefur þó verð á ýmsum afurðum unnum úr henni sveiflast enn meira. Þetta á bæði við um bensín og dísilolíu sem hækkuðu gríðarlega í verði í vor þegar flöskuhálsar í framleiðslu á slíku eldsneyti bættust ofan á hækkandi aðfangakostnað. Má þar nefna að viðmiðunarverð á blýlausu bensíni á Evrópumarkaði hækkaði um nærri 60% frá miðjum febrúar fram til júníbyrjunar. Líkt og hráolíuverðið hefur verð á bensíni og dísil hins vegar lækkað skarpt frá miðjum júní og nemur lækkunin á ofangreindu bensíni rúmum þriðjungi í dollurum talið.

Íslendingar hafa ekki farið varhluta af framangreindum hækkunum á jarðefnaeldsneyti undanfarna mánuði. Það sem af er ári hefur smásöluverð á eldsneyti hækkað um rúm 30% samkvæmt verðmælingu Hagstofunnar. Hafa ber í huga að talsverður hluti eldsneytisverðs á íslenskum dælum endurspeglar opinber krónugjöld sem ekki breytast með hækkandi innkaupsverði. Á móti þarf að halda því til haga að frá áramótum til júlíloka hækkaði gengi Bandaríkjadollarans um tæp 4% gagnvart íslensku krónunni.

Spár sérfræðinga á hrávörumarkaði hljóða upp á nokkra lækkun hráolíuverðs á heimsmarkaði á komandi misserum frá því verði sem ríkti á fyrri helmingi þessa árs. Óvissa er vitaskuld mikil í þessum spám eftir örar sveiflur síðustu mánuði en þær styðja þó við væntingar okkar um að verð á eldsneyti muni á endanum verða lægra hér á landi en það hefur verið síðustu mánuðina.

Ef verð á hráolíu og tengdum afurðum hækkar ekki að ráði á nýjan leik, að ekki sé talað um ef það lækkar frekar, teljum við líklegt að eldsneytisverð til íslenskra neytenda lækki á endanum nokkuð. Eldsneytisverð í smásölu skýrði 1,2 prósentur af 9,9% verðbólgu í júlímánuði samkvæmt Hagstofunni og þar á ofan hefur eldsneytisverð áhrif á fjölmarga aðra undirliði vísitölu neysluverðs, allt frá flugfargjöldum til verðs á innfluttum matvælum. því gæti munað nokkru fyrir verðbólguhorfur á seinni helmingi ársins ef verðið lækkar að nýju nær því sem var áður en stríðið í Úkraínu braust út. Ekki veitir af, myndu ýmsir segja.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband