Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Blikur á lofti í ferðaþjónustu

Háönn ferðaþjónustunnar lítur út fyrir að verða talsvert lakari en við væntum í vor. Líklegra er að ferðamenn í ár verði eitthvað færri en í fyrra fremur en þeim fjölgi milli ára. Það gæti leitt til minni hagvaxtar, minnkað líkur á styrkingu krónu, hraðað kólnun hagkerfisins og dregið úr spennu á vinnu- og íbúðamarkaði fyrr en áður var talið.


Erlendum farþegum um Keflavíkurflugvöll fækkaði um 9% milli ára í júní. Alls fóru ríflega 212 þúsund farþegar með erlent ríkisfang um flugvöllinn í mánuðinum. Nærri 4 af hverjum 10 í þessum hópi voru frá Bandaríkjunum en þó fækkaði þarlendum gestum um tæpan fimmtung á milli ára. Í næstu sætum voru Þjóðverjar (6,9% heildarfjölda), Bretar (4,6%), Pólverjar (4,4%) og Kanadamenn (4,2%).

Syrtir í álinn eftir ágætist byrjun

Frá áramótum hafa 963 þúsund erlendir farþegar farið um Keflavíkurflugvöll, sem jafngildir 1% fjölgun milli ára. Árið fór allvel af stað í ferðaþjónustunni þrátt fyrir gosóróa á Reykjanesi og fjölgaði ferðafólki á fyrsta fjórðungi ársins um tæp 9% frá sama tíma í fyrra. Á öðrum fjórðungi fór svo að síga á ógæfuhliðina og fækkaði heimsóknum ferðafólks um 5% frá sama tímabili 2023. Ferðamenn í júní voru einnig umtalsvert færri en Greining hafði spáð í nýlegri þjóðhagsspá sem birtist í maí síðastliðnum.

Horfur fyrir háönn og þar með ferðaþjónustuárið í heild eru lakari en spáð var í maí. Ef marka má nýleg ummæli ýmissa forkólfa ferðaþjónustunnar í fjölmiðlum gefur júnímánuður líklega tóninn fyrir sumarið í heild. Við spáðum því í maí síðastliðnum að ferðamönnum til landsins myndi fjölga um ríflega 4% í ár frá síðasta ári og að brottfarir þeirra um Keflavíkurflugvöll yrðu álíka margar og metárið 2018. Þótt ekki sé langt um liðið frá því spáin kom út eru undanfarið vaxandi vísbendingar um að ferðamönnum til landsins muni ekki fjölga þetta árið og einhver fækkun milli ára virðist raunar nokkuð líkleg.

Við bætist að margt bendir til þess að dvalartími ferðamanna sé að styttast og tekjur af hverjum þeirra að dragast saman að raunvirði. Á fyrstu fimm mánuðum ársins fækkaði gistinóttum útlendinga á skráðum gististöðum um rúm 5% á sama tíma og ferðafólki til landsins um Keflavíkurflugvöll fjölgaði um 3,5%. Hér þarf þó að hafa í huga að óskráð gisting er auðvitað einnig einhver hluti heildar gistimarkaðar auk þess sem farþegum með svokölluðum leiðangursskipum, þar sem flogið er til landsins, stigið hér á skipsfjöl og gist á skipunum meðan á dvöl þeirra stendur, er líklega að fjölga allnokkuð milli ára.

Við, líkt og aðrir greinendur, höfum löngum horft til kortaveltu erlendra korta sem vísbendingu um þróun á útgjöldum ferðafólks hér á landi. Þau gögn eru hins vegar því marki brennd að undanfarin misseri hafa ýmsir innlendir seljendur vöru og þjónustu verið að færa sig frá innlendum færsluhirðum til erlendra. Þau gögn gefa því líklega villandi mynd af tekjuþróun í ferðaþjónustunni. Gögn á borð við gistinætur og veltu samkvæmt virðisaukaskattskýrslum í einkennandi greinum ferðaþjónustu eru þess vegna heppilegri til greiningar á þróun innan ferðaþjónustunnar þessa dagana.

Nýjustu gögn um veltu samkvæmt VSK-skýrslum ná yfir skattatímabilið mars-apríl. Samkvæmt þeim var velta í einkennandi greinum ferðaþjónustu tæpir 30 ma.kr. á tímabilinu og jókst að nafnvirði um tæp 7% milli ára. Sé veltan hins vegar raunvirt með vísitölu neysluverðs stóð hún nánast saman að raunvirði frá sama tíma í fyrra. Rímar það allvel við aðrar framangreindar vísbendingar um minnkandi meðvind í greininni.

Hverju breyta minni ferðamannatekjur fyrir hagkerfið?

Minni tekjur ferðaþjónustunnar en vænst var, hvort sem er vegna færri ferðamanna, minni tekna af hverjum og einum þeirra eða blöndu beggja, breyta myndinni af efnahagsþróun ársins allnokkuð. Breyttar horfur hafa til dæmis áhrif á horfur um vöxt útflutnings, hagvöxt, viðskiptajöfnuð, gengi krónu, fjölda starfa á vinnumarkaði og íbúðamarkað í ár svo nokkuð sé nefnt.

Til að freista þess að slá mati á þessi áhrif notuðum við nýlega uppfærða spá Ferðamálastofu um fjölda ferðafólks og bárum saman við forsendu okkar frá maíspánni. Miðað við spá Ferðamálastofu fækkar ferðamönnum í ár um 2% frá í fyrra, en spáin okkar gerði hins vegar ráð fyrir ríflega 4% fjölgun. Við tókum einnig tillit til þátta á borð við það að meiri gangur virðist vera í sölu flugfargjalda vegna millilendingafarþega en vænst var sem og að farþegum með skemmtiferðaskipum fjölgar líklega milli ára. Á móti virðast tekjur af hverjum ferðamanni að jafnaði vera heldur að minnka. Rétt er að halda til haga að greiningin í líkani okkar var skemmri skírn og einfölduð verulega frá þjóðhagsspárgerðinni í vor. Hún gefur því fyrst og fremst grófa mynd af umfangi áhrifanna á hinar ýmsu efnahagsstærðir.

Helstu breytingar á efnahagshorfum í ár miðað við ofangreindar forsendur í samanburði við spá okkar í maí:

  • Þjónustuútflutningur stendur í stað í ár en í maíspánni var gert ráð fyrir ríflega 4% vexti í magni mælt. Samdráttur í ferðaþjónustu vegur þannig upp vöxt í öðrum þjónustuútflutningi.
  • Það verður til þess að viðskiptaafgangur verður helmingi minni en ella, eða 0,5% í stað 1,0% í maíspánni.
  • Minni viðskiptaafgangur leiðir að öðru óbreyttu til heldur veikari krónu en ella. Breytingin er þó ekki meiri en svo að aðrir áhrifavaldar á gjaldeyrismarkaði gætu hæglega vegið hana upp að miklu eða öllu leyti.
  • Innlend eftirspurn verður heldur minni en ella væri. Áhrifin á einkaneyslu og fjárfestingu verða þó líklega hófleg.
  • Hagvöxtur verður minni en ella. Að teknu tilliti til þess að minni innflutningur vegur að hluta á móti hægari vexti útflutnings og eftirspurnar skilar líkan okkar þeirri niðurstöðu að hagvöxtur í ár verði 0,4% en í maí spáðum við 0,9% hagvexti í ár.
  • Færri störf verða í boði á seinni helmingi ársins en ella. Fjöldi starfa í einkennandi greinum ferðaþjónustu hefur haldist í hendur við ferðamannafjölda eins og vænta má af mannaflsfrekri þjónustugrein. Í fyrra störfuðu ríflega 20 þúsund manns í greininni samkvæmt gögnum Hagstofunnar og ríflega 2,2 milljónir ferðamanna heimsóttu landið um Keflavíkurflugvöll. Það má því gera ráð fyrir því að einhvers staðar í námunda við 1.000 störf verði ekki til staðar ef ferðafólki fækkar um 2% í stað þess að fjölga um 4% milli ára.
  • Eftirspurnarspenna á íbúðamarkaði gæti minnkað. Minni umsvif ferðaþjónustu hafa að öðru jöfnu tvíþætt áhrif á íbúðamarkað. Annars vegar verður tilfærsla á íbúðaframboði frá skammtímaleigu á borð við AirBnB yfir á langtímaleigumarkað eða í framboð á íbúðum til sölu. Hins vegar verður fækkun starfa á endanum til þess að draga úr fólksflutningum til landsins og þar með eftirspurnarþrýstingi á íbúðamarkaði. Rétt rúmur helmingur starfandi í einkennandi greinum ferðaþjónustunnar á síðasta ári var flokkaður sem innflytjendur í gögnum Hagstofunnar og hefur hlutfallið hækkað jafnt og þétt frá því vöxtur ferðaþjónustunnar hófst fyrir alvöru. Lætur nærri að einn af hverjum fimm innflytjendum á vinnumarkaði starfi í greininni.
  • Heildaráhrif á verðbólgu eru óviss. Til skemmri tíma gæti veikari króna en ella leitt til heldur meiri innfluttrar verðbólgu en við spáðum í maí. Á móti vegur til að mynda minna launaskrið á kaldari vinnumarkaði og hægari hækkun íbúða- og leiguverðs. Þau áhrif myndu trúlega vega þyngra á endanum.
  • Vextir gætu orðið lægri en ella. Þróun stýrivaxta veltur vitaskuld að stórum hluta á því hvernig verðbólguhorfur þróast. Til skemmri tíma er því ekki á vísan að róa um hvort lakari taktur í ferðaþjónustu leiði til lægri vaxta. Minni spenna í hagkerfinu og hagfelldari verðbólguhorfur til meðallangs tíma gætu þó orðið til þess að vextir lækkuðu hraðar en við gerðum ráð fyrir í vorspánni.

Í sem stystu máli: Nýlegar vísbendingar um mótbyr í ferðaþjónustu leiða að öðru óbreyttu til minni hagvaxtar, draga úr líkum á styrkingu krónu, verða til þess að minnka spennu á vinnu- og íbúðamarkaði og kalla trúlega á lægri vexti til meðallangs tíma en ella. Þótt sumir þessara þátta séu eflaust ýmsum kærkomin þróun ætti þó að fara varlega í að taka þessari þróun fagnandi án frekari fyrirvara. Spenna í hagkerfinu, þaninn vinnumarkaður og eftirspurnartengd verðbólga eru lúxusvandamál í samanburði við aukið atvinnuleysi, knappari fjárráð heimila og vaxandi rekstrarvanda fyrirtækja í stærstu einstöku útflutningsgrein landsins. Myndin sem að framan er dregin upp byggir á hóflegum samdrætti ferðaþjónustunnar milli ára. Vonandi reynist hún ekki of bjartsýn þegar upp er staðið.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband