Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Atvinnuleysi ekki lægra í 4 ár

Atvinnuleysi minnkaði í maí frá fyrri mánuði og mælist nú 3,0%. Atvinnuleysi hefur ekki verið svo lágt í yfir fjögur ár. Það ríkir þensla á vinnumarkaði og enn telur stórt hlutfall fyrirtækja sig búa við skort á starfsfólki. Mikilli eftirspurn eftir starfsfólki hefur verið mætt af erlendu starfsfólki.


Samkvæmt nýlegum tölum Vinnumálastofnunar mældist skráð atvinnuleysi 3,0% í maí og hjaðnaði úr 3,3% frá fyrri mánuði. Í byrjun ársins var atvinnuleysið 3,7% og hefur það þar af leiðandi hjaðnað nokkuð hratt undanfarna mánuði. Skráð atvinnuleysi hefur ekki mælst jafn lágt síðan í janúar árið 2019 en á því ári fór flugfélagið WOW-air í gjaldþrot sem leiddi til þess að atvinnuleysi jókst til muna. Líklega mun atvinnuleysi mælast í grennd við 3,0% næstu mánuði þar sem það mælist alla jafna lægst yfir sumarmánuðina.

Spenna er mikil á vinnumarkaði

Það er mikil spenna á vinnumarkaði og talsverð eftirspurn eftir starfsfólki. Samkvæmt árstíðarleiðréttum niðurstöðum könnunar hjá 400 stærstu fyrirtækjum landsins vilja 30% stjórnenda fjölga starfsfólki á næstu 6 mánuðum en aðeins 12% vilja fækka því. Hlutfall þeirra fyrirtækja sem vilja fjölga starfsfólki hefur þó lækkað frá því að það mældist hæst á fyrsta fjórðungi síðasta árs í kringum 40%. Einnig hefur þeim fyrirtækjum sem vilja fækka starfsfólki aðeins fjölgað þó hlutfallið sé lágt í sögulegu samhengi.

Þessari auknu eftirspurn eftir vinnuafli á undanförnum misserum hefur verið mætt af erlendu starfsfólki. Erlent starfsfólk telur nú 22% vinnumarkaðar og hefur hlutfall þeirra aldrei verið hærra. Þessi fjölgun erlends starfsfólks skýrir að stærstum hluta þá sögulega fólksfjölgun sem hefur átt sér stað á undanförnum misserum. Íbúum landsins fjölgaði um 3% á síðasta ári sem er mesta ársfjölgun frá upphafi mælinga auk þess sem horfur eru á áframhaldandi fjölgun aðflutts vinnuafls hingað til lands á næstunni, á meðan spenna ríkir enn á vinnumarkaði. Það sést glögglega á mannfjöldatölum fyrsta fjórðungs ársins þegar landsmönnum fjölgaði um ríflega 3.000, þar af voru aðfluttir erlendir ríkisborgarar 2.790 talsins.

Atvinnuleysi á svipuðum stað út árið

Vinnumarkaður hefur enn eina ferðina sýnt hversu sveigjanlegur hann er á umrótatímum. Atvinnuleysi, sem stóð hæst í 12% af vinnuafli í faraldrinum, mælist nú 3,0% rúmum tveimur árum síðar. Við teljum að atvinnuleysi verði áfram á svipuðum slóðum og það er í dag. Í nýlegri þjóðhagsspá okkar í Greiningu spáum við að jafnaði 3,4% atvinnuleysi á þessu ári. Samhliða minni spennu á vinnumarkaði á næsta ári mun atvinnuleysi aukast lítillega og vera í kringum 4% árin 2024 og 2025.

Höfundur


Bergþóra Baldursdóttir

Hagfræðingur í Greiningu


Hafa samband