Brokkgeng ársbyrjun í utanríkisviðskiptum

Vöruskiptahalli á fyrsta fjórðungi ársins var umtalsvert meiri en á sama tíma í fyrra, ekki síst vegna mikils innflutnings á fjárfestingarvörum. Á sama tíma fækkaði ferðamönnum hingað til lands nokkuð. Umtalsverður halli á utanríkisviðskiptum undanfarið hefur trúlega verið fjármagnaður að stórum hluta af fjárfestingum erlendra aðila innanlands enda hefur gengi krónu verið tiltölulega stöðugt.


Vöruskiptahalli í mars nam tæplega 39 ma.kr. samkvæmt nýlega birtum tölum Hagstofunnar. Var það heldur minni halli en í febrúar en þó í meira lagi miðað við undanfarin misseri að jafnaði. Minni innflutningur, sér í lagi á fjárfestingarvörum, skýrir heldur hóflegri halla í mars en í febrúar á meðan litlar breytingar urðu útflutningsmegin milli mánaða.

Á fyrsta fjórðungi ársins nam vöruskiptahalli 101 ma.kr. samanborið við 69 ma.kr. á sama tímabili fyrir ári. Myndarlegur vöxtur varð raunar á útflutningshliðinni milli ára, eða sem nemur 15% reiknað á sama gengi krónu. 23% vöxtur vöruinnflutnings á sama tíma vó þó upp þá aukningu og gott betur. Innflutningsmegin munar mestu um stóraukinn innflutning á fjárfestingarvörum en leiðrétt fyrir gengisbreytingum krónu óx slíkur innflutningur um 63% á milli ára. Þótt ekki liggi fyrir af hvaða tagi þessar fjárfestingarvörur voru þykir okkur líklegt að þær hafi að stórum hluta verið tengdar útflutningsgreinum, til að mynda uppbyggingu á gagnaverum. Sé það raunin ættu öðru jöfnu minni gjaldeyriskaup að fylgja þeim innflutningi auk þess sem þær koma þá til með að skapa útflutningstekjur þegar frá líður. Slíkur innflutningsvöxtur er því síður áhyggjuefni en t.d. mikill vöxtur á innflutningi neysluvara.

Á útflutningshliðinni var myndarlegur vöxtur í útflutningi iðnaðarvara, bæði áls (30%) sem og lyfja og lækningatækja (60%). Álverð var töluvert hærra að jafnaði á fjórðungnum en á sama tíma í fyrra en verðið hefur raunar fallið allskarpt frá aprílbyrjun eftir sviptingar tengdar tollaáformum stjórnvalda í Bandaríkjunum. Hvað vöxtinn í síðarnefnda vöruflokknum varðar tengist hann væntanlega auknum umsvifum stórra útflutningsfyrirtækja í þessum geira sem flokka má sem hluta af hugverkaiðnaði hér á landi, en við höfum áður fjallað um þá skoðun okkar að sá geiri muni leggja drjúgt til útflutningsvaxtar á næstunni.

Gefur á bátinn hjá ferðaþjónustunni

Fyrsti fjórðungur var slakari hjá ferðaþjónustunni en vonir stóðu til. Samkvæmt nýlega birtum tölum Ferðamálastofu voru erlendir farþegar um brottfararsvæði Keflavíkurflugvallar 148 þúsund í marsmánuði. Jafngildir það tæplega 14% fækkun á milli ára. Þar þarf raunar að hafa í huga að páskar eru í miðjum aprílmánuði þetta árið en voru um mánaðarmótin mars-apríl í fyrra. Það kann þó að vera skammgóður vermir þegar það er haft í huga að ferðamenn voru talsvert fleiri hér á landi í mars bæði árin 2017 og 2019 þegar páskar voru seint á ferð líkt og nú.

Líkt og fyrri daginn voru Bandaríkjamenn fjölmennastir þjóða meðal erlendra gesta á landinu í mars, eða 23% af heildarfjöldanum. Þar á eftir komu Bretar (13%), Þjóðverjar (9%), Kínverjar (6%) og Frakkar (5%). Norðurlandabúar voru samtals 4% þeirra sem hingað komu. Hlutfall Breta hefur farið hríðlækkandi í vetrarferðum hingað til lands undanfarin ár en hlutur Bandaríkjanna og Asíubúa aukist.

Fækkun Breta þennan veturinn frá sama tíma í fyrra er verulegt áhyggjuefni. Á fyrsta fjórðungi ársins komu 29% færri Bretar í heimsókn hingað til lands samkvæmt framangreindum tölum en á sama tíma í fyrra. Flestir urðu breskir ferðamenn á fyrsta fjórðungi ársins 124 þúsund árið 2017 samanborið við 80 þúsund nú í ár.

Raunar þarf að taka gögnum úr brottfarartalningunni með talsverðum fyrirvara líkt og fréttavefurinn ff7 hefur ítrekað bent á. Stóra myndin rímar þó vel við nýleg ummæli lykilfólks í greininni í Morgunblaðinu. Þar er kallað eftir aukinni markaðssetningu á íslenskum vetrarferðum þar sem landið virðist vera að fara halloka í samkeppni við önnur Norðurlönd um upplifunarferðir á norðurslóðir, ekki síst hvað varðar ferðafólk frá Bretlandi.

Samantekið komu 416 þúsund ferðamenn hingað til lands á fyrsta fjórðungi ársins á þennan mælikvarða. Að faraldursárunum 2020-2022 undanskildum hafa ferðamenn á þessu tímabili ekki verið færri frá árinu 2016. Fjölgun Bandaríkjamanna er vissulega kærkomin en gæti gert greinina útsettari en ella fyrir neikvæðum áhrifum á ferðavilja þarlendra af tollastríði Trump-stjórnarinnar á komandi fjórðungum.

Líklega talsverður halli á utanríkisviðskiptum í ársbyrjun

Ferðamannatölurnar vita ekki á sérlega gott varðandi þjónustujöfnuð á fjórðungnum. Þar hjálpar heldur ekki til að utanlandsferðum Íslendinga fjölgaði um ríflega 13% á fyrsta ársfjórðungi frá sama tíma í fyrra þrátt fyrir fyrrnefnda mismunandi tímasetningu páskanna á árunum tveimur. Á upphafsfjórðungi síðasta árs var afgangur af þjónustuviðskiptum við útlönd ríflega 18 ma.kr. Lausleg áætlun okkar með tilliti til ofangreindrar þróunar bendir til þess að þjónustuafgangurinn reynist helmingi minni á fyrsta fjórðungi þessa árs.

Með hliðsjón af ofangreindum vöruskiptahalla á fjórðungnum gæti því látið nærri að samanlagður halli á vöru- og þjónustujöfnuði hafi verið af svipaðri stærðargráðu og á lokafjórðungi síðasta árs þegar hann nam tæpum 70 ma.kr.

Í ljósi verulegs halla á utanríkisviðskiptum frá ársbyrjun vekur athygli hversu stöðug krónan hefur verið það sem af er ári. Það skýrist að okkar mati einna helst af þremur áhrifaþáttum:

  • Í fyrsta lagi er líklegt að talsverður hluti af þeim mikla innflutningi á fjárfestingarvörum sem einkennt hefur undanfarinn vetur sé fjármagnaður af erlendum aðilum og hafi því ekki leitt til samsvarandi gjaldeyriskaupa á hérlendum gjaldeyrismarkaði.
  • Dregið hefur verulega úr gjaldeyriskaupum lífeyrissjóða það sem af er ári. Í nýlega útgefnu riti Seðlabankans, Fjármálastöðugleika, kemur til að mynda fram að sjóðirnir keyptu einungis gjaldeyri sem nam 2,7 ma.kr. á fyrstu tveimur mánuðum ársins samanborið við 7 ma.kr. meðalkaup á gjaldeyri í mánuði hverjum árin tvö þar á undan. Þar bendir bankinn á að uppgjör vegna kaupa JBT á Marel hafi leitt til ríflegrar greiðslu til lífeyrissjóðanna í hlutabréfum og erlendum gjaldeyri.
  • Þá hefur innflæði tengt fjármagnsjöfnuði verið umtalsvert. Í Fjármálastöðugleika kemur til að mynda fram að eign erlendra aðila í ríkisbréfum jókst um tæpa 7 ma.kr. á fyrstu tveimur mánuðum ársins. Raun kom fram í nýlega birtu mánaðaryfirliti Lánamála að slíkir aðilar minnkuðu hreina ríkisbréfastöðu sína um 2 ma.kr. í mars auk þess sem ríkisvíxlaeign þeirra minnkaði um 2,3 ma.kr. á sama tíma. Samtals nam eign erlendra aðila í ríkisbréfum og -víxlum tæpum 112 ma.kr. um síðustu mánaðamót.

Með öðrum orðum hefur viðskiptahallinn undanfarið verið fjármagnaður að verulegum hluta með beinni og óbeinni fjárfestingu erlendra aðila inn í landið á sama tíma og útflæði um fjármagnsjöfnuðinn vegna fjárfestinga innlendra aðila erlendis hefur verið með minnsta móti.

Við spáðum því í janúarlok að utanríkisviðskipti í ár yrðu nokkurn veginn í jafnvægi eftir talsverðan viðskiptahalla á síðasta ári. Síðan þá hafa horfurnar um útflutning þetta árið dökknað nokkuð, nú síðast vegna mögulegra áhrifa af tollastríðinu sem stjórnvöld í Bandaríkjunum hafa bætt í á undanförnum vikum. Þá hefur innflutningur fjárfestingarvara verið þróttmeiri það sem af er ári og vísbendingar um einkaneyslu benda til vaxtar á þeim bænum, sem kallar á talsverðan innflutning neysluvara. Þótt innflutningur gæti látið eitthvað undan síga ef áhrif af tollastríðinu teygja sig yfir í eftirspurn hér sem erlendis eru því vaxandi líkur á að viðskiptahalli reynist einnig allnokkur þetta árið. Það fer svo eftir vilja innlendra og erlendra aðila til að fjármagna hallann með lántökum og fjárfestingum inn í landið hvort hallinn segir til sín í veikari krónu þegar líður á árið.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Senda tölvupóst