Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Birt­ing áhrifaskýrslu árs­ins 2021

Íslandsbanki hefur gefið út áhrifaskýrslu fyrir sjálfbæran fjármálaramma bankans fyrir árið 2021


Íslandsbanki birtir í annað sinn áhrifaskýrslu fyrir sjálfbæran fjármálaramma bankans. Áhrifaskýrslan veitir yfirlit yfir þau lán og fjárfestingar í eignasafni bankans sem uppfylla skilyrði sjálfbæra fjármálarammans og hafa verið flokkuð sem sjálfbær verkefni frá útgáfu hans. Í skýrslunni er að finna áhrifamælikvarða og áætluð jákvæð umhverfis- og samfélagsáhrif sem stafa af verkefnunum.

Sjálfbær útlán meira en tvöfölduðust á milli ára og í lok árs 2021 höfðu lán verið veitt í 11 flokkum af þeim 18 sem skilgreindir eru í sjálfbærum fjármálaramma bankans. Í lok árs 2020 höfðu lán verið veitt í 7 flokkum. Mestur vöxtur var í sjálfbært vottuðum fiskveiðum og úrvinnslu sjávarfangs sem mynduðu um 34% af heildarstöðu sjálfbærra útlána. Þá voru græn útlán um 50% af heildinni og 16% voru samfélagsleg útlán.

Í takt við aukningu sjálfbærra útlána jukust jákvæð áhrif af sjálfbæru lánasafni bankans. Forðuð losun, eða sú losun gróðurhúsa­lofttegunda sem komið er í veg fyrir með því að styðja sjálfbær verkefni í stað meira mengandi verkefna, nær þrefaldaðist milli ára og stóð í um 16,800 tonnum CO2e í lok árs 2021. Vistvænum bílum í lánasafni fjölgaði einnig úr 1,200 í 2,200 og grænum byggingum úr einni í 16, svo eitthvað sé nefnt.