Aukinn halli á vöru- og þjónustuviðskiptum á fyrri árshelmingi

Samdráttur í tekjum ferðaþjónustu og aukin útgjöld vegna innfluttrar þjónustu skýra minni þjónustuafgang á öðrum fjórðungi ársins en á sama tíma í fyrra. Halli á vöru- og þjónustuviðskiptum var sexfalt meiri á fyrri helmingi þessa árs en á sama tíma í fyrra. Lakari utanríkisviðskipti eru líklegur áhrifaþáttur í óhagfelldari gengisþróun krónu á fyrstu tveimur þriðjungum þessa árs en í fyrra.


Þjónustujöfnuður við útlönd var jákvæður um 67,2 ma.kr. á öðrum fjórðungi ársins samkvæmt nýlega birtum tölum Hagstofunnar. Er það tæplega 22 ma.kr. minni afgangur en á sama tíma í fyrra. Minni afgangur skýrist bæði af tæplega 12 ma.kr. samdrætti í þjónustuútflutningi sem og tæplega 10 ma.kr. aukningu í innflutningi þjónustu. Útflutningstekjur af þjónustu voru alls rúmlega 251 ma.kr. á tímabilinu en útgjöld vegna innfluttrar þjónustu námu tæplega 172 ma.kr.

Eins og jafnan áður skýrist afgangurinn að stærstum hluta vegna mun meiri útflutningstekna  af ferðaþjónustu og tengdum greinum en sem nam sambærilegum útgjöldum vegna ferðalaga landans út fyrir landsteinana. Ferðalög, samgöngur og flutningar skiluðu samtals 87 ma.kr. hreinum útflutningstekjum sem jafngildir 9 ma.kr. minni afgangi en á sama tíma í fyrra. Þá var tæplega 7 ma.kr. afgangur af viðskiptum tengdum rannsókna- og þróunarþjónustu. Á móti vó meðal annars tæplega 11 ma.kr. halli á viðskiptum tengdum tækniþjónustu og skyldum greinum, tæplega 5 ma.kr. halli á viðskiptum með menningar- og afþreyingarþjónustu og sömuleiðis nærri 5 ma.kr. halli á greiðslum fyrir sérfræði- stjórnunar- og ráðgjafaþjónustu milli landa.

Ferðaþjónustutekjur skruppu saman

Eftir myndarlegan vöxt í útflutningstekjum tengdum farþegaflutningum og ferðalögum síðustu ár skruppu slíkar tekjur saman í krónum talið á öðrum fjórðungi frá sama tíma í fyrra. Alls námu tekjur af því tagi 154 ma.kr. á fjórðungnum samanborið við 160 ma.kr. á öðrum fjórðungi 2023. Rímar það allvel við nærri 10% fækkun í skráðum gistinóttum erlendra gesta og tæplega 6% færri brottfarir erlendra gesta um Keflavíkurflugvöll á sama tíma. Slíkar tekjur voru þrátt fyrir þetta þær næst hæstu á þessum ársfjórðungi frá því ferðaþjónustunni tók að vaxa fiskur um hrygg.

Útgjöld landsmanna tengd ferðalögum erlendis stóðu hins vegar nánast í stað milli ára í krónum talið. Slík útgjöld námu tæpum 66 ma.kr. á öðrum fjórðungi í ár en tæpum 65 ma.kr. á sama tíma í fyrra. Á tímabilinu fækkaði utanferðum Íslendinga um tæplega 6% miðað við brottfarartölur um Keflavíkurflugvöll. Þar þarf þó að hafa í huga að páskafrí landsmanna féll að stærstum hluta á marsmánuð þetta árið. Því voru þeir sem vörðu páskafríinu erlendis taldir á 1. fjórðungi þetta árið en að mestu leyti á 2. fjórðungi í fyrra. Með það í huga virðist vera allgott samræmi milli ferðaútgjalda landans og brottfara á tímabilinu.

Meiri halli en í fyrra

Nú liggja fyrir heildartölur um vöru- og þjónustuviðskipti á fyrri helmingi þessa árs. Alls var afgangur af þjónustuviðskiptum 85 ma.kr. á fyrri árshelmingi samanborið við 116 ma.kr. afgang á sama tíma í fyrra. Á móti var halli á vöruskiptum við útlönd 146 ma.kr. á fyrri helmingi þessa árs og þar með 20 ma.kr. meiri en á sama tíma í fyrra. Halli á vöru- og þjónustuviðskiptum var því alls 60 ma.kr. á tímabilinu samanborið við 10 ma.kr. halla á fyrri helmingi síðasta árs.

Þrátt fyrir óhagstæðari vöru- og þjónustuviðskipti við útlönd á fyrri helmingi þessa árs en á sama tíma í fyrra var gengisþróun krónu á heildina litið keimlík. Á fyrri árshelmingi 2023 styrktist krónan um tæp 3% miðað við gengisvísitölu Seðlabankans en á sama tíma þetta árið nam styrkingin tæpri prósentu. Þróunin það sem af er þriðja fjórðungi hefur hins vegar verið nokkuð ólík þróuninni í fyrra. Hefur gengi krónu veikst um ríflega prósentu frá júlíbyrjun en styrktist um rúm 3% á sama tíma í fyrra. Þótt aðrir kraftar vegi þungt, og raunar oft talsvert þyngra en vöru- og þjónustuviðskipti á gjaldeyrismarkaði skiptir væntanlega máli að flæði tengt vöru -g þjónustuviðskiptum í ár hefur verið töluvert neikvæðara en var á fyrstu tveimur þriðjungum síðasta árs.

Eins og sjá má af myndinni hefur hlutur ferðaþjónustu í útflutningstekjum stækkað verulega á nýjan leik síðustu misserin eftir ládeyðu faraldurstímans. Alls var rétt tæpur þriðjungur af heildar útflutningstekjum þjóðarbúsins frá júlí í fyrra fram til júníloka á ár tengdur ferðaþjónustu. Var það litlu minna en samanlögð hlutdeild sjávarafurða og áls í heildartekjunum. Þá hafa útflutningstekjur af annarri þjónustu en ferðaþjónustu sótt í sig veðrið og var hlutdeild þeirra í heildartekjum af útflutningi ríflega 17% á þessu tímabili, en til samanburðar skiluðu aðrar vörur en fiskur og ál samtals 15% af heildar útflutningstekjum.

Seðlabankinn birtir í septemberbyrjun tölur yfir þá tvo undirliði viðskiptajafnaðar sem enn vantar til að fá heildarmynd af viðskiptajöfnuði annars ársfjórðungs. Má þar búast við að afgangur af frumþáttatekjum og halli á hreinum framlögum til og frá landinu vegist á líkt og undanfarna fjórðunga. Líklega verður niðurstaðan þó viðskiptahalli í ljósi þess halla sem var á vöru- og þjónustuviðskiptunum. Hvort afgangur á seinni árshelmingi vegur upp halla á þeim fyrri leiðir svo tíminn í ljós en þess má geta að í nýlega birtum Peningamálum spáir Seðlabankinn lítilsháttar viðskiptahalla á árinu. Tökum við undir með bankanum varðandi það að horfur um viðskiptajöfnuð virðast heldur hafa versnað undanfarið þótt enn sé útlit fyrir þokkalegt jafnvægi á utanríkisviðskiptum í ár.

Höfundur


Profile card

Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband