Samkvæmt nýbirtum tölum Vinnumálastofnunar mældist skráð atvinnuleysi 6,1% í júlí og dróst því talsvert saman frá júnímánuði þegar það mældist 7,4%. Atvinnuleysi hefur farið minnkandi frá því að það mældist hæst 11,6% í janúar á þessu ári.
Almennt atvinnuleysi minnkaði allstaðar á landinu. En líkt og fyrri daginn mælist atvinnuleysi mest á Suðurnesjum eða um 11% en hefur þó farið hjaðnandi jafnt og þétt frá því það var 26% í janúar. Stór hluti starfa á Suðurnesjum eru tengd ferðaþjónustu sem skýrir þetta mikla atvinnuleysi á svæðinu. Næst mest var atvinnuleysið á höfuðborgarsvæðinu eða um 6,7% og lækkar um rúm 1% milli mánaða.