Bjartsýni eykst í vetrarbyrjun

Bjartsýni hefur vaxið hjá almenningi jafnt sem stjórnendum fyrirtækja upp á síðkastið. Líklegir áhrifaþættir þar eru meðal annars hjaðnandi verðbólga, lækkun Seðlabankavaxta, áhrif kosninga og stjórnarmyndunar sem og raunsærri væntingar um hvert stefnir í efnahagslífinu. Útlit er fyrir að bæði einkaneysla og fjárfesting færist í aukana á komandi fjórðungum á sama tíma og vinnumarkaður verður áfram í þokkalegu jafnvægi.


Á lokavikum nýliðins árs voru birtar niðurstöður úr væntingakönnunum sem gefa ýmsar vísbendingar um hvað nýhafið ár gæti borið í skauti sér hvað efnahagslífið varðar. Nokkur bjartsýni virðist ríkja um efnahagshorfur meðal landsmanna þessa dagana ef marka má þær kannanir. Á það bæði við um almenning og stjórnendur stærri fyrirtækja.

Væntingavísitala Gallup fór í desember síðastliðnum í sitt hæsta gildi í nærri þrjú ár. Frá miðju ári hefur dregið mikið úr svartsýni á efnahags- og atvinnuhorfur hjá íslenskum almenningi og bjartsýni aukist að sama skapi. Til að mynda fór undirvísitalan fyrir mat á núverandi ástandi í efnahagslífinu yfir 100 stiga jafnvægisgildið í desember, í fyrsta skipti frá árslokum 2022. Vísitölugildi yfir 100 endurspegla fleiri jákvæð svör en neikvæð við spurningum Gallup-fólks. Þá hafa væntingar um komandi fjórðunga á sama tíma stigið jafnt og þétt.

Meiri ferðahugur virðist líka vera í landsmönnum og fleiri hyggja á bifreiðakaup um þessar mundir en undanfarið miðað við nýjustu mælingu Gallup á stórkaupavísitölu sem einnig var birt í desember. Stórkaupavísitalan, sem mæld er ársfjórðungslega, tók talsverðan fjörkipp á lokafjórðungi síðasta árs en henni er ætlað að kanna hug landsmanna til stærri neyslu- og fjárfestingarákvarðana á borð við utanlandsferðir, bifreiðakaup og íbúðakaup. Hefur áhugi á slíkum stórkaupum ekki mælst meiri frá miðju ári 2022. Sér í lagi hækkar undirvísitala fyrirhugaðra utanlandsferða hressilega milli mælinga en einnig hyggja nú fleiri á bifreiðakaup en í síðustu mælingum.

Hins vegar minnkar áhugi á húsnæðiskaupum milli mælinga en eins og myndin sýnir jókst slíkur áhugi umtalsvert í haustmælingu Gallup. Nýja mælingin á húsnæðiskaupunum er því á svipuðum slóðum og að jafnaði mældist frá miðju ári 2021 fram á mitt síðasta ár.  

Vaxandi bjartsýni hjá stjórnendum fyrirtækja

Seðlabankinn birti skömmu fyrir jól niðurstöður úr nýjustu væntingakönnun Gallup meðal stjórnenda stærstu fyrirtækja landsins. Slík könnun er framkvæmd ársfjórðungslega á vegum bankans og SA. Líkt og meðal almennings hefur bjartsýni hjá fyrirtækjastjórnendum aukist talsvert, hvort sem litið er til mats á núverandi aðstæðum í efnahagslífinu eða væntinga til komandi fjórðunga. Á báða þá mælikvarða virðist meiri hugur í fyrirtækjastjórnendunum en verið hefur síðustu 2-3 ár.

Fleira áhugavert er að finna í framangreindri könnun. Í henni er til að mynda spurt hvort skortur sé á starfsfólki í fyrirtæki svarenda. 23% stjórnendanna svara þeirri spurningu játandi í nýjustu mælingu Gallup og hefur það hlutfall ekki verið lægra frá miðju ári 2021 þegar faraldurinn geisaði af fullum þunga með tilheyrandi áhrifum á umsvif margra fyrirtækja.

Gallup mælir einnig væntingar um spurn eftir vinnuafli í þessari sömu könnun. Er þá spurt hvort líklegt sé að starfsmönnum fækki, fjölgi eða fjöldinn standi í stað á næstu 6 mánuðum. Dreifingu svara má kjarna með því sem við köllum vísitölu starfsmannahalds, þar sem hlutfall jákvæðra og neikvæðra er vegið saman með svipuðum hætti og þegar Væntingavísitalan er reiknuð.

Eins og sjá má af grafinu hægra megin á myndinni hér að ofan hefur vísitalan sveiflast töluvert milli mælinga undanfarin misseri en þó má greina nokkra lækkunarleitni frá miðju ári 2022. Atvinnuleysi hefur hins vegar ekki sýnt sambærilega leitni, að minnsta kosti ef horft er á vinnumarkaðskönnun Hagstofunnar, þótt nokkur aukning hafi þar mælst á þriðja ársfjórðungi. Skráð atvinnuleysi hjá Vinnumálastofnun hefur hins vegar þokast lítillega upp á við undanfarið.

Einnig má nefna að talsverður munur er á svörum eftir geira viðkomandi fyrirtækis. Fleiri fyrirtæki hyggjast þannig fækka fólki en fjölga í verslun og hjá framleiðslufyrirtækjum á meðan hið gagnstæða er uppi á teningnum í byggingariðnaði, sjávarútvegi og greinum tengdum ferðaþjónustu og flutningum. Störfum gæti því fjölgað á næstunni í útflutningi og byggingariðnaði en fækkað heldur í ýmsum geirum sem tengjast innlendri eftirspurn.

Heilt á litið túlkum við ofangreindar niðurstöður þannig að jafnt og þétt dragi úr eftirspurnarspennu á vinnumarkaði um þessar mundir án þess að sérstök teikn séu á lofti um að atvinnuleysi muni aukast til mikilla muna.

Ýmsar skýringar á vaxandi væntingum

Hvað skyldi svo skýra þessa auknu bjartsýni meðal íslenskra heimila og fyrirtækja? Okkur detta í hug nokkrir áhrifaþættir sem nærtækt er að líta til:

  • Verðbólguskot síðustu ára hefur lagst fremur illa bæði í almenning og stjórnendur fyrirtækja, hér á landi jafnt sem erlendis. Jafnhliða langþráðri hjöðnun verðbólgunnar á síðasta ári er því ekki að undra að brúnin hafi lést á landsmönnum enda ættu áhyggjur af heimilisbókhaldinu jafnt sem kostnaðarþróun hjá fyrirtækjum að minnka. Þessir aðilar hafa líka jafnt og þétt orðið bjartsýnni á að verðbólga á komandi fjórðungum verði skapleg líkt og sjá má á myndinni hér fyrir neðan.
  • Áhyggjur landsmanna af þrálátri verðbólgu hafa vitaskuld ekki síst tengst áhrifum hennar á vaxtastig í landinu. Eftir að vaxtahækkunarferli Seðlabankans lauk á vordögum 2023 voru stýrivextir óbreyttir í 9,25% allt fram á lokafjórðung þessa árs. Líklegt er að mörgum hafi verið létt að sjá vaxtalækkunarferlið loksins hefjast í októberbyrjun og stýrivexti alls lækka um 0,75 prósentur fram til áramóta.
  • Eins og við höfum áður fjallað um taka væntingar almennings gjarnan nokkurn kipp í aðdraganda alþingiskosninga þegar kosningaloforð auka trúlega væntingar um betri tíð með blóm í haga. Gerðist það einnig nú í haust. Hins vegar er ekki að sjá að bakslag hafi enn orðið í væntingum almennings að nóvemberkosningum afstöðnum eins og stundum hefur gerst. Þar lítum við til þess að stjórnarmyndun gekk hratt fyrir sig þótt ekki sé enn komin mikil reynsla á verk hinnar nýju ríkisstjórnar.
  • Síðast en ekki síst virðist hagkerfið vera að stefna í átt að tiltölulega mjúkri lendingu. Umræða um mikil neikvæð áhrif hárra vaxta og mikillar verðbólgu á fjárhag heimila jafnt sem fyrirtækja var býsna hávær undanfarin misseri og á stundum dregin upp dekkri mynd en efni stóðu til. Enn sem komið er virðast fá teikn á lofti um að hér á landi stefni í útbreitt atvinnuleysi, fjöldagjaldþrot fyrirtækja eða almennar búsifjar hjá heimilum landsins á næstunni.

Væntingavísitala Gallup hefur allnokkra fylgni við þróun einkaneyslu og eins eru nokkur tengsl milli væntinga fyrirtækjastjórnenda og þróun atvinnuvegafjárfestingar í kjölfarið. Við túlkum því framangreindar kannanir sem vísbendingu um að innlend eftirspurn muni fremur aukast en hitt á nýhöfnu ári og að vinnumarkaður muni að sama skapi verða í tiltölulega góðu jafnvægi. Má kalla það allgott eftir þá miklu sveiflu sem hefur verið á íslenska hagkerfinu og raunar heimsbúskapnum öllum það sem af er þessum áratug.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband