Gæði og áreiðanleiki eru grundvöllur velgengninnar
Austur-Indíafjelagið fagnar 30 árum í ár. Í stafni stendur Chandrika Gunnarsson sem er frumkvöðull í að kynna Íslendinga fyrir hefðbundinni indverskri matargerð.
Austur-Indíafjelagið við Hverfisgötu í Reykjavík er eitt af grónustu veitingahúsum borgarinnar og landsmönnum að góðu kunnt fyrir indverska matargerð eins og hún gerist best. Veitingastaðurinn fagnar 30 ára afmæli í ár og Hraðlestin, sem byrjaði sem eins konar take-away armur Austur-Indíafjelagsins er 20 ára. Fátítt er að veitingahús nái slíkum aldri.
Chandrika Gunnarsson er stofnandi, eigandi og framkvæmdastjóri fyrirtækisins, en það setti hún á legg árið 1994 með Gunnari Gunnarssyni eiginmanni sínum, sem lést 2017. Segja má að hún sé sannur frumkvöðull bæði í að færa og kynna Íslendinga fyrir fjarlægri matarmenningu og svo með þróun starfseminnar og útvíkkun yfir í heimsendingar og vörulínu sem seld er í matvöruverslunum.
Þegar Chandrika er spurð hvort að baki velgengninni sé eitthvað leyndarmál hlær hún og segist varla fara að kjafta frá því ef svo væri. „En annars er þetta ekki flókið. Að baki velgengni í viðskiptum, og kannski á það sérstaklega við um veitingarekstur, er meðvituð ákvörðun um að ætla að ráðast í verkefnið,“ segir hún. „Maður spyr sjálfan þig, af hverju er ég að fara í þetta? Og svo ræðst leyndarmálið að velgengni þinni af svörunum sem þú færð.“
Chandrika segir að hjá þeim hjónum hafi legið til grundvallar löngunin til að bjóða Íslendingum upp á mjög hefðbundna indverska matargerð, sem væri matargerð milljarðs manna. „Og við vildum halda okkur eins nærri rótunum og mögulegt væri og að bjóða fólki matinn í þægilegu og aðlaðandi umhverfi. Svo vildum við tryggja að öllum stundum væru gæði bæði matar og þjónustu af mestu gæðum, og að því væri hægt að ganga.“
Að gæði þjónustunnar séu mikil og áreiðanleg og fólk viti hvað það er að gera segir Chandrika forsendu þess að vel gangi. „Og þetta eru grunnsannindi sem eiga við hvar sem er í heiminum.“
Ástin var grundvöllur alls
Chandrika segir ástina það sem dró hana til Íslands. „Við Gunnar hittumst í háskóla í Bandaríkjunum og vissum það eitt að við vildum ekki búa þar.“ Hún segir spurninguna um hvar þau ætluðu að setja sig niður hafi gerst áleitnari þegar hún gekk með þeirra fyrsta barn. „Ætti það að vera Indland eða ætti það að vera Ísland? Hann langaði mjög að flytja til Indlands og ég vildi gjarnan prófa Ísland. Í árdaga sambands okkar Gunnars hafði ég aldrei komið til Íslands og raunar kom ég hingað í fyrsta sinn til þess að gifta mig hér. Þá höfðum við þegar farið í gegn um fimm daga indverska brúðkaupið okkar á Indlandi.“
Og þótt giftingin hafi bara verið hefðbundin á einum degi hér heima var heimsóknin afdrifarík. „Ég varð ástfangin af landinu um leið og ég var að lenda og horfði niður á þetta stórkostlega landslag með sínum stórkostlegu fjöllum og jöklum. Svo fann ég líka innri frið. Ég fann að ég hafði fundið sjálfa mig og fundið okkur heimili. Eftir það var ekki aftur snúið.“
Chandrika féll sem sagt fyrir bæði eiginmanni og landi en þá er óráðið af hverju þau völdu að setja á stofn indverskan veitingastað. „Ég var náttúrlega ólétt og eins og hendir flestar óléttar konur þá þrá þær einhvern ákveðinn mat og ég þráði indverskan mat. En hér á Íslandi voru í raun engin góðir valkostir þannig að þar fundum við markaðshillu fyrir slíkan mat.“
Hún segir líka alla hafa notið matarins mjög mikið þegar hún eldaði heima og hún hafði ástríðu fyrir því að bera fram góðan indverskan mat. Svo þurftu þau náttúrlega að finna sér eitthvað að gera. „Þannig að við hugsuðum, af hverju ekki að stofna okkar eigin indverska veitingastað? Gunnar hafði ákveðinn bakgrunn í veitingagera, en hann var áður einn af stofnendum pítsastaðar sem hét Jón Bakan.“
Ófyrirséðir hlutir koma alltaf upp
Þegar ákvörðun var tekin lá fyrir að gera viðskiptaáætlun. Chandrika segir slíkar áætlanir áskorun því alltaf komi upp hlutir sem ekki hafi verið fyrirséðir. Það hafi kannski átt sérstaklega vel við verkefni þeirra því flytja þurfti inn svo margt sem til þurfti vegna eldamennskunnar.
„Maður veit ekki alltaf við hverju er að búast í formi áskorana. Stundum virðast hlutir svo einfaldir að þeir rata ekki í viðskiptaáætlunina, eða maður setur ekki eitthvað inn af því maður á ekki von að þar verði vandamál. Það hefur komið fyrir að ég hef horft til baka og hugsa: Mikið óskaplega hlýtur mig að hafa langað í indverskan mat,“ segir hún og hlær.
Og áskoranirnar voru jú þó nokkrar. Fyrsta verkefnið segir Chandrika hafa verið að fá tilfinningu fyrir bragðlaukum Íslendinga og smekk. „Við vissum að kryddin voru ekki til hér þau gátum við flutt inn. Fjölskylda mín ræktar mikið af kryddum þannig að það virtist ekki vandamál. En svo kom í ljós að kóríander, sem ég hélt að yxi alls staðar og hafði tekið sem sjálfsögðum hlut, var ekki til á Íslandi. Þetta er dæmi um eitthvað sem fer fram hjá manni í áætlanagerð.“
Í upphafi var ákveðið að á matseðli Austur-Indía yrðu þekktir réttir á borð við Tandoori-kjúkling, Butter Chicken, og spínatréttinn Saag, sem margir þekktu frá ferðalögum erlendis, en svo einnig rétti frá heimaþorpi Chandriku og voru hluta af fjölskylduuppskriftum hennar þar.
Matseðillinn hefur þróast í gegnum árin, en núna eru árin 30 heiðruð á matseðlinum með margvíslegum réttum sem þar hafa komið við í gegn um árin. „En svo voru líka réttir sem við gátum einfaldlega ekki tekið út af matseðlinum því fólk hafði tengst þeim svo mikið. Til dæmis Gosht Kalimirchi.“
Útvíkkun og vöruþróun
Ástríðuna fyrir matargerð segir Chandrika hins vegar alltaf hafa verið staðar. „Við vorum bæði mjög hrifin af indverskum mat og ég er enn mjög hrifin af indverskum mat. Eins er löngunin til að deila þessari ástríðu með fólki sem kann að meta matinn og nýtur hans enn til staðar. Sem er svo hluti af leyndarmálinu, að vilja halda áfram að bjóða og deila með fólki því sem skiptir þig máli. Ísland er mitt ættleidda heimili og með Íslendingum vil ég deila arfleifð minni og um leið hver ég er.“
Chandrika bætir við að indverskt orðatiltæki sé í þá veru að matur og veðurfar móti manneskjuna. „Ég kem frá heitu svæði og ég held að gestrisnin spretti upp úr þeirri hlýju. Ástin á mat og því að deila mat er mjög stór hluti af Indlandi.“ Alla jafna segir hún að á Indlandi sé maturinn ekki borinn fram á diski heldur sitji fólk saman eins og fjölskylda og deili mörgum réttum. „Það er hluti af ferlinu, að brjóta brauð og deila með fólki.“ Þarna sé grunnurinn að ástríðunni sem hún hafði þá, og hafi enn.
Chandrika og Gunnar voru einnig framarlega í innleiðingu „take-away“ menningar með Hraðlestinni sem þau stofnuðu vorið 2003 með sínum fyrsta starfsmanni, Miroslav Manojlovic heitnum, sem ávallt var nefndur Bato. „Okkur varð ljóst að umfang viðskiptanna kallaði á viðbótareldhús sem annast gæti take-away pantanir, því álagið var orðið mjög mikið á Hverfisgötunni. Sum kvöld fylltum við húsið tvisvar og vorum svo með take-away ofan á það.“
Hugmynd Gunnars var að nota tækifærið með stofnun Hraðlestarinnar og flytja nokkra af vinsælustu réttunum frá Austur-Indía til þangað yfir um leið og haldið væri áfram að þróa og bjóða upp á mismunandi indverska rétti sem ekki væri alla jafna í boði á öðrum indverskum veitingahúsum. „Réttir á borð við Chicken 65, Butter Chicken og Chicken Tikka Masala fluttu allir á Hraðlestina.“
Smásala bættist ofan á
Vöruþróunin hefur svo haldið áfram á báðum stöðum, en sem dæmi um nýbreytni nefnir Chandrika að á Hraðlestinni bjóði matreiðslumeistararnir upp á nýjan rétt í hverri viku.
Þá hafa viðskiptin líka vaxið með sölu á vefjum, naan-brauði og sósum Hraðlestarinnar í matvöruverslunum sem hófst 2019. Vörurnar fást nú í flestum verslunum Krónunnar á höfuðborgarsvæðinu, Selfossi, Akranesi og Akureyri, í Melabúðinni, á völdum N1 stöðvum og á Landspítalanum.
„Á veitingastöðunum höfum við svo haldið áfram að prófa okkur áfram með mismunandi hráefni,“ segir Chandrika og bætir við að íslenskt hráefni falli afar vel að indverskri matarhefð, hvort sem það séu lambaskankar, kótilettur eða sjávarfang. „Í fyrstu var fólk reyndar aðeins tortryggið á þá hugmynd að „skemma“ hreinan og góðan íslenskan fisk með öllum þessum kryddum, en núna er fiskrétturinn Hariyali-lax í einn af vinsælustu réttunum.“
Chandrika segir hjónaband íslensks hráefnis og indverskrar matarhefðar afar vel heppnað. „Lambið passar fullkomlega við indversku kryddin og grillast mjög vel í Tandoori og fiskurinn tekur mjög vel við indversku kryddunum. Ég held að þetta sé fullkomin samsetning, íslensk hráefni og indversk krydd.“
Gott starf unnið á Indlandi
En þó að Chandrika hafi fallið fyrir Íslandi og sest hér að heldur hún líka tryggð við rætur sínar og gefur til baka til samfélagsins á Indlandi. „Fyrir um 20 árum stofnuðum við skóla á Indlandi og Íslendingar hafa lagt sitt af mörkum til skólans og til reksturs hans.“ Í upphafi var um leikskóla að ræða en starfsemin hefur vaxið og nær núna allt til framhaldsskólastigs. Í skólanum eru um 440 til 450 nemendur. „Núna er annað árið í röð þar sem nemendur frá okkur hafa farið í háskóla.“
Rekstur skólans byggir fyrst og fremst á frjálsum framlögum en bæði Austur-Indíafjelagið og Hraðlestin leggja sitt af mörkum til hans. „Og svo renna til skólans 50 til 100 krónur af hverri vöru sem við seljum í smásölu,“ segir Chandrika og bætir við að líklega sé allt í lagi að fólk viti að hluti þess sem það greiðir fyrir mat eða vörur frá Austur-Indía og Hraðlestinni renni til góðs málefnis. „Með þessu hefur líf fjölda barna verið bætt, en mikil fátækt er þar sem við starfrækjum skólann. Við höfum gefið ungum stúlkum tækifæri til að fá menntun og komast áfram. Meðal annars höfum við sett á stofn tvo námsstyrki til háskólanáms fyrir þessa nemendur í nafni Gunnars.“
Chandriku er hjartans mál að þetta starf haldi áfram og segir börn sín jafn áfram um það og hún er sjálf. „Þau sjá ávinninginn í því að gefa til baka, sem er líka mjög mikilvægur hluti af indverskri menningu. Ég er mjög stolt af því að við höfum gefið til baka og stuðlað að breytingum til góðs.“
Brennur enn fyrir verkefninu
Þegar talið berst að framtíð reksturs fyrirtækja Chandriku segir hún að um sumt séu áskoranirnar svipaðar þeim sem voru fyrir 30 árum. En grunnáskorunin tengd því að reiða fram góða vöru og kynna indverska matarhefð fyrir Íslendingum tel ég að sé yfirstaðin og að Íslendingar treysti okkur og hafi lært að meta það sem við höfum að bjóða.“
Í oft erfiðu rekstrarumhverfi íslensks veitingahúsageira hafa Austur-Indíafjelagið og Hraðlestin ekki bara lifað af heldur blómstrað. „Fólkið velur okkur aftur og aftur því það veit hvað við erum áreiðanleg og að hjá okkur er hægt að ganga að gæðunum vísum, sama hvert tilefnið er. Og af því fólk ber til okkar traust getum við líka haldið áfram að bjóða margvíslega svæðisbundna matargerð frá Indlandi og nýjungar sem sumir hafa prófað erlendis en koma öðrum skemmtilega á óvart.“
Chandrika segist sjá fyrir sér að halda áfram að færa Íslendingum leyndardóma Indlands, svo fremi sem hún haldi orku og ástríðu til að gera það. „Ég hef ekki velt fyrir mér að hætta, eða selja eða hvort möguleiki sé á slíku. Ég er þar sem ég vil vera.“