Seðlabankinn tilkynnti nýverið að lífeyrissjóðirnir hefðu, í samráði við bankann, ákveðið að framlengja hlé á erlendum fjárfestingum fram til 17. september næstkomandi. Upphaflega hléið gekk í gildi um miðjan mars og átti því að ljúka í þessari viku. Að mati Seðlabankans hefur þetta hlé stuðlað að þjóðhagslegum stöðugleika frá því COVID-faraldurinn skall á, væntanlega með þeim hætti að draga úr þrýstingi til gengisveikingar á sama tíma og gjaldeyrisinnflæði vegna ferðaþjónustu þurrkaðist upp að mestu leyti og gjaldeyrisútflæði tengt fjármagnsjöfnuði var verulegt.
Dempa lífeyrissjóðirnir gengissveiflur?
Hlé lífeyrissjóða á erlendum fjárfestingum hefur líklega minnkað veikingarþrýsting á krónuna frá því COVID-faraldurinn skall á. Best fer þó á því að sjóðirnir taki aftur til við óheft erlend eignakaup fyrr en seinna enda bendir margt til þess að slík kaup dragi úr gengissveiflum til skemmri sem lengri tíma.
Eins og sjá má af myndinni hafa skammtímasveiflur á gjaldeyrismarkaði verið talsverðar á tilteknum tímabilum frá því faraldurinn lamaði ferðaþjónustu á heimsvísu að mestu leyti ásamt því að draga umtalsvert úr ýmissi annarri efnahagsstarfsemi. Seðlabankinn sá sig þannig knúinn til að grípa inn í gjaldeyrismarkaðinn 10 daga í mars og apríl og selja samtals 114 m. evra í því skyni að koma í veg fyrir spíralmyndun á markaði og hægja á veikingu krónu til skemmri tíma. Líklegt er að krónan hefði veikst talsvert meira á þessu tímabili ef ekki hefði komið til þessara inngripa.
Það eru þó fleiri hliðar á þessu fjárfestingahléi lífeyrissjóðanna og áhrifum þess á gjaldeyrismarkað. Þannig hefur Seðlabankinn gripið inn í markað í fjóra daga frá maíbyrjun en í þrjú skipti á því tímabili fólst inngripið í kaupum á gjaldeyri í þeim tilgangi að stemma stigu við hraðri styrkingu krónu. Lífeyrissjóðirnir hafa undanfarin misseri gegnt hlutverki eins konar þrýstijafnara á gjaldeyrismarkaði með þeim hætti að þegar gjaldeyrisinnflæði hefur tímabundið verið óvenju mikið hafa þeir oft og tíðum tekið við því innflæði og ráðstafað því til erlendra eignakaupa. Nú þegar þeirra nýtur ekki við hvað þetta varðar eru líklega fáir gjaldeyriskaupendur sem geta brugðist við með sambærilegum hætti. Því lenti Seðlabankinn í þeirri undarlegu stöðu í vor að þurfa að ráðast í talsverð gjaldeyriskaup örfáum vikum eftir stórfellda gjaldeyrissölu en bankinn keypti alls 42 m. evra í síðustu viku maímánaðar og fyrstu viku júní.
Af nógu að taka?
Frá upphafi COVID-faraldursins nemur hrein sala Seðlabankans úr gjaldeyrisforða sínum ríflega 80 m. evra, eða jafnvirði tæplega 13 ma.kr. miðað við núverandi gengi evru. Þar er þó af nógu að taka enda nemur gjaldeyrisforðinn um þessar mundir tæplega 6 mö. evra. Eins og sjá má af myndinni eru gjaldeyrisviðskipti Seðlabankans þetta árið fremur hófleg í samanburði við gífurleg gjaldeyriskaup hans þegar hæst hóaði í vexti ferðaþjónustunnar um og eftir miðjan síðasta áratug og koma þeir digru sjóðir sem þá var safnað sér vel um þessar mundir. Bæði auka þeir trú á því að hætta á gjaldeyriskreppu hérlendis sé eftir sem áður hverfandi þrátt fyrir tímabundið bakslag í útflutningi og eins getur bankinn áhyggjulítið ráðstafað talsverðum fjárhæðum úr forðanum án þess að sjái mikið á honum.
Það fer þó ekki hjá því að umsvif bankans á grunnum gjaldeyrismarkaði síðustu mánuðina ásamt samkomulaginu við lífeyrissjóðina um fjárfestingarhlé veki upp minningar af haftatímanum hinum seinni framan af síðasta áratug, þegar almenna reglan var að þau gjaldeyrisviðskipti sem ekki voru sérstaklega leyfð voru bönnuð og Seðlabankinn réði í raun lögum og lofum á gjaldeyrismarkaði. Vonandi og væntanlega verður þó ekki gripið til beinna hafta á nýjan leik, enda eru ágætar líkur á að utanríkisviðskipti verði fljótlega hagfelldari á nýjan leik og lífeyrissjóðirnir fá þá úr meiri gjaldeyri að moða til erlendrar eignaaukningar.
Áfram verður sparað utan landsteinanna
Íslensk heimili spara að langmestu leyti með tvennum hætti á meðan heimilismenn eru virkir á vinnumarkaði, þ.e. annars vegar með því að kaupa fasteign og auka eigið fé í henni jafnt og þétt og hins vegar með lífeyrissparnaði. Stóraukinn þjóðhagslegur sparnaður hefur þannig endurspeglast að verulegu leyti í örum vexti lífeyriskerfisins. Heildareignir sjóðanna námu í apríllok 5.173 mö.kr. sem samsvarar u.þ.b. 174% af vergri landsframleiðslu (VLF) síðasta árs en þetta hlutfall var tæplega 120% í árslok 2010.
Hlutfallsleg stærð sjóðanna miðað við íslenskt hagkerfi og fjármálamarkaði ásamt eðlilegum sjónarmiðum um áhættudreifingu ýtir undir vilja þeirra og þörf fyrir að fjárfesta umtalsverðum hluta eigna sinna utan landsteinanna. Slík erlend eignakaup hafa verið mikil undanfarin ár og hefur hlutfall erlendra eigna sjóðanna af heildareignum aukist jafnt og þétt þrátt fyrir að heildareignirnar sjálfar hafi vaxið hratt. Alls voru erlendar eignir 32% af heildareignum íslenskra lífeyrissjóða í apríllok 2020 en til samanburðar var þetta hlutfall tæplega 22% í sama mánuði árið 2017.
Erlendar eignir lífeyriskerfisins eru að langstærstum hluta í hlutabréfum og hlutdeildarskírteinum í hlutabréfasjóðum. Fróðlegt er að sjá hvernig hrein eign þjóðarbúsins í framangreindum eignaflokkum hefur þróast í samhengi við batnandi erlenda stöðu þjóðarbúsins. Eins og sjá má af myndinni hefur batinn á erlendri stöðu þjóðarbúsins að langmestu leyti endurspeglast í þróun þessa eignaflokks á meðan minni breytingar hafa orðið á hreinni stöðu annarra helstu eignaflokka. Því má segja að lífeyrissjóðakerfið hafi að stórum hluta séð um að ráðstafa batnandi erlendri stöðu landsins í erlenda hlutabréfaeign.
Lífeyrissjóðir dempa gengissveiflur
Erlendar eignir lífeyrissjóðanna námu alls 1.657 milljörðum króna í lok apríl síðastliðins. Það samsvarar u.þ.b. 56% af VLF síðasta árs. Þrátt fyrir að erlendir markaðir væru sjóðunum býsna mótdrægir á fyrstu vikum COVID-faraldursins hafa þeir braggast að nýju undanfarið. Þá hefur veiking krónunnar um ríflega 13% frá ársbyrjun til aprílloka vitaskuld hækkað virði erlendu eignanna í krónum talið. Áfram má telja líklegt að erlendar eignir sjóðanna vaxi umtalsvert svo lengi sem innflæði í þá er meira en sem nemur lífeyrisgreiðslum. Þessi erlenda eignasöfnun mun þá á ný halda aftur af styrkingu krónu þegar utanríkisviðskipti fara í fyllingu tímans að skila afgangi á nýjan leik líkt og við spáum.
Þótt Seðlabankinn og sjóðirnir hafi gert með sér heiðurssamkomulag rétt á meðan óvissan um skammtímahorfur ferðaþjónustunnar er sem mest fer að sjálfsögðu best á því þegar frá líður að hinir síðarnefndu sjái að eigin frumkvæði um það sveiflujöfnunarhlutverk varðandi gengi krónu sem þeir hafa að mati okkar gegnt með ágætum síðustu árin.