Árið 2021
Hagvöxtur glæddist á nýjan leik á árinu 2021 eftir 6,5% samdrátt landsframleiðslu á árinu 2020. Vaxtarskeiðið hófst á 2. ársfjórðungi og á heildina litið er talið að hagvöxtur á árinu hafi numið 4,1%.
Stærstan hluta vaxtarins má þakka umtalsverðri aukningu innlendrar eftirspurnar. Skýrist hún bæði af myndarlegum vexti einkaneyslu sem og af talsverðum vexti fjárfestingar fyrirtækja og hins opinbera. Nutu heimili og fyrirtæki þar meðal annars aðgerða Seðlabankans og stjórnvalda til þess að vega gegn afleiðingum faraldursins, batnandi atvinnuástands í mannaflsfrekum atvinnugreinum og trausts efnahags flestra aðila í einkageiranum í upphafi faraldurs.
Útlit er fyrir að einkaneysla hafi aukist um ríflega 5% á árinu 2021. Neyslan hefur í vaxandi mæli beinst út fyrir landsteinana og á það bæði við um utanlandsferðir og stærri neysluvörur á borð við bifreiðar. Heimilin hafa notið vaxandi kaupmáttar þrátt fyrir talsverða verðbólgu, minnkandi atvinnuleysis, hagstæðra vaxtakjara, hækkandi eignaverðs og uppsafnaðs sparnaðar svo nokkuð sé nefnt.
Þá eru horfur á að fjármunamyndun í hagkerfinu hafi á heildina vaxið um tæplega 12% á árinu. Þar munar mestu um aukna fjárfestingu atvinnuveganna en einnig hefur fjárfesting hins opinbera tekið jafnt og þétt við sér eftir því sem fjárfestingarátak stjórnvalda hefur komist á skrið. Íbúðafjárfesting skrapp hins vegar saman á árinu 2021.