Í sviðsmyndagreiningunni gæti atvinnuleysi á árinu numið 5,7% - 7%. Í hruninu fór atvinnuleysi hæst í 7,7% árið 2010 en Seðlabankinn bindur miklar vonir við hlutastarfaleiðina svokölluðu, þar sem ríkið greiðir hluta launa fólks sem lækkar í starfshlutfalli.
Vissulega þarf að setja þann fyrirvara við sviðsmyndir af þessu tagi að óvissa hvað varðar framvindu efnahagsmála er óvenju mikil þessi dægrin og aðstæður breytast fljótt. Sviðsmyndirnar eru þó kærkomnar og má nálgast kynningu Þórarins á þeim hér. Enn stendur til að næsta hagspá bankans verði birt samhliða útgáfu Peningamála í maí.
150 milljarða króna heimild til kaupa ríkisbréfa
Á fundinum ræddi Ásgeir Jónsson, Seðlabankastjóri, auk þess um þá magnbundnu íhlutun sem bankinn hyggst ráðast í með kaupum á ríkisbréfum í íslenskum krónum. Heimild bankans til slíkra kaupa nemur 150 milljörðum króna eða um 5% landsframleiðslu. Áréttaði Ásgeir að nánari útfærsla kaupanna lægi ekki fyrir en unnið yrði með fjármálaráðuneyti og ríkisstjórn að slíku.
Markmið slíkrar íhlutunar er að koma í veg fyrir að langtíma ávöxtunarkrafa skuldabréfa hækki verulega samhliða þeirri útgáfu ríkissjóðs sem nauðsynleg er til að fjármagna viðbrögð við núverandi ástandi. Seðlabankinn hefur ekki nýtt þetta tæki hingað til en getur með beitingu þess haft áhrif á langtímakröfu, rétt eins og stýrivöxtum er ætlað að hafa áhrif á skammtímakröfu. Nefndi Ásgeir að með þessu hefði bankinn fengið nýtt stýritæki til langs tíma.