Líklegt að hagvöxtur glæðist á seinni árshelmingi 2021
Á yfirstandandi ári er útlit fyrir nokkuð myndarlegan hagvöxt, eða 3,2%. Vöxturinn verður mun hraðari á seinni helmingi ársins en hinum fyrri enda mun endatafl faraldursins og endurreisn ferðaþjónustunnar ráða að miklu leyti för í hagþróuninni í ár. Útflutningsvöxtur skýrir hagvöxtinn að mestu ásamt hóflegum vexti í neyslu og fjárfestingu. Mikil óvissa er þó um þróun ferðamannastraums til landsins og gæti hagvöxtur hæglega sveiflast á bilinu 1% – 5% eftir því hvernig honum vindur fram.
Fjárfestingarátak hins opinbera skýrir að stórum hluta mikinn hlut opinberrar fjárfestingar í fjárfestingarvexti í ár. Þá eru horfur á að atvinnuvegafjárfesting taki að vaxa jafnt og þétt á seinni helmingi ársins. Íbúðafjárfesting skreppur aftur á móti saman og á minna framboð nýrra eigna ásamt stöðugri eftirspurn drjúgan þátt í því að íbúðaverð mun væntanlega hækka allnokkuð á árinu.
Atvinnuleysi verður líklega verulegt fram undir mitt ár en með afturbata í ferðaþjónustu og auknum umsvifum í mannvirkjagerð, ásamt vaxandi spurn eftir innlendri þjónustu og vörum, mun atvinnuástandið væntanlega batna umtalsvert á síðari árshelmingi. Batnandi staða á vinnumarkaði ásamt vaxandi kaupmætti þorra almennings mun styðja við einkaneysluvöxt þegar frá líður.
Gengisþróun krónu mun að miklu leyti litast af þróun gjaldeyristekna ferðaþjónustunnar. Líklegt er að gengi krónu eigi nokkuð undir högg að sækja framan af ári en vaxandi líkur eru á styrkingu krónu eftir því sem lengra líður á árið. Krónan ræður svo einna mestu um verðbólguþróunina sem verður líklega spegilmynd af þróun síðasta árs. Verðbólga verður við 4,0% þolmörk Seðlabankans á fyrstu mánuðum ársins en hjaðnar hratt í kjölfarið og mun líklega ná verðbólgumarkmiði Seðlabankans fyrir árslok. Þá eru horfur á að stýrivextir Seðlabankans verði í lágmarki út árið og langtímavextir með því lægsta sem sést hefur hérlendis.
Gangi COVID-faraldurinn niður fyrir komandi vetur eru góðar líkur á að árið marki endalok Kórónukreppunnar og að vaxtarskeið verði hafið áður en það er úti. Traustur efnahagur heimila, fyrirtækja og hins opinbera, bæði í sögulegu tilliti sem í alþjóðlegum samanburði, þegar kreppan skall á hefur þar sitt að segja ásamt farsælum hagstjórnarviðbrögðum eftir að faraldurinn fór að geisa.